Fólk er óánægt með getuleysi þeirra sem eiga að gæta hagsmuna almennings

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR.

Ragnar Þór Ingólfsson var kjörinn formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur í mars á þessu ári með tæpum 63% atkvæða. Segja má að kjör hans hafi borið að með nokkuð óvæntum hætti en hann sigraði sitjandi formann með fyrrgreindum yfirburðum. Ragnar hafði tekið talsverðan þátt í störfum VR og einnig umræðum um þjóðmál – einkum kjara- og lífeyrismál og náð eyrum fólks í því sambandi. Hann telur að ná þurfi fram ýmsum breytingum einkum er snertir starfsemi lífeyrissjóða og einnig annarra málefna. Rangar Þór er Breiðhyltingur. Foreldrar hans bjuggu í Bökkunum þegar hann fæddist en fluttu síðan í Efra Beiðholtið þar sem hann ólst upp í hornblokkinni við Austurberg 20 og gekk í skóla, fyrst í Hólabrekku og síðan í FB. Þaðan lá leið hans í reiðhjólin en hann starfaði sem verslunarstjóri í Erninum um nær aldarfjórðungs skeið. Þótt hann búi hinum megin Elliðaárdalsins sem stendur – í Árbænum kveðst hann oft horfa yfir dalinn í átt til æskuslóðanna og ef hann hugsi sér til hreyfings þá verði farið heim eins og hann kemst að orði.

Þegar Ragnar er sestur með Breiðholtsblaðinu á Cocina Rodrigues í Gerðubergi stendur ekki á að rifja upp gamla tíma. Hann horfir í kringum sig og segir. “Hér lék maður sér sem krakki. Ég man vel þegar Gerðuberg var í byggingu og við fórum mikið þangað. Þegar menn voru að grafa grunninn að húsinu var ég að horfa á þá út um gluggann minn í Austurberginu. Við lékum okkur í hálfbyggðu húsinu, fundum, glufur til þess að lauma okkur inn, mokuðum í sandhaugunum og stukkum niður af stillönsum og enduðum stundum uppi á þaki ef ég man rétt.”

Austurbergið er mitt heimasvæði

“Eftir að við fluttumst úr Írabakkanum varð Austurbergið og nágrenni athafnasvæði okkar krakkanna. Ég kunni strax vel við mig og í hvert skipti sem rætt var í fjölskyldunni hvort við ættum að flytja tilkynnti ég að ég færi ekki með því hér ætti ég heima. Ég held að aldrei hafi verið hugað að flutningum í neinni alvöru og til marks um staðfestu mína að þessu leyti þá hóf ég minn eigin búskap í Austurberginu í kjallaraíbúð sem foreldrar mínir áttu í blokkinni við Austurberg 20.” Ragnar segir að þarna hafi vinahópur orðið til sem haldi saman enn þann dag í dag. “Við erum 16 félagar sem höfum haldið hópinn frá þessum tíma. Ég veit ekki hvort myndun svona kunningjahópa er eins algeng í dag. Ég hef engan samanburð. Ég þekki ekki annað.”

Er Leiknismaður

“Ég er líka Leiknismaður,” heldur Ragnar áfram. “Ég er fæddur daginn sem Leiknir var stofnaður 17. maí á þjóðhátíðardegi Norðmanna 1973 og spilaði með yngri flokkunum í Leikni á sínum tíma. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki verið nægilega duglegur að mæta á leiki á síðari árum en hef engu að síður sterkar taugar til félagsins. Svo á ég góðar minningar héðan úr Gerðubergi eftir að húsið var fullbyggt. Ég kom mikið hingað sérstaklega í bókasafnið. Það var frábært að dífa sér í leðursófana með blöð til þess að skoða og lesa. Og svo var skátastarfið. Ég var í Haförnunum og man vel eftir gamla skátaheimilinu sem brann á endanum. Þetta var kofi sem var kominn í mikla niðurníðslu en notaður lengi vel. Við smíðuðum líka fyrsta hjólabrettarampinn sem var í fullri lengd hér á landi. Hann var fyrir framan skátakofann og var brenndur – en sá bruni átti ekkert skylt við bruna kofans. Rampurinn var brenndur alveg sér.”

