Ýmsar nýjungar í félagsstarfinu á Aflagranda
Sigríður Guðný Gísladóttir eða Siri eins og hún er oftast kölluð hefur tekið til starfa sem virknifulltrúi í félagsstarfinu á Aflagranda. Um nýja stöðu er að að ræða hjá Reykjavíkurborg og er hlutverk Siriar einkum fólgið í að skapa nýjungar – bjóða upp á meiri fjölbreytni og síðast en ekki síst að skipuleggja nýjan þátt sem er félagsstarf eftir vinnu eins og það er kallað. Í því felst að efna til starfs og viðburða eftir kl. fjögur á daginn en fram að þessu hefur ekki verið um starfsemi að ræða síðdegis. Þetta er að hennar sögn einkum hugsað til þess að gefa fólki sem stundar vinnu kost á félagsstarfi. Bæði fólki sem komið er nálægt eftirlaunaaldri og yngra fólki og er þetta liður í þeirri áskorun að bjóða upp á félagsstarf sem hentar yngri aldurshópum og hæfa vel ungu fólki. “Þetta er nýbreytni og við eigum vonandi eftir að sjá jákvæðan afrakstur af henni,” segir Siri og bætir við að mörgum finnist félagsstarfið miðast um of við gullnu kynslóðirnar – þær sem komnar eru á eftirlaunaaldur. “Við þurfum að ná meiri breidd í þetta.“
“Við höfum einnig verið að þreifa okkur áfram með nýjungar í hinu almenna félagsstarfi. Ein af þeim er línudansinn sem er hér á fimmtudögum og hefur notið mikilla vinsælda. Við erum líka að fara af stað með ferðir. Við fórum í eins ferð fyrir liðin jól og nú er áformuð vorferð 16. maí á Njáluslóðir með viðkomu í Friðheimum hjá Knúti Ármann og skoða ræktunina hjá honum.” Nú hefur verið haldið nokkuð sérstakt myndlistarnámskeið í félagsstarfinu á Aflagranda ekki rétt. „Já fengum við nemendur úr Listaháskólanum til þess að koma og skapa með fólkinu okkar hér. Námskeiðið fór þannig fram að allt var gert í sameiningu. Hálfunnið myndefni gekk frá einum til annars þar sem bæði myndlistarnemarnir og fólkið okkar í félagsstarfi tók þátt í sköpuninni. Hver setti stroku á myndirnar og flestir höfðu hina mestu skemmtun af.“
Vil fá meiri hreyfingu í húsið
Siri segir að nú sé líka að horfa á hreyfinguna og að fá meira stuð í húsið. Hugmyndin er að vera með harmonikuböll reglulega og fá harmonikkuleikara til liðs við okkur. Við erum einnig að huga að morgunleikfimi og tónleikfimi og svo er fólk að spila boccia. Oftast er fólkið að spila inni og situr þá við spilamennskuna. En boccia er einnig spilað úti og þegar vorar meira kemur vel til greina að fara út á blettinn hér fyrir utan og spila standandi. Ég kynntist boccia fyrst þegar ég dvaldi hjá systur minni sem er búsett í Vínarborg.
Viljum endilega fá fleiri karla í starfið
Svo eru það karlarnir. “Já – svo eru það þeir. Þeir eru ekki alveg eins duglegir að koma og konurnar í hverju sem það liggur. Hugsanlega hafa karlar af þeirri kynslóð sem nú er að verða heldri borgarar hafi tekið minni þátt í félagslífi en konur – að minnsta kosti síður verið í saumaklúbbum. Vinnan hafi því skipt karla þessarar kynslóðar meira máli en e.t.v. fyrir konurnar og þeir hverfi því fremur inn fyrir veggi heimilisins þegar eftirlaunaaldrinum er náð.” Siri segir það ekki nógu góða þróun. Hætta sé á að þeir einangrist frekur en konurnar. „Við erum hér með ágæta karlahópa og get nefnir tálgunarhópinn hans Magnúsar sérstaklega sem vel heppnaðan hóp í því sambandi auk þess sem við erum með hóp sem fæst sérstaklega við útskurð. Nú bókaspjallið er á sínum stað og það var Hrafn Jökulsson sem tók við því af Guðna Th. Jóhannessyni þegar hann flutti til Bessastaða. Við erum líka með söngstund í stjórn Helgu Gunnarsdóttir og af því að ég nefndi dansinn áðan þá er erfiðar að fá karlana til þess að koma og dansa. Hvort það er eitthvað kynbundið er ekki gott að segja eða kannski finnst þeim síður viðeigandi að stíga dans á daginn.“
Vil að fólk komi með hugmyndir
Siri segir að félagsstarfið á Aflagranda búi við rúmgott húsnæði og nauðsynlegt að nýta betur. „Þess vegna eru við að huga að nýjum verkefnum og leita eftir þátttakendum. Við erum að undirbúa að fá ritlistarnámskeið í húsið þar sem fólk getur æft sig að skrifa texta – frásagnir eða eitthvað annað sem það myndi vilja fjalla um. Málið er að finna eitthvað við flestra hæfi. Þótt þetta starf hafi byrjað fyrir heldri borgara og sé meira nýtt af fólki sem komi er á miðjan aldur þá er þetta alls ekki elliheimili – bara alls ekki heldur félagsmiðstöð fyrir fólk á öllum aldri. Og mig langar að minnast á eitt í því sambandi að fyrir skömmu héldum við matarboð fyrir flóttamenn og hælisleitendur. Við gerðum þetta í samstarfi við Sýrlendinga sem hér eru. Þeir elduðu sýrlenska rétti og við hugsuðum þetta til þess að leyfa menningarheimum að mætast. Við vorum ekki með mjög marga. Vorum að prufa þetta og vildum hafa þessa stund rólega. En ég vil að lokum biðja fólk um að koma með hugmyndir – láta okkur vita ef því dettur eitthvað í hug sem hægt væri að vinna úr. Það eru alltaf möguleikar.“