Skólahald á Seltjarnarnesi í eina og hálfa öld

– Nesfréttir fjalla lítillega um fyrstu þrjá áratugina –

Skólahúsið frá 1906.

Reglulegt skólahald á Seltjarnar­nesi á sér um einnar og hálfrar aldar sögu. Talið er Ólafur Guðmundsson útvegsbóndi í Mýrarhúsum hafi fyrstur haft forystu um að koma því á fót á Seltjarnarnesi um 1875. Hann hafði áður stundað sjó frá Suðurnesjum og kynnst þar skólahaldi sem þar var hafið. Á þeim tíma var skólahald enn fátítt og einkum stuðst við heimakennslu barna. Skólakennsla hafði verið stopul í Reykjavík á árunum 1830 til 1850. Nokkrir Seltirningar höfðu þó komist í kynni við skólahald í Reykjavík þar á meðal Pétur Sigurðsson sem varð bóndi á Hrólfsskála og einnig hafði Guðmundur Einarsson sem varð bóndi í Nesi verið í kvöldskóla hjá Jóni Ólafssyni í Reykjavík.  

Framtak Ólafs Guðmundssonar í Mýrarhúsum varð til þess að grunnskóli var stofnaður og ber enn nafn Mýrarhúsa. Fyrstu sjö árin starfaði skólinn í litlu timburhúsi sem stóð á hlaðinu í Mýrarhúsum og Ólafur lagði honum til í upphafi. Í fjárhagsáætlun Seltjarnarneshrepps fyrir 1879 til 1880 voru veittar 200 krónur til kaupa á þessu húsi sem átti að vera fyrsta greiðsla fyrir það en húsið átti að kosta 600 krónur og greiðast á þremur árum sem bendir til að sveitarfélagið hafi eignast sitt fyrsta skólahús að fullu árið 1882. Hreppsnefndin sótti síðan um leyfi sýslunefndar til þess að setja á stofn fastan skóla í hreppnum sex árum síðar árið 1878 sem nefndin veitti. Telst það því opinbert stofnun Mýrarhúsaskóla nú Grunnskóla Seltjarnarness.  

Sigurður Sigurðsson fyrsti kennarinn 

Sigurður Sigurðsson, fyrsti kennari Seltirninga.

Fyrsti fasti kennari Mýrarhúsaskóla var Sigurður Sigurðsson sem Ólafur Guðmundsson í Mýrarhúsum sá um að útvega. Sigurður var Eyfirðingur frá Reykhúsum í Eyjafirði. Hann hafði stundað búskap en síðan heimakennslu á ýmsum stöðum. Til að mynda á Melrakkasléttu og í Eyjafirði meðal annars hjá Pétri Hafstein amtmanni á Möðruvöllum. Hann var sjálfmenntaður enda erfitt um að ná sér í menntun til kennslu á þeim árum. Sigurður stýrði Mýrarhúsaskóla í þrjá áratugi og litu Seltirningar á hann sem höfðingja skóla síns. Í blaðinu Ísafold 14. apríl 1915 mátti lesa eftirfarandi. “Samviskusamt valmenni er í engu mátti vamm sitt vita, prýðisgóður kennari og besti uppeldisfaðir og ráðunautur hinna mörgu unglinga, er falin var forsjá hans.” Til marks um stjórnsemi Sigurðar var að baldnir piltar úr Reykjavík voru sendir til hans í skóla til ögunar. Meðal þeirra var Ágúst H. Bjarnason, síðar prófessor sem var í Mýrarhúsaskóla um 1885. Í blaðinu Óðni er haft eftir Ágústi að hann hafi haft gott lag á krökkunum og öllum verið hlýtt til hans. Sigurður mun hafa nýtt krafta nemenda sinni á þann hátt að láta þá sem bestir voru segja hinum lakari til sem reyndist vel til þess að virkja nemendur til starfa.  

