Hver var Sigurður í Görðum?

— útvegsbóndi í Skerjafirði og einn þeirra sem lagði Reykvískri framtíð lið —

Sigurður Jónsson útvegsbóndi í Görðum og frumkvöðull í Skerjafirði.

Þótt Vesturbærinn byggðist upp frá Miðbæjarsvæðinu, einkum Aðalstræti og síðar vestur með sjávarsíðunni þar sem fiskimennska færði björg í bú á hann sér einnig annan uppruna. Sá er í Skerjafirði. Sunnan megin á nesinu sem Vesturbærinn og Seltjarnarnes standa á. Þar var snemma bæði stundaður landbúnaður og útvegur. Útvegsbændur festu sér ból og nokkur byggð þróaðist og tengdist byggð sem myndast hafði við sjósókn og búfjárhald á Seltjarnarnesi. Einn þeirra manna sem var frumkvöðull í Skerjafjarðarbyggðinni var Sigurður Jónsson í Görðum. 

Sigurður var fæddur í Skildinga­nesi í Skerjafirði árið 1865 og bjó síðan í Görðum. Hann stundaði sjó bæði á árabátum og skútum auk þess að nýta landsins gæði og starfa við búskap. Sigurður var annálaður sjógarpur og var einnig þátttakandi í ýmsum breytingum sem urðu á atvinnuháttum og mörkuðu spor inn í framtíðina. Honum hefur verið lýst sem ötulum starfsmanni með sterka trú á landið og þjóðina. Í skapgerð hans og lífsviðhorfi hafi mátt finna alla bestu kosti sem íslenska þjóðin býr yfir. 

Tengdi fortíð og framtíð

Í ævisögu Sigurðar sem rituð var af Vilhjálmi S. Vilhjálmssyni blaðamanni og rithöfundi kemur fram að menn eins og hann tengi saman fortíð og framtíð. Frá honum hafi komið dýrmæt reynsla og minningar um liðna atburði sem flust hafi á milli kynslóða. Sigurður ólst upp við fjöruborðið. Hann segir frá því að í æsku hafi flæðarmálið og skerin verið helsti leikvangur sinn. Hinum megin Skerjafjarðar er Álftanes sem Sigurði þótti sem ungum dreng vera óralangt í burtu. Næstum eins og um annað land væri að ræða. Á Bessastöðum bjó þá Grímur Thomsen. Drengurinn í Görðum var stundum fenginn til að róa með Grím yfir á Álftanes eftir ferðir hans til Reykjavíkur. Grímur var umdeildur. Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur og forseti Íslands sagði frá því í erindi sem hann hélt á ráðstefnu Bókmennta- og listfræðastofnunar Háskóla Íslands að andúð í garð Gríms Thomsens um hans daga sé vel dregin saman í fregninni frægu eða alræmdu sem Jón Ólafsson ritstjóri birti í blaði sínu og hljóðar svo. „Rétt áður en póstskipið fór að heiman síðast vildi það slys til að dr. Grímur Thomsen féll af hesti niður um ís á Lambhúsatjörn á Álftanesi og drukknaði ekki. Íslands óhamingju verður allt að vopni.“

Ekki góðar minningar um Grím 

Sigurður lýsir því að hann hafi ekki átt góðar minningar um þær sjóferðir er hann ferjaði Grím yfir Skerjafjörðinn en bætti þó í frásögnina Grími í vil. „Það var því líkast að hann sæi ekki snáðann sem reri þó undir honum. Aldrei rétti hann mér nokkurn skapaðan hlut, ekki einu sinni gráfíkju eða rúsínuögn, hvað þá aura en mér skildist að skáldið væri aurasárt. Hins vegar efast ég ekki um að hann hafi haft stórt og ylríkt hjarta. Það sýna ljóð hans, auk karlmennskunnar, og sannast mun það vera að ljóðin lýsi Grími Thomsen best og verði rökvísi vitnisburðurinn um hann lífs og liðinn.“  

Skildinganes frá fyrir eða um 1600 

Lengi vel stóðu deilur um landamerki á milli Skildinganess og Reykjavíkur en Skildinganes er suðurhluti þess lands sem nú er borgarstæði Reykjavíkurborgar. Í sögu Reykjavíkur eftir Klemens Jónsson kemur fram að samkvæmt landamerkjaskrá frá um 1500 virðist nesið hafa verið hluti úr því sem kölluð var Víkurtorfan en Klemens dregur þær heimildir þó í efa. Ókunnugt mun hvenær Skildinganes hafi fyrst byggst vegna þess að hvergi megi finna heimildir um byggð þar í bréfum fram til um 1550. Elstu heimildir um jörðina eru bréf þar sem skólameistara í Skálholti eru lagðar jarðir til uppihalds 1553 og síðan bréf 1556 þar sem Knud Stensen hirðstjóri leggur jarðir Skálholtsstaðar á Álftanesi og Seltjarnarnesi undir konung.

Lítið graslendi

Árið 1801 voru íbúar Reykjavíkurkaupstaðar 311 talsins en í öllum Seltjarnarneshreppi sem Reykjavík tilheyrði þá bjuggu um 870 manns. Í kvosinni bjuggu einkum embættismenn, verslunarmenn og fólk sem hafði ofan af fyrir sér með margvíslegu handverki. Umhverfis bæinn bjuggu hjáleigumenn, þurrabúðarmenn og húsmenn og enn lengra í burtu voru fleiri býli og kot. Í Skerjafirði voru nokkur býli. Þar á meðal Garðar þar sem Sigurður Jónsson kleif ölduna í tvennum skilningi. Annars vegar sem sjógarpurinn en hinn sem framsækinn útvegsmaður og bóndi með trú á land og þjóð. Landbúnaður var þó ætíð erfiðleikum háður í Skerjafirði. Ræktanlegt land var lítið og erfitt um heyskap. Graslendi var þar sem olíustöð Shell var byggð síðar, en land sem nú er undir flugvellinum voru einkum gróðurlitlir melar. Áhersla var lögð á sléttun túna og unnið við það jafnvel á vetrum þegar tími gafst frá róðrum. Sigurður segir svo frá að faðir sinn hafi haft tvær kýr en tæpast verið hægt að ná fóðri fyrir þar af heimatúninu. Því hafi hann haft slægjuland í Breiðholti vestur af Blesugróf og einnig á Kjalarnesi. Því má ljóst vera að aðdrættir hafi verið erfiðir þegar flytja þurfti heyfenginn á hestum um langar leiðir.  

Leikin að umgangast fólk

Í ævisögu Sigurðar kemur fram afstaða hans til trúar. Tengist það einkum minningum um ömmu hans sem hann taldi sig eiga margt að þakka. Hann minnist morgunbænanna sem hún kenndi honum. Hann sagðist stundum hafa fundið fyrir ótta og kvíða sem barn og á síðari árum hafi honum fundist sem börn þjáðust meira af því en áður. Hann velti fyrir sér hvort ástæða þess væri sú að þau fengju ekki að njóta öryggis guðstrúarinnar. Hann sagði kyrrð og mildi ömmu sinnar hafa verið frábæra. Hún hafi spunnið þá þræði í sálarlíf sitt sem haldbestir hafi reynst sér og kvaðst í framhaldi vona að líf sitt hafi aldrei valdið árekstrum eða sárindum fyrir samferðamenn sína. Þannig blandaðist ákveðin heimspeki inn í athafnasamt líf Sigurðar og leikni hans við að umgangast samferðafólk sitt. 

You may also like...