Þórbergur er minnisstæðastur

– segir Jón Hjartarson rithöfundur og leikari sem nú fagnar verðlaunum Tómasar Guðmundssonar –

Jón Hjartarson og Dagur B. Eggertsson á tröppum Höfða þar sem verðlaunaafhendingin fór fram.

Jón Hjartarson rithöfundur og leikari hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2021 fyrir handrit sitt að ljóðabókinni Troðningar. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri veitti Jóni Hjartarsyni Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar miðvikudaginn 20. október, við hátíðlega athöfn í Höfða. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði við athöfnina í Höfða að Jón væri vel að verðlaununum kominn, ekki væri langt síðan ljóðinu var spáð ótímabærum dauðdaga „en það hefur margsannað sig hversu ótímabær sá spádómur var, því gróskan í ljóðlistinni hefur sjaldan verið meiri en undanfarin ár“. Jón sagði við athöfnina að hann hafi löngum dáð þjóðskáldin okkar, eins atómskáldin. „ og ég dái þá höfunda sem nú fást við ljóð. Og mér sýnist íslensk ljóðagerð dafna býsna vel sem er gott. Ljóðið ratar til sinna og setur veruleikann svolítið úr skorðum sem er hollt“. Í dómnefnd sátu: Sif Sigmarsdóttir, Guðrún Sóley Gestsdóttir og Eyþór Árnason.  

Jón er Snæfellingur. Fæddur 20. janúar 1942 á Hellissandi. Hann útskrifaðist sem kennari frá Kennaraskóla Íslands 1965 og lauk leikaraprófi frá Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur 1968. Jón var jafnframt við framhaldsnám í Berlín 1984. Jón hefur samið fjölda leikrita bæði fyrir börn og fullorðna, auk barna- og unglingabóka. Hann hefur bæði leikstýrt verkum sínum og annarra hjá atvinnuleikhúsum og áhugaleikhópum. Þekktasta túlkun hans í leikhúsi er trúlega í sýningunni Ofvitanum þar sem hann lék Þórberg Þórðarson rithöfund af þvílíkir snilld að margir héldu að Ofvitinn væri sjálfur kominn á sviðið.

Landshöfnin breytti öllu

„Já ég er snæfellingur. Alin upp undir Jökli og sleit barnsskónum þar allt til að ég flutti suður til þess að fara í skóla,“ sagði Jón þegar við höfðum gætt okkur á nýlöguðu kaffi á Kaffi Örnu á Eiðistorgi. Þá varð ekki aftur snúið. Ég gerði reyndar ás hlé á skólagöngunni og fór vestur á Rif til þess að vinna og eignast pening. Þá var Landshöfnin komin á Rif sem gerbreytti allri aðstöðu til sjósóknar og fiskveiða. Áður voru litlar trillu-bryggjur sem bátar gátu lagst að en með höfninni skapaðist aðstaða fyrir mun stærri skip og öflugri útgerð. Höfnin breytti miklu.“ Jón segir að margir jafnaldrar sínir hafi gert það gott á sjónum. Sumir hafi eignast báta og gert sjómennskuna að ævistarfi. „Ég gat alveg hugsað mér að eignast bát og róa til fiskjar og ég var eitt sumar á síld eins og margir á þessum árum. Sjórinn átti að sumu leiti vel við mig en ég var alltaf dálítið sjóveikur en þá gilti að duga eða drepast. Ég ílengdist því ekki á sjóum en hélt náminu áfram. Fór fyrst við Menntaskólann í Reykjavík en skipti fljótlega yfir í Kennaraskólann eins og hann hét þá. Ég hafði fengið áhuga á kennslustörfum. Þetta var heldur ekki langt nám og mér hugnaðist að þetta væri ágætur starfsvettvangur.“

Leiklistin náði mér

Jón lét ekki staðar numið við kennaranámið heldur reyndi fyrir sér á nýjum lendum. „Ég fékk líka áhuga á leiklistinni. Ég fór að lesa upp í Kennaraskólanum. Hjá Brodda Jóhannessyni og Óskari Halldórssyni. Þeim fannst þeir heyra einhvern hljóm í lestri mínum sem gæti náð inn á svið leiklistarinnar. Þetta varð til þess að ég skráði mig í leiklistarskóla hjá Leikfélagi Reykjavíkur um leið og ég var að ljúka við kennaranámið. Og þá fór eins og með sjómennskuna. Þarna varð heldur ekki aftur snúið. Leiklistin hafði náð mér.“

