Hvatningarverðlaun fyrir Fugla
Grandaskóli fékk hvatningarverðlaunin fyrir verkefnið Fuglar sem unnið var í samstarfi skóla í sex Evrópulöndum. Markmiðið er að þróa rannsóknarmiðað og þverfaglegt námsefni í náttúrufræði og raungreinum með áherslu á fuglaskoðun og rannsóknir á fuglum í sínu náttúrulega umhverfi.
Rannsóknir nemenda og úrvinnsla, fjölbreyttar kennsluaðferðir og samskipti milli nemenda þátttökulandanna samþættir nám í landafræði, eðlisfræði, efnafræði, stærðfræði, upplýsinga- og tæknimennt, listgreinum og tungumálum auk náttúrufræðinnar. Í verkefninu er mikil áhersla lögð á útikennslu til að efla umhverfisvitund nemenda og félagslega færni, virðingu fyrir umhverfinu og sjálfbærni. Í umsögn dómnefndar segir: Hér er á ferðinni metnaðarfullt samstarfsverkefni þar sem nánasta umhverfi nemenda er nýtt til að kenna nemendum vísindaleg vinnubrögð um leið og þeir fræðast um og upplifa náttúruna. Verkefnið er vel til þess fallið að efla umhverfisvitund og virðingu nemenda ásamt því að fræðast um náttúru í öðrum löndum frá samstarfsskólunum.