Verslunarstjóri, hjólreiðar tónlistarlíf og fleira

Svo tekur alvaran við af græskulausri æsku í Breiðholtinu. “Það má alveg taka þannig til orða. Ég byrjaði að vinna í Erninum árið 1992 og vann þar alveg þangað til að ég fór að hafa afskipti af stjórnmálum. Ég starfaði þar sem sölustjóri og náði aldarfjórðungs starfsaldri um áramótin 2016 þegar ég tók ákvörðun um að hætta.” En er Ragnar þá ekki hjólreiðamaður sjálfur hafa verandi innan um reiðhjól í 25 ár. “Jú, jú – ég er hjólreiðamaður og nú þegar ég er hættur að starfa við sölu á þeim þá eru hjólreiðar helsta áhugamálið fyrir utan vinnuna. Hjólreiðarnar eru ákveðinn partur af manni. Ég hef skipulagt nokkrar hjólreiðaferðir í fjarlægari löndum. Á Kúbu og í Austur Asíu, í Taílandi og Kambódíu. Ég hjóla líka innanlands en stunda ekki keppni. Hjólreiðarnar eru fremur hugleiðsla fyrir mig. Á hjólinu næ ég að tæma hugann. Ragnar var líka í músíkinni á strákaárunum. “Við stofnuðum fyrstu rapphljómsveitina á Íslandi. Þar voru Helgi Eiríksson sem nú stýrir Miðbergi og Bergsveinn Árelíusson söngvarar. Ég spilaði á trommur með nokkrum hljómsveitum. Skólahljómsveit FB og ég spilaði líka með Heru Þórhalls söngkonu svo einhverra sé getið. Æskustundirnar í Austurberginu voru skemmtilegur tími,” heldur Ragnar áfram. “Í minningunni er þetta eiginlega samfellt ævintýri. Frumbyggjarnir héldu mikið hópinn og það var lítil hreyfing á fólki. Ég held að þetta hafi haldist nokkuð. Fólk er að hugsa um börnin. Veita þeim tækifæri til þess að alast upp í sama umhverfinu í sömu skólum. Fólk metur að ala þau upp í rótgrónu umhverfi. Allt fram á fullorðinsár voru flest allir vinir mínir og kunningjar úr Efra Breiðholtinu. Allt til þess að þeir voru flognir úr hreiðrunum. Svona uppeldi mótar mann fyrir lífstíð.”

Sorgaratburður kom mér til að hugsa um velferðarmálin

En að deginum í dag. Þú ákvaðst að snúa við blaðinu og hætta stjórnunarstörfum við verslun og gerast verkalýðsforingi ef svo má að orði komast. Ragnar segir það hafa átt nokkurn aðdraganda. “Eftir fráfall innan fjölskyldunnar fyrir um áratug fór ég að skoða lífeyriskerfið með gagnrýnum hætti og skrifa um það. Þetta koma til þegar ég var ásamt vini mínum, sem ég var einnig tengdur fjölskylduböndum í veiðiferð árið 2007, og hann varð bráðkvaddur í höndunum á mér. Þetta fólk var á svipuðu reki og ég og eftir stóð ekkja með tvö ung börn. Þá fór ég að átta mig á að lífeyriskerfið er ekki það bakland sem það ætti að vera og ég fór að skoða það nánar. Kannski var ástæðan fyrir því að ég fór að kynna mér kerfið mín leið til þess að syrgja góðan vin. Upp frá því fór ég að taka virkan þátt í umræðunni, í búsáhaldarbyltingunni og hallarbyltingu sem gerð var í VR og skilaði mér inn í stjórn félagsins. Ég kom að stofnun Hagsmunasamtaka Heimilanna og á þar sæti í stjórn. Hef beitt mér fyrir afnámi verðtryggingar á neytendalánum og aðgerðum gegn grímulausu vaxtaokri sem hér virðist meitlað í stein. Ég hef skrifað fjölda greina um nauðsyn þess að gjörbreyta lífeyriskerfinu sem í raun er ein stór fátækragildra vegna samspils kerfisins við almannatryggingar og hef bent á alvarlega kerfisgalla sem standast ekki nokkra skoðun og eins bent á lausnir til að leysa vanda kerfisins.”