Skemmtileg ár á Vísi

„Ég kenndi aldrei mikið. Starfaði þó í nokkur ár sem stundakennari við Kennaraskólann. Ég hafði farið á námskeið til Skandinavíu til að læra dramik eða leikræna tjáningu sem ég kenndi í nokkur ár. Þarna er öll sagan sögð af kennslustörfum mínum. Ég var kominn í nýtt eða öllu heldur ný hlutverk.“ En þarna var Jón kominn í fleiri en eitt hlutverk. Hann var orðinn leikari en einnig blaðamaður. Hvernig kom það til. „Á þessum árum var kennslustarfið ekki vel launað og maður varð að líta eftir öðrum verkefnum. Þessi leit endaði með því að ég var blaðamaður á Vísi í fimm ár jafnframt því að starfa sem leikari. Þetta voru skemmtileg ár á Vísi. Vísir hafði einkum verið blað heildsala og í nokkuð föstum skorðum sem slíkt. Þarna var Jónas Kristjánsson að koma inn á ritstjórnina og fór að breyta ýmsum áherslum. Meðal annars að draga aðeins úr hægri slagsíðunni sem verið hafði á blaðinu og gera Vísi að óháðu fréttablaði. Ungir blaðamenn voru að koma til starfa sem farnir voru að starfa við hlið gamalla jálka. Manna  á borð við Loft Guðmundsson og Þorstein Jósefsson sem átti þarna sinn síðasta sprett ekki síst sem ljósmyndari enda margar mynda hans gulls í gildi. Axel Thorsteinsson kom eftir að vera búinn að segja Lundúnafréttirnar í Ríkisútvarpinu. Hann hafði þann hátt á að hlusta á BBC breska ríkisútvarpið á morgnana og endursegja svo fréttirnar á Íslensku. Ég er efins um að hann hafi skrifað mikið niður. Þetta rann bara inn í hausinn á honum og svo út þegar hann var kominn í útsendingu. Það var bæði gaman og líflegt að vera Vísi. Úr þessu varð ágæt blanda reynslu og nýjunga.“

Varð bara Þórbergur

Ekki átti þó fyrir Jóni að liggja að enda sem blaðamaður þótt hann hafi kunnað því vel. Leiklistin togaði í hann og hann varð fastráðinn leikari hjá Leikfélagi Reykjavíkur 1974 þar sem hann starfaði sem slíkur allt til ársins 2004. „Já – og hlutverkin eru orðin mörg. Ætli þau séu ekki um eitt hundrað. Mörg þeirra eru eftirminnileg en ég tel að hlutverkið í Ofvitanum sé hvað eftirminnilegast. Þá fór líka allt á annan endann. Sýningin varð mjög vinsæl og síðar var gerð sjónvarpsmynd eftir henni.“ Mörgum er þessi sýning í minni og þótti Jón ná Þórbergi einstaklega vel. „Hann varð bara Þórbergur“ mátti heyra af vörum ánægðra heilhúsgesta. En hvaða augum lítur Jón sjálfur á þessa trúlega merkustu sýningu sína. „Þarna var ég en tillögulega ungur maður að leika þennan eldri mann. Ég einbeitti mér að honum og persónu hans. Hlustaði á röddina og skoðaði takta hans sem voru ekki alveg eins og hjá öðrum. Ég æfði þetta. Reyndi að herma eftir honum og líkja á margan hátt. Þetta sló rækilega í gegn.“ Ofvitinn var frumsýndur í Iðnó árið 1979 í leikgerð Kjartans Ragnarssonar. Verkið gekk fyrir fullu húsi samfleytt í þrjú leikár og urðu sýningarnar samtals 194. Áður en sýningum lauk réðst Ríkisútvarpið í það vandasama verkefni að festa leikritið á filmu og afraksturinn var sýndur í sjónvarpi allra landsmanna á Páskadag árið 1983.  

