Í löndum Erdogan og Þrumudrekans

Íslenski hópurinn við Taj Mantal.

Séra Þórhallur Heimisson sóknarprestur í Breiðholtskirkju hefur haft leiðsögumennsku að aukastarfi um árabil. Hann kveðst ekki hafa farið margar ferðir á ári en fremur lagt áherslu á að ferðast með hópa til fjarlægari landa – landa sem oft eru ekki í alfaraleið ferðamennskunnar á Íslandi. Má þar nefna Indland, Austur-Tyrkland, Svartahafslöndin, Kóreu og Ísrael sem dæmi. Á liðnu sumri fór hann í tvær ferðir sem tæpast geta verið annað en eftirminnilegar. Aðra með viðkomu á Tyrklandi skömmu eftir valdaránstilraunina þar og viðbragða Erdogan forseta. Hin ferðin var á öllu fjarlægari slóðir – til Bútan í Himalajafjöllum. Þessar ferðir voru á vegum Víta ferðaskrifstofunnar sem hefur meðal annars unnið að skipulagningu ferða utan hinna hefðbundnu leiða. Sr. Þórhallur hefur einmitt unnið lengi með Víta en þar áður með ferðaskrifstofunni Prima-Embla. Þórhallur féllst á að rabba um þessar tveir ferðir sínar við Breiðholtsblaðið.

Þórhallur hefur komið oft til Tyrklands og ferðast um það vítt og breytt í gegnum árin. Að þessu sinni kom hann þangað beint frá Ísrael með hóp sem var á siglingu um austur hluta Miðjarðarhafsins. Þaðan lá leiðin til Aþenu. Þetta var stuttu eftir valdaránstilraun hersins sem Erdogan forseti barði niður með miklu afli. Síðan þá hafa tugir þúsunda verið fangelsaðir og yfir 100.000 manns hafa verið reknir frá opinberum störfum sínum. Enda er ástandið í landinu á suðupunkti. Þórhallur kom með hópinn í land í strandbænum Kusadasi og hélt þaðan til rústaborgarinnar Efesus og að Húsi Maríu, þar sem talið er að María móðir Jesú hafi lifað síðustu ár ævinnar. Þórhallur segir að yfirleitt sé ekki þverfótað á þessum stöðum fyrir túristum. Svo margir komi til dæmis yfirleitt að Húsi Maríu að enginn fái að stoppa þar inni, mönnum sé einfaldlega smalað í gegn. Nú brá aftur á móti svo við að fámennt var í Efesus og enginn við Hús Maríu. Þórhallur sagðist hafa getað sest þar niður einn í fyrsta sinn og haft þar bænastund algerlega út af fyrir sig. Enda sögðu heimamenn sem hann ræddi við að ferðamannaiðnaðurinn hafi hrunið algerlega eftir atburði undanfarinna mánaða, allir séu hræddir og þori ekki að tala af ótta við yfirvöld, og að enginn vita hvað framtíðin ber í skauti sér.

Aðeins þrjár farþegaþotur

En víkjum sögunni til Bútan. Aðeins þremur dögum eftir að Þórhallur kom heim úr siglingunni um Miðjarðarhafið hélt hann með 11 manna hóp til Bútan. Um var að ræða 18 daga ferð þar sem ferðast var upp í allt að 3900 metra hæð við snævi þakta tinda Himalajafjallanna. Bútan er á eystri brún Himalajafjalla og þar er tíbetíanskur búddismi þjóðarátrúnaður. Segja má að Bútan sé eina landið þar sem tíbetíanskur búddismi er stundaður án kúgunar, eftir að Kínverjar hernámu Tíbet. Enda er menning Bútana mjög tíbetíönsk. Bútan liggur allt í mikilli hæð yfir sjávarmáli og ná hæstu toppar þess yfir sjö þúsund metra. Landið er fremur lokað og nefnir Þórhallur sem dæmi að ríkið eigi aðeins þrjár farþegaþotur og þær einar megi flytja ferðafólk til landsins. Ferðafólk þurfi leiðsögumann við hvert fótmál sem skýrist einkum af því hversu hættulegt landið er yfirferðar en nánast ekkert undirlendi er að finna í Bútan. Auk þess þarf að greiða 250 dollara í ferðaskatt til ríkisins fyrir hvern dag sem dvalið er í landinu. Íbúum landsins er annt um einstaka menningu sína og vilja þeir vernda hana. Bútan er eitt af fáum löndum þessa heimshluta sem aldrei hefur lotið erlendri stjórn, þó margir hafi reynt að hernema það gegnum aldirnar, Kínverjar, Tíbetíanar, Indverjar og Bretar. Enda er landið sjálft eins og óvinnandi virki. Bútan er konungsríki og afskekkt og einangrað land sem liggur á milli stórveldanna Kína í norðri og Indlands í suðri og er landið gríðarlega hálent. Bútanir segja sjálfir að sé maður staddur í Bútan og vilji vita hvar landamæri Indlands séu, þá sé nóg að kasta stein, og þegar steinninn hættir að rúlla niður sé maður kominn til Indlands. Um aldaraðir var landið algjörlega einangrað en hefur á síðustu áratugum opnast fyrir utanaðkomandi áhrifum þó að það haldi fast í allar sínar fornu hefðir.

