World Class opnar í Austurberginu

world-class-breidholt-iv

Úr glæsilegum sal World Class í Austurbergi. Sviðið var notað þegar Dansstúdíó World Class bauð upp á dansnámskeið á dögunum en verður ekki í salnum nema þegar viðburðir kalla eftir því.

World Class mun opna heilsuræktarstöð í Breiðholti innan nokkurra daga. Verið er að leggja lokahönd á byggingu hennar og að koma nauðsynlegri aðstöðu upp. Stöðin sem er til húsa við Íþróttahúsið við Austurberg og Breiðholtslaug er hönnuð frá grunni sem heilsuræktarstöð. Gólfflötur stöðvarinnar er um 1700 fermetrar. Um 1200 fermetra jarðhæð og 500 fermetra efri hæð.

Í húsnæðinu eru fjórir hóptímasalir, Hot Yoga salur, Spinning salur, Dans salur og PRAMA salur sem er sérútbúin til að auka snerpu og styrk og er nýjung á Íslandi. Tækjasalurinn er bjartur og rúmgóður útbúin nýjustu þol og styrktartækjum frá Life Fitness og Hammer strenght sem er stærsti tækjaframleiðandi í heimi. Arkitekt hússins er Ari Már Lúðvíksson og Arkitektastofan Úti og Inni. Þetta er fjórða heilsuræktarstöðin sem hann hannar fyrir World Class. Hinar stöðvarnar eru Laugar, World Class á Seltjarnarnesi, Selfossi og nú í Breiðholti. Björn Leifsson í World Class segir að upphaflegu hugmyndina að heilsuræktarstöð í Breiðholti megi rekja í um fjögur ár aftur í tímann. Þá hafi komið til tals hvort hægt væri að nota húsnæði í Gerðubergi fyrir þessa starfsemi. “Ég leit á þetta húsnæði á sínum tíma en það hentaði engan vegin vegna þess hve lítið það var”. Engin heilsuræktarstöð var í Breiðholtinu og hefur ekki verið fyrr en nú að World Class opnar í Austurberginu.

Borgarfulltrúar áhugasamir

Þau Björn og Dísa segja að fyrir um tveimur árum hafi verið auglýst eftir aðilum sem vildu koma að byggingu heilsuræktarstöðvar við Breiðholtslaug. Tveir aðilar hafi boðið í og endir málsins hafi verið að samið var við World Class. „Kjartan Magnússon borgarfulltrúi var mjög áhugasamur um þetta verkefni. Síðan kom Jón Gnarr og hans fólk og setti stefnu borgarinnar á Breiðholtið og Dagur B. Eggertsson hefur haldið þeim kúrs að miklu leyti,“ segir Björn.

Tengingin við íþróttaaðstöðuna mikilvæg

Dísa bendir á að tenging stöðvarinnar við íþróttaaðstöðuna við Austurberg komi til með að styrkja alla þá starfsemi sem fram fer á svæðinu og svo sé Leiknisvöllurinn í næstu nálægð. „Ég tel að tilkoma okkar hér muni verða mikill styrkur fyrir Breiðholtið. Laugin er mjög vinsæl og mér er tjáð að fólk komi víða að til þess að synda og fara í heitu pottana sem þykja með þeim betri ef ekki þeir bestu í borginni. Það er þegar búið að endurbyggja búningsaðstöðuna þar og laga margt til. Þetta lítur því mjög vel út og ég hlakka til að eiga samleið með Breiðholtslauginni.“

Þrjár kynslóðir hittast í ræktinni

Þau Björn og Dísa segja að heilsuræktin sé alltaf að verða vinsælli og vinsælli. Þarna sé einkum um ákveðna breytingu á afstöðu fólks til hreyfingar og á lífsstíl. „Við sjáum það ekki síst þegar allar kynslóðir koma. Eldra fólk sem ekki hefði látið sig dreyma um að stunda líkamsrækt á yngri árum kemur nú og flestir finna sér eitthvað við sitt hæfi. Stundum hittast fjölskyldurnar í líkamsræktinni. Þrjá kynslóðir koma á sama tíma og eldra fólkið er að hitta barnabörnin sín.“

Tóku forskot

Þau Björn og Dísa eru aðeins búin að taka forskot á sæluna í World Class Austurbergi á dögunum þar sem Dansstúdíó World Class bauð upp á dansnámskeið sem var kallað “Dance Camp” þar sem tvær af þekktustu dönsurum Bandaríkjanna kenndu. Dansararnir kalla sig KK Harris og Hollywood, en þau hafa unnið með stórstjörnum á borð við Beyoncé og Usher. Gleðin skein úr augum yfir 200 dansara á öllum aldri alla helgina. DWC eða Dansstúdíó World Class mun bjóða upp á flott námskeið í öllu því nýjasta í dansheiminum í dag. „Við erum mjög ánægð að vera komin í Breiðholtið segja þau að lokum. Við ætlum að gera okkar besta eins við höfum alltaf haft að stefnu og leiðarljósi.”

You may also like...