Húsnæðisvandinn meiri en fólk gerir sér grein fyrir

Ragnar Þór snýr sér að húsnæðisvandanum og segir hann miklu alvarlegri en fólk geri sér grein fyrir. “Þessi vandi á sér ýmsar orsakir. Hér hefur orðið umtalsverð fólksfjölgun. Lítið samband hefur verið á milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðisins um skipulagsmál og raunar hafa sveitarstjórnir í einu sveitarfélagi lítið vitað um hvað verið er að gera í því næsta. Í mínum huga þarf að skipuleggja þetta svæði allt með sameiginlega hagsmuni íbúanna í huga eins og farið er að huga að. Þetta er í rauninni eitt byggðarlag sem þarf að líta til í einu lagi þegar kemur að skipulags- og húsnæðismálum. Við þetta bætast svo áhrif af nokkurra ára stöðnun húsbygginga eftir hrunið 2008.” Ragnar segir að þótt allt gott megi segja um þéttingu byggðar í Reykjavík og betri nýtingu landkosta hafi það ekki dugað til að leysa húsnæðisvandann. Einnig verði að byggja á öðrum svæðum utan núverandi byggðar.”

Bygging Breiðholtsins var kraftaverk

Og þá vaknar spurningin. Er vandinn svo stór að ráðast verði í skipulagningu og uppbyggingu byggðar í líkingu við það sem gert var á sjöunda áratug liðinnar aldar þegar Breiðholtið var byggt utan þáverandi byggðar í Reykjavík. Þarf ef til vill að móta ýtt byggingasvæði utan núverandi byggðar. Ragnar hugsar sig um “Bygging Breiðholtsins var afrek á sínum tíma og leysi mikinn og uppsafnaðan vanda. Nýtt hverfi með 10 til 12 þúsund manna byggð myndi leysa núverandi vanda að mestu að viðbættri þéttingunni og jafnvel einhverjum flýtiaðgerðum. Þegar gosið varð í Vestmannaeyjum eftir áramótin 1973 þurfti að finna Vestmanneyingum húsnæði upp á landi án nokkurs fyrirvara. Þá var tekist á við þann bráðavanda með eftirminnilegum hætti. Hér í Breiðholtinu er hverfi sem byggt var upp af innfluttum húsum sem nefnd voru Viðlagasjóðshús vegna þess að samnefndur sjóður tók þátt í að koma upp húsnæði fyrir fólk sem þurfti að flýja heimili sín í Vestmannaeyjum. Þetta húsnæði hefur reynst vel og er enn í fullri notkun áratugum síðar. Hugsanlega má líta til þessarar reynslu nú þegar vandinn virðist stöðugt fara vaxandi. Ég held að hluti hans felist í sífellt aukinni skriffinnsku vegna byggingaframkvæmda. Það er verið að þyngja skipulags- og byggingarreglugerðir og viðbragðshraðinn er orðinn fáránlega langur. Ég get bent á dæmi. Húsnæðisfélagið Bjarg er að fara af stað með byggingu um 2600 íbúða en það tekur um tvö ár að breyta skipulagi. Þetta tefur byggðaþéttinguna um of þegar jafn mikill vandi blasir við. Fólk er farið að koma sér fyrir austan fjall; í Hveragerði, á Selfossi og á Akranesi og nágrenni. Einnig á Suðurnesjum og hikar ekki við að sækja vinnu inn á höfuðborgarsvæðið.”