Sagt til í dönsku

Á meðan Mýarhúsaskóli var í litla húsinu á hlaði Mýrarhúsa voru oftast á bilinu 25 til 30 nemendur í skólanum. Fyrsta vorið voru kenndar fjórar greinar við skólann. Lestur, skrift og reikningur auk þess sem barnalærdómsbókin kverið var kennd. Sigurður var í fyrstu eini kennari við skólann en fljótlega fór Guðmundur Einarsson útvegsbóndi í Nesi að kenndi söng og stóð kennsla hans fram eftir vetri eftir eða þar til hann fór með skip sín til róðra frá Suðurnesjum. Á þriðja ári 1877 til 1878 hófst kennsla í sögu og dönsku í Mýrarhúsaskóla. Af kennslubókum sem stuðst var við eða notaðar við kennsluna má nefna landafræði Ersvels sem Páll Melsteð hafði þýtt á íslensku og Wulffs Læsebog í dönsku. Mýrarhúsaskóla var skipt í tvo bekki fjórða starfsári skólans þar sem saga, landafræði og danska bættust við námsefni. Athygli vekur að börnum hafi verið sagt til í dönsku á tíma þegar tungumálanám var fjarri Íslendingum nema í Lærða skólanum. Smám saman fjölgaði kennslubókum og má meðal annars nefna Lærdómsbók í kristilegum trúarbrögðum handa unglingum eftir danska biskupinn Nicolai Edringar Balle. Af því má ráða að skynsemistrú Magnúsar Stephensens hafi enst nær alla 19. öldina á Seltjarnarnesi.  

Hugað að nýju skólahúsi

Eftir að hafa starfað í fimm ár í litla húsinu var það talið of lítið og auk þess illa farið meðal annars af leka og ekki myndi svara kostnaði að gera það upp. Var haldinn fundur á vegum hreppsnefndar að boði Magnúsar Stephensens bónda í Viðey og oddvita Seltjarnarneshrepps í Mýrarhúsaskóla 27. febrúar 1982 þar sem rædd var nauðsyn þess að byggja nýtt skólahús. Þessi fundur markar þáttaskil í skólamálum Seltirninga. Á fundinum varð samstaða um að reisa nýtt skólahús úr steini. Eigandi Mýrarhúsa lofaði að láta fjórðung úr dagsláttu eða 225 fernings faðma sem telst vera um 60 fermetrar undir skólann er skildi vera án leigu um aldur og ævi. Nokkur ágreiningur varð um hvar skólahúsið skyldi rísa. Til að ráða fram úr þeim vanda var skipuð fimm manna nefnd valinna búandmanna á Seltjarnarnesi. Ekki fór þó betur en svo að meirihluti staðarvalsnefndarinnar og meirihluti hreppsnefndar náðu ekki saman um staðsetninguna. 

Deilt um staðarval

Staðarvalsnefndin vildi byggja húsið neðan við götuna fram í Nes í vestur frá Mýrarhúsum. Meirihluti hreppsnefndar var ekki sáttur og lagði blátt bann við að byggt yrði eftir tillögum staðarvalsnefndarinnar. Þeir settu sig í samband við sýslumann sem þá var Kristján Jónsson er síðar varð ráðherra sem tók málið upp og brýndi alvarlega fyrir Magnúsi Stephensen oddvita að fara ekki í þessu máli fram fyrir eða utan löglegar ákvarðanir nefndarinnar. Röksemdir Magnúsar í málinu voru þær að hreppnum myndi sparast um 200 krónur ef byggt væri þar sem staðarvalsnefndin hafði lagt til auk þess sem húsnæðið yrði langtum haganlegra og betur sett. Þá mun hreppstjóri hafa neitað að kaupa teikningu eftir Lunders múrarameistara sem meirihluti hreppsnefndar hafi lagt til að byggt yrði eftir. Að lokum var ákveðið að fara neðri leiðina. Að byggja skólahúsið neðan við götuna að Nesi. Gamla húsið var selt til niðurrifs og viðir þess fluttir út í Engey þar sem þeir voru nýttir í bátaskýli. Kristinn bóndi í Engey er talinn hafa keypt gamla húsið til þess að greiða fyrir sáttum í deilunum um nýja skólahúsið. Nokkrar deilur urðu þó um bygginguna og kenndi hreppsnefndarmenn Guðmundi Einarssyni í Nesi og umsjónarmanni byggingarinnar um galla sem þeir töldu á nýja húsinu auk þess sem þeir báru fram kvartanir fyrir reikningshaldi Guðmundar. Þrátt fyrir deilur um nýja skólahúsið og byggingu þess reyndust Seltirningar almennt ánægðir með það. Nýja skólahúsið var formlega tekið í notkun 5. janúar 1883.

