Huga þarf að innviðum hverfisins

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi kveðst á facebook vilja þakka öllum þeim, sem sendu honum ábendingar um málefni Vesturbæjarins, sem rædd voru á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur fyrir skömmu að ósk borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Kjartan segir umræðurnar hafa verið mjög góðar og upplýsandi og kveðst hafa náð að gera grein fyrir flestum ábendingum sem bárust. „Almennt eru Vesturbæingar mjög ánægðir með hverfið sitt og snerust ábendingarnar því fyrst og fremst um hvernig gera megi gott hverfi enn betra,“ segir Kjartan.

Kjartan segir margar ábendinganna hafa snúist um skipulagsmál og mikilvægi þess að vanda til verka við þéttingu byggðar og um leið þá fjölgun íbúa sem fyrirhuguð er í Vesturbænum. Hann segir að styrkja þurfi innviði hverfisins, t.d. skóla og íþróttamannvirki svo þeir geti með góðu móti tekið við íbúafjölguninni í stað þess að hún leiði til þess að þjónusta minnki við þá íbúa sem fyrir eru.

Áhyggjur vegna Hringbrautar

Kjartan bendir á að margar athugasemdir hafi einnig borist um samgöngumál og bent á ýmsa staði þar sem auka þurfi umferðaröryggi. „Mestar áhyggjur virðast vera vegna Hringbrautar og var eindregið óskað eftir því að öryggi barna og unglinga, sem þurfa að fara yfir hana á hverjum degi vegna skóla- og frístundastarfs, verði tryggt eins og kostur væri. Þá óska margir Skerfirðingar eftir beinni strætisvagnatengingu við Melaskóla og KR-svæðið,“ segir Kjartan.

Öflugt barnamenningarstarf

Kjartan segir mikla og almenna ánægju ríkja með leikskólastarf og frístundaheimili í Vesturbænum en skoðanir séu eitthvað skiptari með grunnskólana eins og eðlilegt megi teljast. Grunnskólunum hafi m.a. verið mjög hrósað fyrir öflugt barnamenningarstarf og eins ríki ánægja með að halda eigi áfram mótun menntastefnu fyrir borgina eftir sex ára hlé.

Fimleikasalur í Reykjavík

Kjartan talar um að átak verði gert í húsnæðismálum grunnskóla með því að halda áfram viðbyggingu Vesturbæjarskóla og að ráðist verði í viðbyggingu fyrir Melaskóla. Hann segir að áskoranir hafi borist um að aðstaða til íþróttaiðkunar verði bætt í hverfinu og m.a. hafi verið gagnrýnt að Reykjavíkurborg skuli kosta byggingu fimleikasalar á Seltjarnarnesi í stað þess að reisa slíkan sal í Vesturbænum þar sem hann yrði í göngufæri við meginþorra íbúa.

You may also like...