Hafin er bygging 16 minni íbúða

Tölvuteikning af fyrirhuguðum húsum sem eiga að rísa við Suðurmýri.

Hafist er handa við byggingu 16 íbúða í Suðurmýri á Seltjarnarnesi. Á byggingarsvæðinu stóð áður húsin Stóri Ás og Litli Ás en þau höfðu verið dæmt ónýt og aðeins til niðurrifs. Það er fyrirtækið Fag Bygg sem byggir fjögur ný hús á lóðum gömlu Áshúsanna og í allri hönnun er leitast við að fella þessar nýju byggingar sem best að ytra umhverfi svæðisins.

Nú þegar hefur verið hafist handa við jarðvinnu en stór klöpp er þarna í mýrinni sem þarf að fleyga niður. Þorvarður Gísli Guðmundsson framkvæmdastjóri Fag Bygg segir í gamansömum tón að þeir hafi fundið eina fjallið í mýrinni en tilvist klapparinnar skýri trúlega að þarna hafi verið byggð tvö hús sem stóðu nokkuð utan annarrar byggðar. Þau hafi einfaldlega verið reist á klöpp inn í miðri mýri. Íbúðirnar sem Fag Bygg ætlar að reisa á klöppinni í Suðurmýrinni eru af minni gerðinni. „Við ætlum að mæta þeirri þörf sem er fyrir minni íbúðir. Þessar íbúðir verða í stærðum frá 50 til 90 fermetrar, tveggja til fjögurra herbergja og geta bæði hentað fyrir yngra fólk sem ef til vill er að festa sér sína fyrstu eign og ekkert síður eldra fólk sem er að leita eftir að fá sér minna húsnæði. Við höfum einnig reynt að fella þessar húsbyggingar eins vel inn í umhverfið í Suðurmýrinni og okkur hefur reynst unnt. Við skiptum þessu niður í fjögur tveggja hæða hús sem eru töluvert lægri en gamli Stóri Ás var og höfum gætt þess að hafa góð opin rými á milli. Við höfum einnig reynt eftir fremsta megni að aðlaga þetta nýja byggingaumhverfi að götumyndinni við Nesveginn. Það er arkitektastofan ASK Arkitektar sem hannar þessar byggingar og arkitektarnir eru vel meðvitaðir um að þetta er á viðkvæmu svæði bæði hvað stærð og útlit bygginga varðar. Þá þarf einnig að huga að nánasta umhverfi og gönguleiðum,“ segir Þorvarður. Ólafur Finnbogason hjá Mikluborg sem annast mun sölu íbúðanna segir að afhending þessara íbúða ætti að geta hafist um eða upp úr áramótunum 2017 til 2018 eða að rúmi ári liðnu og að söluferli muni hefjast á næsta ári.

You may also like...