Ég hef alltaf haft áhuga á mannrækt

Áslaug Björt Guðmundardóttir með Dagbækurnar.

Árið mitt 2017 er dagbók sem kom út fyrir liðin jól. Í bókina getur notandinn skráð daglegar hugrenningar sínar en einnig er að finna hugleiðingar úr ýmsum áttum ætlaðar til þess að gefa eiganda bókarinnar kost á að að skerpa sýn sína á hvað skiptir máli í lífinu og efla með sér gleði, bjartsýni og þakklæti. Höfundur þessarar bókar er Áslaug Björt Guðmundardóttir, rekstrarfræðingur og með MA gráðu í mannauðsstjórnun auk BA gráðu í ritlist. Áslaug hefur meðfram störfum sínum fengist við ýmis skapandi skrif í gegnum tíðina, einkum þó fyrir sjálfa sig fram að þessu að eigin sögn. Fyrsta bók hennar, smásagnasafnið Himnaljós, kom út árið 2015 og Árið mitt nú fyrir liðin jól. Áslaug vinnur nú að þriðju bók sinni en kveðst ekki búin að setja sér tímamörk á að ljúka við hana. Áslaug er Árbæingur en býr nú á Melhaganum og segist hafa fest rætur í Vesturbænum. Hún settist niður með Vesturbæjarblaðinu á Kaffi Vest á dögunum.

En af hverju dagbók? „Dagbók var kannski ekki hugmyndin upphaflega, heldur hafði mig sjálfa lengi langað að eiga fallega bók af þessu tagi – bók sem hægt væri að hafa á náttborðinu og nýta til persónulegrar stefnumótunar eða sem nokkurs konar áttavita. Ég hef stundum sest niður á áramótum með stílabók og penna, þakkað fyrir árið sem er að líða og horft fram á veginn. Velt því fyrir mér hvort ég sé á réttri leið, hvaða drauma mig langar að láta rætast á árinu og hvaða málum ég vil veita sérstaka athygli. Mig langaði að búa til bók sem gæti nýst í þessum tilgangi og leyfa öðrum að njóta hennar með mér. Form bókarinnar var umhugsunarefni, en dagbókarformið varð fyrir valinu. Það heldur manni við efnið allt árið.“ Vinnsla bókarinnar hefur væntanlega verið skemmtilegt verkefni? „Já, það var mjög gaman að geta fléttað ánægjuna af því að skrifa og skapa saman við svo margt praktískt úr námi og störfum í gegnum tíðina. Persónuleg stefnumótun er í sjálfu sér ekki svo frábrugðin því þegar fyrirtæki marka sér stefnu til framtíðar, ákveða fyrir hvað þau vilja standa, hvert þau ætla sér og hvernig þau ætla að komast þangað. Svo hef ég fylgt bókinni eftir með vinnustofum nú í janúar sem hafa verið mjög vel sóttar. Þar hef ég kynnt margvísleg verkfæri sem hægt er að nýta sér til persónulegrar stefnumótunar. Þessi verkfæri hafa spannað allt frá hefðbundnum aðferðum stefnumótunar til óhefðbundnari og andlegri leiða. Hver og einn velur svo í verkfærakistuna sína það sem best hentar. Við erum öll ólík og verkfærin sem henta okkur eru ekki alltaf þau sömu.“

Alltaf haft áhuga á mannrækt

Áslaug kveðst alltaf hafa haft áhuga á mannrækt í ýmsum myndum. „Ég hef lesið margt um þessi efni og sótt fjölda námskeiða. Mannrækt í sinni tærustu mynd er kannski einmitt sú að efla gleðina í lífi sínu, þekkja styrkleika sína og rækta þá sem best. Eitt af því sem hefur vakið áhuga minn á undanförnum árum eru rannsóknir sem gerðar hafa verið undir merkjum jákvæðrar sálfræði. Þar hefur meðal annars komið í ljós að ákveðnir eiginleikar eða dyggðir virðast hafa mikil áhrif á lífshamingju okkar. Má þar meðal annars nefna bjartsýni, þakklæti og nægjusemi. Það eykur hamingju fólks að rækta þessa þætti ásamt því að sinna athöfnum sem ýta undir andlega og líkamlega vellíðan. Athöfnum á borð við að nærast og hvílast vel, hreyfa sig daglega og njóta samveru við þá sem okkur þykir vænt um.“ Áslaug segir það einnig öllum hollt að efla sjálfsvitund sína og læra að treysta eigin innsæi. Fólk er oft að berja á sjálfu sér fyrir veikleika sína og það getur farið mikil orka forgörðum í slíkt niðurrif, í stað þess að einblína á styrkleika sína og hvernig þeir geta skapað okkur ýmis tækifæri og meiri gleði í lífið. Í grunninn snýst þetta kannski allt um að ná að gefa okkur sjálfum og veröldinni allt það besta sem við eigum til.“

Tólf lyklar grunnur dagbókarinnar

Áslaug segir frá hugmyndafræðinni sem bókin byggir á. „Mig langaði til að byggja þessa bók þannig upp að hún gæti hjálpað fólki að blómstra og efla styrkleika sína. Ég setti saman tólf svokallaða hamingjulykla, einn fyrir hvern mánuð ársins. Þessir lyklar eru grunnur bókarinnar og í upphafi hvers mánaðar er að finna ýmsar hugleiðingar og spurningar sem tengjast hverjum þeirra, auk þess sem hægt er að skrá niður þau skref sem maður vill taka í mánuðinum til að vinna betur með þetta. Einnig má finna tilvitnanir í hverri viku sem tengjast þessari áherslu, ýmist eru þetta ljóð, tilvitnanir í bókmenntir eða önnur fleyg orð. Allt árið er svo lögð áhersla á að þakka það sem gott er í lífi manns.“

