Líkön af Breiðholtinu sýnd á Breiðholtsþingi

Séð niður eftir Breiðholtinu. Breiðholtsbrautin er fyrir miðju á myndinni en grónar hlíðar á milli Efra og Neðra Breiðholts sjást greinilega.

Breiðholtsþing var haldið í Gerðubergi miðvikudagskvöldið 22. mars í tengslum við hugmyndasöfnunina Hverfið mitt 2017. Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir verkefnastjóri á Borgarbókasafni hélt stutta kynningu um sköpun og Sonja Wiium verkefnastjóri í verkefninu Hverfið mitt skýrði frá verkefnum sem unnin hafa verið í Breiðholti undanfarin ár og sagði frá tímalínu verkefnisins í ár.

Því sem næst var unnið eftir aðferðafræði skapandi samráðs, en það felur í sér að fundargestir skoðuðu stór líkön af Breiðholtinu og áttu út frá því umræður um hugmyndir sem þeir telja að geti nýst hverfinu og íbúum þess. Hugmyndir voru síðan merktar með sérstökum spjöldum sem búið er að útbúa fyrirfram, en einnig hafði fólk færi á að skapa sínar eigin hugmyndir út fyrir ramma spjaldanna. Fundurinn þótti takast afar vel þó mæting hefði mátt vera betri, en á þriðja tug íbúa mættu í Gerðuberg þetta kvöld. Um 160 hugmyndir bárust um hvað betur megi fara í Breiðholti í hugmyndasöfnun á vefnum hverfidmitt.is. Hugmyndinar bíða nú frumvinnslu þar sem þær verða flokkaðar og hugmyndir valdar til þess að kjósa um en kosning um þær verða á tímabilinu 17. til 31. október í haust. En hvað vilja Breiðhyltingar láta gera. Ef litið er yfir óskir þeirra undanfarinna ár kemur eitt og annað fram.

You may also like...