Garðheimar flytja í Suður Mjódd

– á lóðina sem ætluð var bílaumboðinu Heklu –

Teikning PK arkitekta af nýju húsi Garðheima. Húsið mun verða framleitt í Hollandi og flutt í einingum hingað til lands.

Garðheima hafa sótt um að byggja nýja garðyrkjumiðstöð og verslun að Álfabakka 6 í Mjódd í Breiðholti. Byggingin á að vera á lóð sem fyrirtækinu var úthlutað í fyrra. Til stóð að bílaumboðið Hekla myndi flytja starfsemi sína á þessa lóð en ekkert varð af þeim áformum. 

Garðheimar flytja því suður fyrir verslunarmiðstöðina í Mjódd. Verður nær Reykjanesbrautinni og í nágrenni við svæði ÍR-inga. Núverandi aðstaða Garðheima við Stekkjarbakka þarf að víkja fyrir nýrri byggð þegar endurskipulagning Norður Mjóddar liggur fyrir.

Garðheimar hafa sótt um leyfi til að byggja garðyrkjumiðstöð, stálgrindarhús, klætt álsamlokueiningum og gleri allt að 7.375 fermetrum. Byggingin verður á einni hæð ásamt millihæð fyrir skrifstofu og matsal starfsfólks. Gert er ráð fyrir að auk garðyrkjumiðstöðvar verði plöntu- og gjafavöruverslun líkt og Garðheimar reka í dag. Einnig er hugmyndir um rými fyrir tengda starfsemi svo sem verslunarrekstur og veitingastarfsemi annarra aðila. PK arkitektar hafa teiknað húsið.

Aðkoma að byggingunni verður frá nýrri framlengingu Álfabakka.

You may also like...