Systrasamlagið flytur á Óðinsgötu 1

“Ef Seltirningar, sem við munum sakna mjög mikið, vilja gerast túristar í Reykjavík standa dyr Systrasamlagsins Óðinsgötu 1 alltaf opnar.” Systurnar Guðrún og Jóhanna Kristjánsdætur munu vart þreyja Þorrann á Nesinu.

“Já, það styttist óðum í flutninga Systrasamlagsins. Við munum þreyja hluta Þorrans en verðum mjög líklega fluttar búferlum af Nesinu áður en Góan gengur í garð,” segir Guðrún Kristjánsdóttir önnur systranna í Systrasamlaginu.

Eins og flestum er kunnugt um hefur Systrasamlagið, vinsæl verslun og kaffihús á Seltjarnarnesi undanfarin 3 og ½ ár, ekki fengið nema árs lóðaleigusamning frá Seltjarnarnesbæ í einu þrátt fyrir lengst af einlægan vilja um að byggja sig upp þar á bæ. Meirihluti bæjarstjórnar vill rífa húsið til að geta byggt bílastæðishús: “Bænum varð ekki þokað. Við fengum síðast afdráttarlaust svar um það frá bæjarstjóra í ágúst sl. Þá var fátt annað í stöðunni en að hugsa sér til hreyfings og byggja Systrasamlagið upp annars staðar, “ bætir Jóhanna Kristjánsdóttir, eða hin systirin við. Systurnar segjast hæstánægðar með nýja húsnæðið við Óðinsgötu 1, það sé bæði gullfallegt og staðsetningin góð. Um er að ræða 90 fermetra með fallegum garði sem tekinn verður í notkun með vorinu. Um þessar mundir eru systurnar að leggja lokahönd á nýja Systrasamlagið og bíða eftir tilskyldum leyfum. “Við höfum stundum verið spurðar um hvort við séum á leið í túrismann og verðum alltaf jafn hissa. Svar okkar er nei. Við erum ekkert sérstaklega á leið í þann bransa. Við ætlum bara að njóta þess að vera áfram með sama konseptið, þ.e. lífrænt, jóga, flot, mat og gæði innan um mikið af áhugaverðu fólki. Vonandi af sem flestum þjóðernum og úr öllum bæjarfélögum. Og ef Seltirningar, sem við munum sakna mjög mikið, vilja gerast túristar í Reykjavík standa dyr Systrasamlagsins Óðinsgötu 1 alltaf opnar. Hver veit svo nema að við höldum Seltirningamót á Óðinsgötunni,” segir Guðrún. “Við viljum nota tækifærið og þakka þeim sterka kjarna sem myndaðist í kringum Systrasamlagið á Nesinu sérstaklega fyrir okkur. Þetta hefur verið frábær tími. Í okkar huga eru viðskipti fátt annað en góð samskipti, “segja systurnar.

You may also like...