Var Kjarval í heimildarmynd

Jón hefur leikið fleiri þekkta menn Íslandssögunnar. Hann fór einnig með hlutverk Jóhannesar Kjarval listmálara í heimildarmynd sem gerð var um hann. „Þetta var ánægjulegt verkefni. Þarna beinist fókusinn meira á manninn Jóhannes Kjarval en myndlist hans. Frekar hver maðurinn var og tengingu hans við náttúruna. Svo lék ég í leikriti sem heitir Englar í Ameríku eftir Tony Kushner. Þetta verk fjallaði um heim samkynhneigðra áður fyrr. Þar kom McChartyisminn einnig við sögu. Þegar öldungadeildarmaðurinn Joseph McCarthy barðist á öfgafullan hátt gegn kommúnisma. Þegar verkið var skrifað voru aðrir tímar og það fékk misjafna dóma. Náði ekki flugi. Ef til vill komst boðskapurinn ekki nægilega vel til skila.“

Refían til vegs og virðingar

Jón hefur ekki aðeins staðið á fjölunum og túlkað magnaða karaktera. Hann hefur einnig sjálfur skrifað fyrir leikhúss. „Ég byrjaði snemma að skrifa fyrir leikhús. Þegar við útskrifuðumst 1968 þá sömdum við útskriftarverkefni sem við kölluðum Poppleikinn Óla. Það var unnið í hópvinnu og það tekur sinn tíma að semja leikhúsverk með þeim hætti. Það þarf að ná samkomulagi innan hópsins. Ýmsar skoðanir geta verið uppi í byrjun sem þarf að láta ná saman. Ég skrifaði líka að miklu leyti barnaleikrit sem sett var upp um jól. Við Kjartan Ragnarsson unnum saman að því. Þegar Sveinn Einarsson var leikhússtjóri í Iðnó vildi hann endurlífga refíuna og hefja hana til vegs og virðingar en refíur voru ákveðinn hluti af leikhúsmenningunni á árum áður. Um 1980 skrifaði Þórarinn Eldjárn refíu sem nefnist Skornir skammtar. Ég kom talsvert að því með honum. Þessi refía gekk ágætlega. Ég tók líka að mér að semja skemmtiefni fyrir ýmsar samkomur og gleðistundir. Það er einn hluti af lífi mínu.“

Með Ása í Bæ og Ragnari Lár

Blaðamennskan hefur þó lengi loðað við Jón þótt hann hætti á Vísi. Eitt af því sem hann tók sér fyrir hendur var að að starfa fyrir tímaritið Spegilinn. Ástgeir Ólafsson eða Ási í Bæ vildi endurvekja Spegilinn sem hafði verið ádeilu- og grínblað fyrr á árum. Hann hafði fengið Ragnar Lár til liðs við sig og ég kom síðan að þessu í ein þrjú ár. Aldrei var mikill gróði af þeirri útgáfu. Einkum var erfitt að innheimt söluna sem fór að mestu fram í sjoppum. Þar fór umtalsverð vinna fyrir litið. En maður var alltaf eitthvað að bauka meðfram starfinu í leikhúsinu.“

Borgarleikhúsið breytti miklu

En víkjum aftur að leikhúsinu. Hófust ekki nýir tímar í leikshússögunni með tilkomu Borgarleikhússins. „Borgarleikhúsið breytti miklu og segja má að þegar það kom til sögunnar hafi verið slegið í klárinn. Settar voru upp skemmtanir og það á meðal ein sem byggðist á leikhússögu. Kjartan Ragnarsson sá um þá skemmtun og við fylltum Laugardalshöllina. Þarna var bæði flutt heimafengið leikhúsefni og einnig voru fengnir söngvar frá finnsku leikhúsi. Við sömdum síðan texta við finnsku lögin. Já – það var ýmislegt lagt á sig fyrir Borgarleikhúsið.“

Orti fyrst í Kennaraskólanum

Hvenær fór ljóðagerðin að sækja að Jóni. „Ég orti litið framan af. En þegar ég var í Kennaraskólanum orti ég ljóð og birti i skólablaðinu. Broddi skólastjóri varð hrifinn af ljóðinu. Svo týndist ég meira og minna í tækifærisefni og hið alvarlega varð að bíða. Ég skrifaði nokkrar barnabækur. Ein hét Auga í fjallinu og kom út fyrir nokkrum árum. Hún seldist ekki mikið og ég hugsaði um að nú ætti ég að fara að hætta þessu og snúa mér að ljóðagerðinni. Þá varð ég að byrja aðeins upp á nýtt. Móta hér nýtt upphaf sem alvarlegt ljóðskáld. Ég byrjaði og hugsaði að ég gæti bara gefið þetta út sjálfur ef enginn vildi sinna því. Forlagið tók þetta svo upp á sína arma, sem var svo óvænt ævintýri sem endaði með verðlaunum Tómasar Guðmundssonar.”

