Skipt um rennibraut og fleiri framkvæmdir við laugina

Sólveig Valgeirsdóttir forstöðumaður fyrir framan vinnusvæði við Breiðholtslaugina.

–  Sólveig Valgeirsdóttir forstöðumaður Breiðholtslaugar lætur af starfi um áramótin  –

Þessa dagana er unnið að því að skipta um rennibraut í Breiðholtslaug. Einnig er verið að koma fyrir köldum potti við einn af heitu pottunum við laugina og að koma útiklefum fyrir. Þá er unnið að lagfæringum við aðalinngang að sundlauginni.

Sólveig Valgeirsdóttir forstöðumaður Breiðholtslaugar segir ákvörðun um þessar framkvæmdir hafa verið teknar fyrr á þessu ári en þær hafi tekið aðeins lengri tíma en gert hafi verið ráð fyrir. Lengi hafi verið búið að bíða eftir köldum potti við laugina og kominn tíma til að skipta gömlu rennibrautinni út. Búið er að taka hana niður og er uppsetning hinnar nýju að hefjast. Þá hafi barnasvæði í kringum vaðlaugina verið lagfært en krakkar noti það mikið.

Um áramótin lætur Sólveig af starfi sem forstöðumaður sundlaugarinnar. “Ég er búin að vera hér í átta ár og kominn tíma til að breyta til.” Hún hverfur þó ekki alveg á braut því hún fer til starfa hjá ÍTR þar sem hún starfaði áður og mun hún hafa með málefni sundlauganna að gera eftir að hún flytur sig um set. Við starfi hennar við Breiðholtslaugina tekur Hafliði Guðjónsson fyrrverandi kennari Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.

You may also like...