Búsetuöryggi er mannréttindamál

Hvar mætti hugsa sér að byggja “nýtt Breiðholt” ef svo má að orði komast. Ragnar segir að enn sé til nóg af byggingarlandi, til dæmis við Úlfarsfell en sveitarfélögin verði líka að mæta þessum vanda sem ein heild en ekki hvert fyrir sig og síst af öllu í samkeppni hvert við annað. “Ég held að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af að fólk tengist ekki nýjum byggðum sé rétt að málum staðið. Þegar ég var að alast upp í Austurberginu var flest sem við þurftum að hafa í nágrenninu. Skólarnir, íþróttahúsið við Austurberg, Leiknisvöllurinn, Breiðholtslaugin, Menningarmiðstöðin Gerðuberg, Heilsugæslan og verslunarmiðstöðin Hólagarður sem byggð var af framsýni eins manns. Spurning er um hvort gera mætti eitthvað í líkingu við þetta við Úlfarsfellið. Ef farið verður út í að byggja stóran framtíðarborgarhluta þar þá er Breiðholtið góð fyrirmynd. Við getum ekki sætt okkur við að fólk eigi ekki samastað, sé stöðugt í leit að húsnæði, sé flytjandi fram og til baka á milli staða og geti hvergi fest rætur af þeim sökum. Það er framtíð sem við viljum ekki búa börnunum okkar. Í mínum huga er búsetuöryggi mannréttindamál.”

Íbúðir færðar frá fólki til fasteignafélaga

En af hverju er þetta svona. Hvað gerðist í samfélaginu sem leitt hefur til þess að búsetuöryggi er ekki fyrir hendi. “Þetta er fyrst og fremst sjálfskapað ástand sem verður af meðvituðu aðgerðarleysi af hálfu ríkis og sveitarfélaga og verkalýðshreyfingarinnar og markaðurinn hefur nýtt sér. Leigurisar, fasteignafélög og jafnvel einstaklingar hafa þegar hagnast ævintýralega á þessu ástandi. Sveitarfélögunum láðist að kortleggja húsnæðisþörfina og síðan bættist við aukin þörf vegna stöðugt vaxandi ferðaþjónustu.” Ragnar segir engan veginn ljóst hvernig þetta muni enda. “Þúsundir íbúða hafa verið færðar frá bönkunum sem eru að miklu leyti í eigu ríkisins og Íbúðalánsjóðs sem einnig er í eigu hins opinbera til fasteignafélaga. Mikill hluti þessara íbúða hafa verið hirtar með óbilgjörnum hætti af fólki sem lent hafði í erfiðleikum vegna vísitölubindingar lána eftir hrunið og komið í hendur þessara félaga. Með ólíkindum er að þjóðkjörnir einstaklinga sem áttu að gæta hagsmuna almennings skuli hafa gefið fjármála- og viðskipta-lífinu skotleyfi á almenning að þessu leyti.”

Verkalýðshreyfingin ber ábyrgð

Ber verkalýðshreyfingin einhverja ábyrgð að þessu leyti. “Já – hún gerir það. Vissulega. Að sjálfsögðu átti hún að taka í taumana en ekki eingöngu að sjá um að hækka laun fólks í takti við verðbólguspá Seðlabankans. Hvernig má það vera að fjölskylda með þrjú börn sem er búin að missa íbúðina sína til banka og leigir af honum fer til umboðsmanns skuldara og útlausnin er sú að bankinn selur íbúðina í hendur fasteignafélagsins sem hækkar leiguna tvöfalt eða meira. Fjölskyldan getur ekki greitt svo háa leigu búinn að missa allt sitt og er hent út á götuna.”

