Undirbúningur að íbúða­hverfi í Norður Mjódd

Séð yfir svæði í Norðurmjódd sem ætlunin er að endurbyggja. Eins og sést á myndinni er um fremur sundurlausa byggð að ræða, sérhæfðar skemmur og umtalsvert rými er undir bílastæði.
Mynd: Klasi.

Nú líður að því að hafist verði handa um uppbyggingu íbúða­hverfis í Norður Mjódd í Breiðholti. Íbúðahverfið mun leysa af byggð sem einkum hefur hýst viðskiptaumhverfi. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur þann 28. júní 2023 var lögð fram skipu­lagslýsing vegna fyrirhugaðrar breytingar á deiliskipulagi Norður Mjóddar fyrir lóðirnar Stekkjarbakka 4 til 6 og Álfabakka 7. 

Samþykkt var að kynna lýsinguna fyrir almenningi ásamt því að leita umsagnar hjá Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, Vegagerðinni, Verkefnastofu Borgarlínu, Betri Samgangna, Strætó bs., Veitum ohf., Minjastofnun Íslands, Íbúaráði, íbúasamtökum í Breiðholti, slökkvi­liði höfuðborgarsvæðisins, sam­tökum sveitarfélaga á höfuð­borgar­svæðinu, Kópavogsbæ og eftir­töldum deildum, skrifstofum og sviðum Reykjavíkurborgar; skrifstofu framkvæmda og viðhalds, samgöngu- og borgarhönnunardeild, skrifstofu reksturs og umhirðu, skrifstofu umhverfisgæða, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Skóla- og frístundasviði og Velferðarsviði. Ekki verður um stækkun lóða að ræða en lóðamörk geta tekið breytingum. Lóðarhafi í Norður Mjódd er Klasi fasteignaþróunnarfélag. Eigendur Klasa eru Hagar hf., Regin hf. og KLS eignarhaldsfélag ehf. 

Fjögurra til sjö hæða byggingar

Samkvæmt skipulagshugmynd­um verður lögð áhersla á blandaða byggð á fyrrgreindum lóðum. Þar er gert ráð fyrir íbúðum matvöruverslun auk fleiri innviða. Fyrir liggur að öll starfsemi Garðheima verður flutt yfir í Suður Mjódd þar sem framkvæmdir eru við að hefjast. Auk þess verða núverandi byggingar sem tengjast meðal annars olíusölu og annarri verslunarstarfsemi fjarlægðar. Á heimasíðu Klasa segir að þróunarsvæðið sé við borgarlínu nálægt stofnbraut og þungamiðju höfuðborgarsvæðis. Sú staðsetning gefi mörg tækifæri til um­breytinga. Fjölbreyttir innviðir séu til staðar ásamt tengingu við útivistar­svæði Elliðaárdalsins. Samkvæmt samkomu­lagi við Reykjavíkurborg verður unnið nýtt deiliskipulag fyrir lóðirnar. Gert er ráð fyrir fjögurra til sjö hæða byggingum. Þegar áform um byggingar í Norður Mjódd voru fyrst kynntar haustið 2021 mættu þær nokkurri andstöðu hjá ná­grönnum. Einkum var um að ræða íbúa í Stekkunum sem töldu háar byggingar myndu takmarka útsýni til norðurs. 

You may also like...