Hér er fararstjórinn klæddur til að heimsækja shikamusteri.

Guðir í hverju fjalli og andar í hverjum hól

Land þrumudrekans, eins og Bútan heitir á heimamálinu, hóf ekki fyrr en á áttunda áratug síðustu aldar að hleypa útlendingum inn í landið. Konungsríkið gengur í erfðir og hefur Wangchuck-ættin ríkt þar frá 1907. Frá því í mars 2008 er þar þingbundið lýðræði með tveggja flokka ríkisstjórn. Bútan er land sem kemur sífellt á óvart. Þar eru hrísgrjónin rauð á lit og chillipipar er ekki aðeins notaður sem krydd heldur sem aðalhráefnið í mat. Í Bútan er búddisminn samofinn lífinu öllu og klaustrin jafn sjálfsagður hluti þess og kjörbúðirnar í úthverfum Reykjavíkur. En það er tíbetíanskur búddismi þar sem margskonar búddar, bodisatwar, andar og vættir og helgir menn og gúrúar eru tilbeðnir með bænafánum, bjöllum, bænahjólum og reykelsisfórnum. Um leið er stór hópur innflytjenda frá Nepal hindúískrar trúar. Og stutt er í önnur forn trúarminni. Þannig eru guðir í hverju fjalli og andar í hverjum hól og risastórar reðurmyndir eru málaðar við útidyr margra heimila – sem verndar- og frjósemistákn. En þó að íbúarnir leggir mikla rækt við trú sína og það skíni alls staðar í gegn ber ekki að líta á Bútan sem lokað samfélag. Heimamenn eru vel að sér, vingjarnlegir, lífsglaðir og einstaklega gestrisnir. Bútan er ekki fjölfarinn ferðamannastaður og því hefur ótrúlega fámennur hópur fengið að upplifa náttúrutöfra þessa einstaka lands þar sem hagsæld á landsvísu er mæld í hamingju en ekki miðuð við landsframleiðslu. Bundið er í lög að í það minnsta 60% landsins verði þakin skóglendi um ókomin ár. Í þjóðgörðum er haldið verndarhendi yfir fjölskrúðugum gróðri og einstöku dýra- og fuglalífi og hvergi gefst betri kostur á að upplifa undur Himalajafjallanna.

Musterisbyggingar setja svip á umhverfið í Bútan. Þetta er Buddamusterið í Timfú.

Selja Indverjum raforku

Þar gnæfa snævi þaktir tindar yfir dimmum skógi vöxnum dölum og gljúfrum. En landslagið er oftar en ekki aðeins bakgrunnur fyrir stórfengleg musteri og klausturbyggingar sem taka að sér aðalhlutverkið. Ekki má gleyma mannlífinu, vefnaðarlistinni, handverkinu, svakalegum bogfimikeppnum, háfjallagönguleiðum, jakuxum og tígrisdýrum í skóginum. Bútanir ferðast ekki mikið sjálfir. Bútanski leiðsögumaðurinn sem var með hópnum á ferð, sagðist hafa starfað í 18 ár við ferðamennsku, en aldrei komið út fyrir landsteinana. En Bútan er líka á leið til nútímans. Þó kóngurinn ráði miklu er þingræði í landinu. Bútan er í hernaðarbandalagi við Indland og þar er nú verið að reisa mikil vatnsaflsver sem ætlað er að framleiða rafmagn fyrir Indlandsmarkað.

