Breiðholtsbrúin komin í gang

María Björk Jónsdóttir og Hildur Oddsdóttir bjóða fólk velkomið í Breiðholtsbrúna – nýtt félagsstarf í Fella- og Hólakirkju.

Langar þig að kynnast nýju fólki og víkka sjóndeildarhringinn er yfirskrift verkefnis sem Fjölskyldumiðstöðin í Gerðubergi og Hjálparstofnun kirkjunnar standa nú fyrir auk þess sem Pepp Ísland er aðili að verkefninu auk sjálfboðaliða úr Breiðholti. Pepp Ísland er grasrótarhreyfing fólks sem þekkir fátækt af eigin raun, berst fyrir réttindum fólks og eflir fólk til sjálfshjálpar. Verkefni nefnist Breiðholtsbúin og eins og nafnið bendir til ætlað til þess að sameina fólk úr ólíkum áttum og einnig að ná til fólks sem býr á einhvern hátt við félagslega einangrun. Starfið fer fram í Fella- og Hólakirkju og hófst 20. febrúar sl. en fólk hittist síðan í húsakynnum kirkjunnar um kl. hálf tólf fyrir hádegi annan hvern mánudag. Hugmyndin að þessu starfi kemur frá Vilborgu Oddsdóttur félagsráðgjafa hjá Hjálparstofnun kirkjunnar en þær Hildur Oddsdóttir og María Björk Jónsdóttir annast verkefnið.

Þær segja að um frjálst félagsstarf sé að ræða og allir séu velkomnir. Verkefni sé sniðið fyrir fólk á öllum aldri og án nokkurs tillits starfs, fjölskyldustöðu, þjóðernis eða neins annars. Þarna sé kjörið tækifæri fyrir fólk sem finnst það vera félagslega einangrað eða ekki í miklum samskiptum við ættingja eða vini til þess að eiga mannleg samskipti. Þetta geti átt við um fólk sem flust hefur hingað til lands – fólks sem á ef til vill flesta fjölskyldumeðlimi erlendis en einnig gróna Íslendinga sem langar að líta aðeins út fyrir sinn hversdagslega ramma. Þær segja fjölskylduaðstæður fólks mismunandi. Sumt fólk lifi í stórum vinahópum eða hafi marga ættingja í kringum sig en þær aðstæður séu ekki alltaf fyrir hendi. Þess vegna sé mikilvægt fyrir fólk að að kynnast og koma saman því þarna geti yngri og eldri – fólk með ólíkan bakgrunn blandað geði og átt stundir saman til þess að kynnast nágrönnum sínum og samferðafólki.

Fólk frá mismunandi löndum og heimshornum

Hildur og María segja að eitt verkefna þessa félagsstarfs sé að bjóða fólki að koma og elda mat sem þátttakendur borði síðan saman. Með því megi kynna mismunandi matarmenningu sem tengt geti fólk frá mismunandi löndum og heimshornum. Matur sé manns gaman og að bjóða fólki að koma með sínar eigin mataruppskriftir, elda og bjóða öðrum að bragða á gefi fólki kost á að kynnast – ekki bara mismunandi matarmenningu heldur og ekki síður hvort öðru. Þetta fer þannig fram að sjálfboðaliðar koma um kl. 10 á morgnana og svo er matur tilbúinn og framreiddur um kl. 11.30 þar sem fólk getur gætt sér á ýmsum réttum og spjallað saman. Þær Hildur og María segja að verið er að bjóða fólki að koma og taka þátt í þessu félagsstarfi á eigin forsendum en alls ekki að stilla því upp í einhverja hópa. Félagsstarfinu í Breiðholtsbrúnni sé ekki ætlað að höfða til tiltekinna aldurshópa. Þangað eru allir velkomnir hvort sem um heldri borgara ef til vill komna á eftirlaunaaldur er að ræða, ungt barnafólk og allt þar á milli. Þær Hildur og María segjast vonast til að foreldrar – jafnvel fólk í barnsburðarleyfi, feður og mæður sjá sér fært að taka þátt í þessu og það geti haft börnin með sér. Hugmyndin sé að koma upp barnahorni í Breiðholtsbrúnni. Þær segjast vona hið besta en vissulega geti tekið einhvern tíma að kynna þetta fyrir fólki. Þær segjast einnig vilja lýsa eftir hugmyndum um hvað fólk geti gert sér til ánægju. Þetta starf eigi að vera sjálfsprottið að hluta þar sem þátttakendur eru hvattir til þess að koma með eigin hugmyndir til þess að vinna úr. Talandi um tungumálaerfiðleika þegar nýbúar eiga hlut að máli segja þær að fólk eigi ekki að láta það vaxa sér í augum. Flestir nýbúar séu að reyna að ná tökum á íslensku en misjafnlega langt komnir að því leyti. Fólk sé hins vegar ótrúlega duglegt að bjarga sér og félagsstarf af þessu tagi hjálpi aðkomnu fólki vissulega að ná betri tökum á tungumálinu. Okkar markmið er að sjá sem flesta koma og njóta þessarar samveru og starfa með okkur segja þær Hildur og María.

You may also like...