Hvernig verður þeirra minnst sem tóku stöðu gegn fólki

Ragnar segir að öll úrræði sem notuð hafi verið og áttu að hjálpa fólki í eftirmálum hrunsins séu til háborinnar skammar. “Ríkið gekk hreinlega á móti þessu fólki sem missti eigur sína í verðbólguskotinu sem var eftir hrunið og snarhækkaði skuldir þess umfram tekju- og eignastöðu. Ég velti fyrir mér hvernig þeirra einstaklinga verður minnst sem tóku stöðu gegn fólki með þessum hætti.” Hann kveðst vera með þessa sögu í farangrinum í sinni baráttu. Hvernig hundruð fjölskyldna misstu heimili sín. Hvernig fjölskyldur leystust upp. Hvernig fólk tók líf sitt í örvæntingu þegar því fannst það vera svipt framtíðinni. “Vinstri flokkarnir ætluðu að slá skjaldborg um heimilin en slógu þess í stað skjaldborg um fjármálakerfið. Vildi ríghalda í verðtrygginguna. Forseti Alþýðusambandsins lagðist einnig hart gegn því að taka vísitöluna úr sambandi á sama tíma og hún var að hrekja fólk út á götuna.”

Ráðandi valdakjarni með sterka stöðu

“Ég hafði ekki verið að velta því fyrir mér hverjir stjórnuðu landinu áður en að ég lagði í þessa vegferð. Ég byrjaði að stúdera kerfið. Finna út hvernig það er byggt upp, hvernig ávöxtunin verður til og hvernig það virkar. Ég byrjaði að skrifa greinar og var með fjölmennan tölvupóstlista. Ég fór að fá svör frá þeim sem lásu þetta og fann að þessi skrif mín höfðu áhrif. Um það leyti sem hrunið varð komst ég í samband við Herdísi Dröfn Baldvinsdóttir sem hafði skrifað doktorsritgerð um tengslanet valda á Íslandi. Ég las ritgerðina og niðurstöðurnar komu heim og saman við það sem ég var búinn að komast að um lífeyrissjóðina.” Í doktorsritgerðinni rekur Herdís Dröfn tengsl hinna ýmsu aðila innan atvinnulífsins, fjármálageirans og verkalýðshreyfingarinnar. Herdís setur fram þá kenningu að á Íslandi sé ráðandi valdakjarni með sterka aðstöðu í stærstu hlutafélögum og fjármálastofnunum. Hann stýri og samhæfi stærstu atvinnufyrirtæki landsins og leggi öll ráð um félagslegar og stjórnmálalegar aðgerðir. Þetta sjáist bæði af fjárfestingum í fyrirtækjum og enn skýrar þegar skoðað er flókið samspil þeirra í stjórnarsetu sem gerir tengsl þeirra að þéttriðnu neti. “Lestur ritgerðarinnar vakti ásamt mínum eigin athugunum upp óteljandi spurningar um tengslin á bak við tjöldin og ég fór að benda á þessi tengsl opinberlega. Þessi vinna mín skilaði mér inn í stjórn VR þar sem sumir litu á mig eins og þjóf á nóttu. Ég hafði hugsað mér að hætta fyrir síðustu kosningar en þegar ég fann fyrir miklum stuðningi ákvað ég að slá til. Formannskjörið í VR er eftirleikurinn sem segir mér að fólk vill breyta til og ekki aðeins í húsnæðismálunum. Fólk er óánægt með getuleysi þeirra sem eiga að gæta hagsmuna almennings.”

Ætla að leggja allt í sölurnar fyrir breytingar

Hvað serðu fyrir þér sem formaður VR. “Persónulega hef ég ekki metnað til frama en ég ætla að nota þessa stöðu til þess að gera breytingar. Ég ætla að leggja allt í sölurnar. Ég hef óbilandi trú á að það sé hægt en ég geri það ekki einn. Eina leiðin til þess er að hafa hóp fólks með sér – fólks sem hefur kjark til þess að taka slaginn og fara í það stríð sem þarf.”

You may also like...