Breiðholtið er gróið hverfi

oskar-dyrmundur-10-1

Óskar Dýrmundur Ólafsson hverfisstjóri í Breiðholti.

“Breiðholt er gróið hverfi þar sem íbúar hafa haft mikið frumkvæði við að vinna samfélagi sínu gagn. Mjög öflugt íþróttastarf er í Breiðholtinu og þar blómstrar einnig starf félagasamtaka og söfnuða. Nú er búið að koma á fót líkamsræktarstöð í hverfinu í tengslum við Breiðholtslaugina sem margir sækja og nú síðast var Fab Lab vinnustofan flutt inn í FB. Menningarmiðstöðin Gerðuberg hefur starfað þar í áratugi og er nú orðin hluti af margbreytilegu menningarstarfi sem heyrir undir Borgarbókasafnið í Reykjavík. Breiðholtið er hverfi margbreytileika þar sem íbúalýðræði, heilsa og félagslegur jöfnuður er höfð að leiðarljósi. Breiðholt er umhverfisvænt hverfi þar sem lögð er áhersla á samstarf um betra samfélag,” segir Óskar Dýrmundur Ólafsson hverfisstjóri í Breiðholti í spjalli við Breiðholtsblaðið.

Óskar segir að með ráðningu hverfisstjóra í tilraunaskyni í Beiðholti hafi verið gengið skrefi lengra en áður hafi verið gert í Reykjavík til frekari hverfavæðingar. Starfsheiti framkvæmdastjóra Þjónustumiðstöðvar Breiðholts hafi verði breytt í hverfisstjóra og honum falin formleg ábyrgð á að hafa forystu um slíkt samstarf ásamt því að leiða og stýra samstarfs- og samráðsverkefnum í hverfinu þvert á svið borgarinnar. Markmiðið með breytingunni sé fyrst og fremst að bæta þjónustu við íbúa í hverfinu og nýta auðlindir borgarinnar betur og megi nefna bæði starfsfólk og húsnæði í því sambandi. Óskar bendir á að mikil þekking sé til staðar innan stofnana í Breiðholti og fjöldi verkefna farin að skila árangri. En alltaf megi gera betur og ákveðin þróun sé nú hafin um frekari umbætur í byggðarlaginu.

Geðheilsustöð, fjölskyldumiðstöð og fleira

Þegar Óskar er inntur nánar eftir verkefnum sem hafa verið í gangi og skilað árangri nefnir hann nokkur þeirra. “Mig langar fyrst að nefna Geðheilsustöð Breiðholts þar sem frábær árangur hefur náðst í samstarfi við Landsspítala Háskólasjúkrahús. Þetta samstarf hefur þýtt að um 30% færri innlagnir á spítala er að ræða. Annað sem ég get nefnt er Fjölskyldumiðstöðin í Gerðubergi. Nú er búið að þróa félagsmiðstöð sem þar hefur starfað yfir í fjölskyldumiðstöð. Fjölskyldumiðstöðin hýsir nú meðal annars starfsemi á borð við verkefnið Menntun núna sem miðar að því að fá fólk sem einhverra hluta vegna hefur orðið viðskila við skólanám til þess að hefja nám að nýju og hefur það gefið mjög góða raun. Þá má nefna félagslega verkefnið Tinnu og einnig íslenskunámskeið og margt fleira.” Hvað er Tinna. “Tinna er starf þar sem unnið er gegn fátækt og félagslegum erfðum þar sem félagslegur og fjárhagslegur vandi færist á milli kynslóða og einnig að valdeflingu með fátækum fjölskyldum. Þetta er unnið í samstarfi með velferðavaktinni. Þarna er um nýja nálgun að ákveðnum vandamálum að ræða sem þegar er farin lofar góðu. Menntun núna er aftur á móti samstarf menntamálaráðuneytis, aðila vinnumarkaðar, stéttarfélaga, háskóla, Reykjavíkurborgar um að stuðla að auknu menntastigi. Því verkefni er að mestu lokið með ágætum árangri en fyrirhugað að halda því áfram sem sjálfstæðu verkefni.

Öflugt fjölmenningarsamfélag og heilsukúltúr

Svo er að byggjast upp öflugt fjölmenningarsamfélag í Breiðholtinu. “Já – ekki má gleyma því þegar fjallað er um hverfið. Stóra áskorunin sem við stöndum frammi fyrir felst í því hvernig okkur gengur að taka vel á móti nýjum íbúum og efla þá í að verða þátttakendur í því frábæra samfélagi sem er fyrir í Breiðholtinu. Hlutirnir breytast og þróast hratt – svo hratt að við höfum þurft að gefa upp á nýtt. Það er það sem við höfum verið að gera. Ég get nefnt að þegar Rauða kross skýrslan umtalaða var kynnt í velferðaráði viðurkenndu fulltrúar RKÍ að við værum á réttri leið. Annað sem ég get nefnt og farið er af stað í Breiðholtinu er heilueflingarátakið sem hefur verið kynnt og fjallað um í Breiðholtsblaðinu. Með því er verið að taka betur á alhliða heilsueflingu en áður hefur verið gert í byggðum borgarinnar – það er hreinlega verið að breyta kúltúr hverfisins. Ég tel að takist vel til með það verkefni þá eigi það eftir að verða öðrum fyrirmynd til að byggja upp heilsusamlegan lífsstíl,” segir Óskar.

You may also like...