Flestar lagnir komnar á tíma endurnýjunar

Hér má sjá stórvirkar vinnuvélar mættar til uppgraftrar á framkvæmdasvæðinu.

Breyting hefur verið gerð á skipulagi framkvæmda Veitna í gamla Vesturbænum sem snerta Hlésgötu, Mýrargötu, Nýlendugötu, Bræðraborgarstíg og Vesturgötu og röð verkáfanga breytt. Framkvæmdir í Hlésgötu eru hafnar og unnið verður upp að Mýrargötu en stefnt er á að hún verði lokuð 12. til 30. júní.

Í byrjun júní hefst annar áfangi en þá er áætlað að leggja lagnir undir Nýlendugöturóló. Vinnan við þriðja áfanga á Vesturgötu mun standa yfir frá miðjum júlí og fram í lok október, en þar verður byrjað við gatnamót Bræðraborgarstígs og endað við gatnamót Stýrimannastígs.

Veitur hafa undanfarið verið í samskiptum við íbúa í nágrenni framkvæmdanna og íbúaráð Vesturbæjar. Þar hefur mikilvægi Nýlendugöturóló í hugum fólks komið skýrt fram. „Ekki verður hjá því komist að þvera leikvöllinn í þessum framkvæmdum þar sem garðurinn átti upphaflega að vera gata frá Bræðraborgarstíg að Mýrargötu og því liggja allar lagnir undir honum. Við munum gera okkar besta til að skila honum af okkur í upprunalegri mynd,“ segir í tilkynningu Veitna til íbúa.

Hér má sjá yfir gamla Vesturbæinn. Fyrsti, annar og þriðji áfangi veituframkvæmda eru merktir á kortið.

Nauðsynlegt að stækka fráveitukerfið

Samkvæmt upplýsingum frá Veitum eru þessar framkvæmdir mjög mikilvægar þar sem skólp hefur flætt í kjallara nokkurra húsa í götunni í leysingum og mikilli úrkomu. Nauðsynlegt er því að stækka fráveitukerfið og aðgreina lagnir fyrir regnvatn og skólp. Núverandi skólplögn í Vesturgötu liggur grunnt þar sem mjög stutt er niður á klöpp undir götunni og ekki hefur verið fleygað fyrir þeim á sínum tíma. Það þarf því að fleyga töluvert langa leið, eða frá Vesturgötu 38 og 39 og fram yfir gatnamót Vesturgötu og Bræðraborgarstígs. Það mun hafa áhrif á hljóðvist og einnig skapa við titring. Fleygunin verður unnin í samræmi við reglur um vinnutíma. Á íbúðasvæðum er heimilt að vinna á virkum dögum milli kl. 8 til 18. Aðra daga er fleygun ekki heimil. Skoðun á húsum að utanverðu við vinnusvæðið hefur þegar farið fram svo hægt sé að meta hvort fleygunin hafi áhrif á þau. Þá eru flestar kaldavatnslagnirnar einnig komnar á tíma en þær eru flestar frá árinu 1925. Þess verður gætt að aðgengi fyrir gangandi vegfarendur á Vesturgötu verði sem best á meðan á framkvæmdunum stendur. 

You may also like...