Jón Hjartarson rithöfundur og leikari hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2021 fyrir handrit sitt að ljóðabókinni Troðningar.

Rímið er aldrei langt undan

Jón gefur sér tíma til að hugleiða skáldskapinn. Kveðst ætíð hafa verið aldamótaskáldunum þakklátur sem frelsuðu okkur undan þessum föstu skorðum ríms og stuðla sem íslensk ljóðagerð sat föst í. Það tók dálítinn tíma að hverfa frá þessu eldra formi þótt það hafi alltaf ákveðin sjarma. Ýmsir höfundar halda þó í það alla vega að hluta. Ég get nefnt Þórarinn Eldjárn. Hann hefur gott vald á rímnakveðskap og notar hann töluvert. En það má finna við lestur ljóða hversu sumir áttu erfitt með að sleppa stuðlunum. Ég finn hjá sjálfum mér þegar ég er að setja órímuð ljóð saman að gleyma mér ekki að sækja í gamla formið. Og til þess að brjóta regluna þarf að kunna hana. Þetta er sterkt í menningunni.” Talið berst að Sigurði Breiðafjörð einu helsta rímnaskáldi Íslendinga og grein sem Jónas Hallgrímsson skrifaði um hann og reyndi að gera út af við rímnakveðskapinn. “Ég hef alltaf haft nokkurt uppáhald á Sigurði og finnst að Jónas hafi verið helst til hvassyrtur. En hvernig sem Jónas orti þá fór hann aldrei langt frá hefðinni þótt hann væri ekki að skrifa rímur að hætti Sigurðar.” Og Jón gerði það ekki endasleppt. “Það er ákveðinn hrynjandi í Gunnarshólma,” segir hann og fór síðan með fyrstu erindin. Flutti þau með áherslum leikarans á Kaffihúsinu. “Þarna heyrirðu. Það er hrynjandi í þessu.”

Innblásin á gönguferðum

“Mér finnst skemmtilegt að sitja hér á Örnu og tengja þetta spjall Seltjarnarnesi. Ég var lengi félagi í trimmklúbb Seltjarnarness. Allt til að ég var orðinn slæmur í fótum og varð að slaka á að þessu leyti. Ég hef alltaf haft gaman af útivist og hef jafnan farið í fimm daga gönguferð um efri byggðir og hálendið. Ég er í hóp með 40 til 50 manns og við erum búin að fara víða. Nýja bókin mín heitir Troðningar og nafnið er komið úr þessum ferðum. Bókin er um margt innblásin af hugsunum manns í þessum ferðum. Maður hugsar margt á göngu. Þessar hugsanir sitja í manni og svo fer maður að vinna úr þeim.”

Á barnaláni að fagna

Jón á barnaláni að fagna. Afkomendur hans hafa valið að fara svipaða slóð og hann sjálfur. “Elsta dóttir mín Helga Braga fór snemma að stunda leiklistina og er þekkt leikkona og skemmtikraftur í dag. Hin dóttirin heitir Ingveldur Ýr er óperusöngkona. Sonur minn Hjörtur Jóhann er leikari og starfar við Borgarleikhúsið og sú yngsta er að ljúka meistaranámi í leiklist. Þetta snýr allt að menningunni. Trúlega hafa þau þetta í genunum en þau eru einnig alin upp í þessu andrúmslofti.” Kaffið er löngu búið. Fyrir utan gluggann eru snjókorn tekin að falla. Þau fyrstu á þessu hausti. Viðmælandi minn á sinn þátt í þeirri endurreisn ljóðsins sem hefur orðið. Við héldum út í mugguna.

You may also like...