Saga hús, lækninga og lyfja í myndlist

Sumarsýningin í Nesstofu var opnuð nýlega. Nefnist hún List Officinalis og voru verk á sýninguna valin með tilliti til sögu Nesstofu, Urtagarðsins og lækninga og lyfja. Leitast er við að varpa ljósi á þetta hús og þá merku starfsemi sem þar var hafin og fór fram í þágu heilbrigðismála hér á landi. Myndin var tekin við opnun sýningarinnar og þar eru Sigríður Nanna Gunnarsdóttir sýningarstjóri, Eggert Pétursson listmálari og Soffía Karlsdóttir menningarfulltrúi Seltjarnarnesbæjar.

List Officinalis er yfirskrift sumarsýningar Nesstofu að þessu sinni og er henni lýst sem samtali myndlistar við Urtagarðinn í Nesi. Eins og heitið bendir til er með sýningunni leitast við að varpa ljósi á sögu þessa merka húss, lækningar og lyfja á þeim tíma þegar læknis- og lyfjafræði voru nánast óþekktar hér á landi. Á sýningunni eru verk eftir myndlistarmennina; Alex Fretin, Birgi Andrésson, Clöru Bro Uerkvitz, Eggert Pétursson, Ingibjörgu BIrgisdóttur, Rósu Sigrúnu Jónsdóttur Söru Riel og Steinunni Önnudóttur. Sýningarstjóri er Sigríður Nanna Gunnarsdóttir og litu Nesfréttir við hjá henni í Nesstofu á dögunum.

Hver er hugmyndin og aðdragandinn að sýningunni?

Ég hringdi nú bara í hana Soffíu Karlsdóttur, menningarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar og spurði um vinnu í sumar og þegar ég sagðist vera að klára meistaranám í listfræði var hún mjög spennt og sagðist vera með hugmynd sem hún hafði fengið í gegnum samtal við Rósu listakonu sem er einmitt með verk í sýningunni. Soffía gaf mér eitt lykilorð eða þema sem ég fékk frjálsar hendur með; Urtagarðurinn. Ég hefði í raun getað getað unnið allt aðra sýningu inn í húsið, t.d með öðrum formum listarinnar en fljótlega fannst mér best og skýrast að leyfa aðeins myndlistinni að tala sínu breiða máli í gegnum ólíka miðla eins og olíu á striga, handavinnu, leir og myndbandsverk. Ég ímyndaði mér að húsið, Urtagarðurinn og jafnvel gamli garðurinn hans Björns lyfsala í Nesi, væru að tala saman og að listaverkin væru þýðendur. Í mínum huga voru húsið, garðurinn og listin því orðin að nokkurs konar heilandi þrenningu um græðslu lands og líkama og ég trúi því að listin lækni sjúka að einhverju leyti.”

Sigríður Nanna Gunnarsdóttir sýningarstjóri.

Valdi verk – ekki listamenn

Hvað réði vali listamanna?

“Ég valdi nú enga listamenn, bara verkin þeirra, segir Sigríður hlæjandi. Þau eiga það öll sameiginlegt að tengjast jurtum á einhvern hátt. Það sést kannski dálítið með verkunum, að ég valdi mjög meðvitað verk eftir lítið þekkta og mjög vel þekkta listamenn og fannst gott að geta farið út úr flokkunarkerfi vinsælda og stillt þeim upp í húsinu eins og mér þótti fallegast. Á þeim mánuði sem ég hafði til að setja sýninguna saman sá ég alltaf fyrir mér að hafa hana lágstemmda og fallega og láta húsið og verkin vera heild. Því varð ég að sleppa og hreinlega hafna sumum verkum sem ég fékk að skoða, en ég ígrundaði öll verkin vandlega áður en ég bað um að fá þau á sýninguna. Hefði heildin glatast þá hefði ég verið með tvær sýningar, húsið annars vegar og verkin hins vegar. Það hefði verið súrt og þá hefði ég örugglega ekki gert þetta aftur, segir Sigríður og grettir sig.”

Íllgresi og blóm

Nú eru myndverkin úr ýmsum áttum – koma úr mismunandi hugarheimum og unnin með ýmiskonar tækni. Eiga þau sér einhverja sameiginlega skýrskotun?

“Já – þau vísa öll í jurtir en eru úr ólíkum áttum. Á sýningunni er t.d par eftir Birgi Andrésson og Eggert Pétursson. Sagan segir að þegar þeir hafi velt fyrir sér samstarfi hafi Birgir ekki viljað vinna með blóm heldur illgresi. Úr varð sería af pörum þar sem Birgir lýsir ýmsum jurtum í textaverki og Eggert málaði eftir lýsingunum. Ég var svo lánsöm að fá að láni parið þeirra um haugarfann enda er hann þekkt lækningajurt.”

Að verða fyrir áhrifum sögunnar

Er eitthvað sérstakt sem lesa má út úr sýningunni?

“Ef ég hefði viljað fræða fólk um línulega sögu hússins hefði ég gert það, en þá hefði það orðið menningarsöguleg sýning. Gestir eiga alls ekki að lesa eitthvað eitt ákveðið út úr sýningunni heldur verð ég glöð ef þeir leyfa sér að skynja og verða fyrir áhrifum sögunnar eða eigin tilfinninga.”

Helgi Þorgils Friðjónsson myndlistarmaður, Sverrir Kristinsson fasteignasali og listunnandi og Eggert Pétursson listmálari við opnun sýningarinnar.

Fjölmenni var við opnun sýningarinnar.

You may also like...