Nýtt skólahús varð hvatning í félags- og fræðslumálum

Í Suðra 20 janúar 1883 er sagt frá hátíðarhöldum á Seltjarnarnesi í tilefni þess að nýtt skólahús var tekið í notkun. Hátíðahöldin fóru fram um kvöldið 5. janúar 1883 og var allmörgum gestum úr Reykjavík boðið. Þar á meðal var Steingrímur Thorsteinsson skólameistari og skáld sem flutti Seltirningum frumsamið ljóð þar sem hann meðal annars lofsöng þekkinguna. Hann vitnaði til orða Francis Bacon um að þekkingin væri veldi og tengdi þau orð við viðleitni bænda á Seltjarnarnesi að kom á skólahaldi og miðla þekkingu til ungs fólks. Í Suðra frá sama tíma segir eftirfarandi. “Það liggur í augum uppi, hve brýn nauðsyn það er fyrir nesið, þar sem allir lifa á sjóföngum, að koma sér upp barnaskólahúsi; feðurnir eru oftast á sjó og mæðurnar hafa nóg með að vinna heima og allri barnafræðslu háski búinn, nema að fastur grundvöllur sé lagður undir hana, en það er að vorri hyggju vænt og varanlegt barnaskólahús.” Því verður ekki á móti mælt að nýja skólahúsið í Mýrarhúsum varð mönnum hvatning til átaka í félags- og fræðslumálum í byggðarlaginu.” 

Framfarafélagið fór að láta til sín taka

Þess var heldur ekki langt að bíða að Framfarafélag Seltjarnarness léti til sín taka. Í umræðum á fundi þar fljótlega eftir byggingu nýja skólahússins var rætt og lögð fram tillaga um að hefja kennslu í hannyrðum fyrir ungar stúlkur. Málið var nokkuð umdeilt. Þær skoðanir voru viðraðar að fjárskortur hamlaði að hefja slíka starfsemi auk þess sem Þórður Guðmundsson sagði að kennsla fyrir kvenfólk yrði til þess að engin vinnukind fengist. Niðurstaða þessa máls urðu þó þær að fengnar voru sex konur til þess að kenna á þriggja mánaða námskeiði. Allmargar stúlkur sóttu námskeiðið. Ætlunin var að halda annað námskeið árið eftir en af því varð ekki þar sem næg þátttaka náðist ekki. Einnig hófst fljótt umræða um sjómannafræðslu og stofnað var til hennar árið 1885. Talin var þörf á stofun sjómannaskóla en menn deildu nokkuð um hvað leggja bæri áherslu á í þeim fræðum. Var skipst á skoðunum um hvort meiri nauðsyn bæri til að kenna verklega þátt sjómennskunnar eða þann bóklega og þar á meðal siglingafræði.

Aftur rætt um sunndagsfræðslu

Haustið 1886 var til umræðu og þá öðru sinni að vera með fræðslu á sunnudögum. Var það hugsað fyrir þá sem litla eða enga menntun hefðu hlotið en væru komnir á fullorðinsár. Sigurður Sigurðsson kennari bauð fram krafta sína og að þessu sinni varð sunnudagsfræðslan að veruleika. Pétur Sigurðsson á Hrólfsskála og Guðmundur Ólafsson tóku að sér að annast kennslu með Sigurði.

Sigurður hættir kennslustörfum

Skólaárið 1896 til 1897 var síðasta skólaárið sem Sigurður Sigurðsson annaðist einn kennslu við Mýrarhúsaskóla. Á árunum 1897 til 1902 starfaði hann við kennslu ásamt aðstoðarfólki. Þá hafi sjón hans versnað verulega og hann átti orðið erfitt um starf sökum þess. Á almennum fundi 18. júní 1904 var rætt um hvort hann ætti að halda kennslu áfram og niðurstaðan varð sú að hann skildi hætta kennslustörfum þar sem sjóndepra ylli því að hann réði vart við þau lengur. Fundurinn lét einnig í ljós þakklæti til hans fyrir kennslu við skólann í 29 ár. Kennarastarfið var auglýst og tók Einar G. Þórðarson við starfi kennara og skólastjóra það ár.” Þar með lauk fyrsta kafla í sögu Mýrarhúsaskóla og skólahalds á Seltjarnarnesi sem hefur haldist óslitið frá upphafi skólastarfs á Nesinu.

Nemendur í Mýrarhúsaskóla ásamt kennara sínum á fyrri hluta síðustu aldar.

Heimildir: Seltirningabók. 

Blaðagreinar.  

You may also like...