Flúðasigling niður Mo Chhu eða Móðurána

Í upphafi ferðar var flogið til London og þaðan áfram til Nýju Delí á Indlandi. Þar var stoppað í þrjá daga og borgin skoðuð, musteri shikana, Rauða virkið Bretana, Jama Masjid moskan og Laksima musteri hindúa. Auk þess var farið á markað í miðborginni þar sem öllu ægði saman. Síðan var flogið áfram með Bútanska flugfélaginu Druk air – Drekafluginu, til Paro í Bútan. Á leiðinni var frábært útsýni yfir Everest og önnur hrikaleg fjöll Himalaja. Flugvöllurinn á Paro minnir á Ísafjörð girtur háum fjöllum. Frá Paro var haldið til höfuðborgarinnar Timfú sem liggur í 2300 metra hæð. Þar gisti hópurinn í þrjá daga og skoðaði kastala, hallir, musteri og búddahof, en reyndi um leið að venjast matnum og þunna fjallaloftinu. Frá Timfú var síðan ekið á fjórða degi yfir Dochu-la-skarð sem liggur í 3200 metra hæð til bæjarins Punakha. Skarðið er skreytt bænafánum og stúpum sem eru helgistaðir búddista. Í Punakah var farið í flúðasiglingu niður Mo Chhu eða Móðurána, sem er beljandi jökulfljót. En segja má að öll fljót Bútan séu bæði runnin undan jöklum og beljandi. Þar var siglt fram hjá fossum og klettum og ægifögrum köstulum í loftköstum. En þá var komið að hrikalegasta degi ferðarinnar þegar ekið var eftir eina þjóðvegi landsins austur til Bumthang. Vegurinn er einbreiður og liggur í allt að 4000 metra hæð. Ferðalangarnir voru með hrikaleg gil á aðra hönd og fjallstinda á hina. Víða var vegurinn í sundur eða lokaður vegna skriðufalla. Ekki var laust við að ótta sækti að Íslendingunum sem þó eru öllu vanir hvað vegagerð varðar, og fóru menn með ferðabæn Hallgríms og sungu bæði sálm og íslensk sönglög til að bægja frá lofthræðslunni. Allt gekk þetta vel. Í Bumthang er einangrunin alger, þögnin ríkir og fegurð himinsins er allt um kring. Ferðin þangað tók eina 13 klukkutíma. Eftir tveggja daga hvíld þar sem konungagrafir Bútab voru sóttar heim, flaug hópurinn svo aftur til Paro. Síðasta daginn í Paró var farið í mikla fjallgöngu að Tígrishreiðrinu. Það er klasi búddamustera í 3200 m hæð. Gengið er hrikalegt einstigi upp klettinn. Í Tígrishreiðrinu kemur vel í ljós samband búddisma og náttúrutrúar. Hópurinn skoðaði musterin öll, nema eitt sem var læst. Ekki mátti skoða það, þar sem sagt var að illur vættur byggi þar er gætti fjallsins. Musteri hans hafði víst verið opnað árið 2008 og konum m.a. hleypt þar inn, en honum er að sögn meinilla við konur. Kviknaði þá í musterunum að sögn heimamanna og var illvættinum kennt um. Síðan er musteri hans lokað. Ein kona í hópi Þórhalls kíkti þó inn gegnum skráargat á musterinu og var engum blöðum um það að fletta, að hún datt og sneri sig á leiðinni niður fjallið.

Önnur ferð áformuð að ári

Eftir spennandi daga í Bútan var nú flogið aftur til Delí. Þar var auðvitað komið við í Taj Mahal á leiðinni heim og tekin mynd af hópnum og var það líka einstök upplifun. Nú þegar hefur verið ákveðið að bjóða upp á aðra ferð undir leiðsögn Þórhalls til Indlands og Bútan. Verður hún farin á vegum Víta í október næsta haust. Þá er ætlunin að sleppa ferðinni til Bumthang, en dvelja þess í stað tveim dögum lengur á Indlandi.

Stúpa í fjöllum Bútan. Orðið er komið úr sanskrít og táknar tiltekna gerð af byggingum.

Hreiður Tígursins. Algengt er að sjá byggingar á klettasyllum.

You may also like...