Tvö öfl takast á

Áslaug bendir á að tvö öfl takist á í heiminum og það endurspeglist jafnframt innra með okkur sjálfum. „Mér finnst það nokkuð magnað. Annars vegar er þessi bylgja fólks sem vill rækta þakklæti, samkennd, nægjusemi og virðingu fyrir náttúrunni. Hins vegar er það svo upphafning sjálfsins, græðgin og gegndarlaus neysluhyggja. Fólk sem stöðugt verður gráðugra og gráðugra og stefnir að því að komast yfir meira og meira. Þetta eru andstæður sem bæði má sjá í hinum ytri heimi sem og innra með okkur sjálfum. Það hefur til dæmis hvarflað að mér að það sé engin tilviljun hvaða eðlisþætti við sjáum nú og fyrirlítum í nýjum forseta Bandaríkjanna. Hann er eins og spegill sem okkur þykir óþægilegt að horfa í, en gegnir jafnframt því mikilvæga hlutverki að sýna okkur hvað það er sem við viljum ekki rækta, hvorki innra með okkur sjálfum né í samfélögum heimsins.“

Ritlistarnám og lífsreynsla

En að allt öðru. Hvernig kom það til að þér datt í hug að fara í nám í ritlist eftir að hafa menntað þig í rekstri og stjórnun innan fyrirtækja? „Það má segja að ég hafi tekið U-beygju árið 2009. Þá kvaddi ég, amk. í bili, gamlan starfsvettvang við mannauðsstjórnun og fór í fullt nám í ritlist við HÍ. Ég hafði í gegnum tíðina sótt styttri námskeið í skapandi skrifum og haft gaman af, en nú sá ég möguleika á því að slá tvær flugur í einu höggi – að stokka lífið upp um tíma og læra í leiðinni meira um mitt helsta áhugaefni. Árin í ritlistarnáminu voru góður tími sem markaðist þó af þungbærri reynslu sem við fjölskyldan gengum í gegnum á þessum tíma, þegar dóttir mín og tengdasonur misstu unga dóttur sína skyndilega. Sársaukinn sem fylgir barnsmissi er ólýsanlegur og ég veit að þær ömmur og afar sem reynt hafa vita að það er vart til verri tilfinning en að horfa upp á fullorðið barn sitt ganga í gegnum slíka lífsreynslu. Vanmátturinn er algjör og mikið tilfinningarót fylgir í kjölfarið. En þjáningin getur líka verið stór gjöf ef við leyfum okkur að ganga inn í hana af heilu hjarta um leið og við lögum okkur að nýjum og breyttum aðstæðum.“ Áslaug kveðst hafa skrifað mikið á þessum tíma og farið í gegnum endurmat svo ótal margs í tilverunni. Hún segir að eftir slíka reynslu verði lífið aldrei aftur eins og það var og verðmætamatið gjörbreytist. „Skrif mín á þessum tíma urðu síðar kveikja að smásagna-safninu Himnaljós sem ég gaf út sumarið 2015. Ég sendi handritið til Miðstöðvar íslenskra bókmennta og var svo heppin að fá svokallaðan nýræktarstyrk, sem var mikil hvatning og gerði mér fjárhagslega kleift að ráðast í að gefa bókina út sjálf. Það var virkilega gaman og lærdómsríkt að fara í gegnum það ferli að fullvinna og gefa út bók á eigin spýtur. Ég var því komin á bragðið og hikaði ekki þegar næsta hugmynd skaut upp kollinum ári síðar – að gefa út dagbókina Árið mitt 2017. Ég er svo bara með lagerinn hér heima í stofu og sel bækurnar bæði sjálf í gegnum facebook síðu bókarinnar, Árið mitt, og í bókaverslunum.“

Þorpsbragur í Vesturbænum

„Ég sleit barnsskónum í Árbænum, sem á þeim tíma var að byggjast upp og frumbyggjabragur einkenndi hverfið. Það var gott að alast þarna upp og í Árbænum kynntist ég mörgum af mínum bestu vinum enn í dag. Þegar ég fór svo að heiman um tvítugt, flutti ég á Selfoss og bjó þar í nokkur ár og síðar á Bifröst í Borgarfirði þar sem ég stundaði nám í rekstrarfræði. Seinna átti ég svo eftir að búa nokkuð lengi í Grafarholtinu en hef nú fest rætur í Vesturbænum og líður hér afar vel. Þótt Vesturbærinn sé í göngufæri frá Miðborginni er hann sérstakur. Hann minnir um margt á lítið úthverfi, jafnvel má segja að hér ríki svolítill þorpsbragur. Hér hef ég í göngufæri matvöruverslun, sundlaug, bíó, kaffihús og svo margt fleira. Hér er blómlegt mannlíf, hundar og kettir á hverju horni og jafnvel hænur. Það er margt notalegt hér sem minnir mig á uppvaxtarárin í Árbænum.

Hamingjulyklarnir tólf sem Álaug Björt segir að séu grunnur bókarinnar.

You may also like...