Húsnæðismálin stærst og framtíðin björt í Breiðholti

Dagur B. Eggertsson og Ingigerður (Inga) Guðmundsdóttir formaður ÍR undirrita samning um samninga um uppbyggingu knattspyrnuhúss, handbolta- og körfuboltahúss og fimleikahúss í samvinnu við ÍR að viðstöddum ungum ÍR-ingum.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir uppbygginguna í Reykjavík þá mestu í sögu borgarinnar. Húsnæðismál eru í algjörum forgangi. Til að auka framboð af íbúðum á viðráðanlegu verði hafi borgin farið í samstarf við stúdenta, eldri borgara, verkalýðshreyfinguna og aðra sem vinna að húsnæðisuppbyggingu án hagnaðarsjónarmiða. Staðfest áform þessara samstarfsaðila eru um 3.700 íbúðir og segir borgarstjóri mikilvægt að þau komist sem fyrst til framkvæmda.

Dagur segir sterka niðurstöðu ársreiknings borgarinnar fyrir 2016 endurspegla trausta fjármálastjórn og honum finnst gott að góður friður sé um stjórn borgarinnar. Stóra verkefnið sé að þróa kraftmikla og spennandi borg sem tryggi íbúum sínum jafnframt öryggi og lífsgæði. Lykilmálin séu málefni ungs fólks og eldri borgara. „Við verðum að standa saman um öfluga höfuðborg sem er samkeppnishæf við þær borgir sem við berum okkur saman við. Hér verða að vera öflug fyrirtæki sem geta greidd góð laun. Öflugir leik- og grunnskólar eru líka lykilatriði þegar fólk velur sér búsetu. Nú þegar höfum við samþykkt að stofna ungbarnadeildir í nokkrum leikskólum í borginni.“ Dagur segir að Breiðholtið sé hverfi sem eigi mikinn félagsauð og hann sjái mikla möguleika í Breiðholtinu. Fjölmörg verkefni hafi orðið að veruleika síðustu misseri. Breiðholtið hafi verið í ótvíræðri sókn og framundan sé uppbygging íþróttamannvirkja og íbúðarhúsnæðis á völdum svæðum.

Húsnæðismálin eru stærst

Húsnæðismálin eru óneitanlega stærsta málið í dag en hvernig náum við markmiðum að búa til borg með húsnæði fyrir alla?

Dagur segir mikilvægt að hafa yfirsýn og um leið veita öðrum yfirsýn. „Árin 2015 og 2016 voru metár í uppbyggingu í borginni en þetta ár verður enn stærra og næstu ár sömuleiðis. Það veitir ekki af því vegna þess að eftirspurnin eftir húsnæði hefur vaxið hratt. Við höfum lagt áherslu á að eins mikið af íbúðum og hægt er verði byggðar af félögum sem ekki eru að byggja í hagnaðarskyni til að stuðla að því að húsnæðið verði á viðráðanlegu verði. Við höfum líka beitt okkur fyrir samstarfi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu því ef við leggjumst öll á eitt náum við jafnvægi á húsnæðismarkaðnum fyrr en ella. Leiðarljósið á að vera öruggt húsnæði fyrir alla, líka fjölskyldur og fólk sem hefur minna á milli handanna.“

Sterk staða fjármála

Athygli vakti að ársreikningur borgarinnar fyrir síðast ár skilaði hagnaði. Hverjar eru skýringarnar?

„Já, það er rétt. Niðurstaðan var sterk en kom ekki af sjálfu sér. Við höfum náð árangri í fjármálunum, launin hækkuðu umtalsvert hjá borginni, eins og víða annars staðar og nú hefur tekist með aðhaldi að skila afgangi þrátt fyrir þær kjarabætur. Þar hefur bæði tekist að lækka kostnað og tekjur hafa aukist með hækkandi tekjum í samfélaginu. Fyrirtæki borgarinnar skila líka afgangi og þar vegur þyngst að björgunaráætlunin sem við gerðum fyrir Orkuveituna fyrir fimm árum hefur gengið eftir í einu og öllu. Við höfum líka ráðist í rekstarúttektir á öðrum fyrirtækjum og þau eru nú öll komin á réttan kjöl. Vegna þessa viðsnúnings í fjármálum treystum við okkur á síðasta ári til að bæta tæpum milljarði inn í skólana, við höfum líka sett fram fimm ára áætlun um stórátak í viðhaldi á götum og malbiki og erum að setja fjármagn í ýmislegt sem varð að bíða í sparnaðinum eftir hrun.“

Breiðholtið er í sókn

Varðandi Breiðholtið þá hefur vakið athygli að þú ert töluvert á ferðinni í hverfinu. Hver eru stærstu verkefnin sem snúa að Breiðholtinu?

„Já, það hefur verið frábært að vinna með Breiðhyltingum og ljóst að hverfið er í mikilli sókn. Við höfum verið að taka skólalóðirnar í hverfinu í gegn við mikla ánægju hjá krökkunum. Við sjáum aðsóknarsprengju í Breiðholtslauginni eftir að nýja líkamsræktarstöðin tók til starfa þar. Við erum í meira og betra samstarfi við Fjölbrautarskólann í Breiðholti en nokkurn tímann áður. Við höfum verið að þróa hugmyndir um hverfaskipulag fyrir Breiðholtið í ítarlegu samráði og síðast en ekki síst höfum við gert samninga um metnaðarfulla uppbyggingu knattspyrnuhúss, handbolta- og körfuboltahúss og fimleikahúss í samvinnu við ÍR. Þar með liggur fyrir að Breiðholtið mun geta státað af einhverri bestu íþróttaaðstöðu landsins innan fárra ára. Skipuð hefur verið byggingarnefnd undir forystu verðlaunarithöfundarins Yrsu Sigurðardóttur, sem er ekki bara góður rithöfundur heldur reyndur verkefnisstjóri og verkfræðingur. Þessi verkefni verða mikil lyftistöng fyrir hverfið. Einu áhyggjuraddirnar sem hafa heyrst varðandi þetta eru úr röðum Leiknis sem hafa sett fram þau sjónarmið að þetta gagnist síður börnum í Efra-Breiðholti og geti jafnvel grafið undan góðu starfi félagsins þar. Til að mæta þessum sjónarmiðum og tryggja að allt hverfið njóti góðs af er sérstakur hópur að störfum sem á að huga að því hvernig best sé hægt að standa að málum til að tryggja hagsmuni alls hverfisins. Menningarmálin hafa verið í góðum farvegi líka, þátttaka hjá börnunum í Breiðholti í Barnamenningarhátíð hefur vakið athygli, það er ótrúlega öflugt starf í Gerðubergi, Breiðholt Festival stækkar ár frá ári, Fab Lab vex og dafnar á nýjum stað og við sjáum almenna þátttöku íbúana í Breiðholti vera að aukast.“

Íþróttafélögin gegna mikilvægu hlutverki við að auka þátttöku

Stóra markmiðið með fjárfestingu í innviðum og stuðningi við frístundir barna er að auka þátttöku þeirra í uppbyggilegu félagsstarfi. Þar geta íþróttafélögin gengt mikilvægu hlutverki, en líka tónlistarskólar og dansskóli Brynju, svo dæmi sé tekið. Ég á ekki von á öðru en að við náum breiðri samstöðu við átak í þessum efnum, þar með talið átak í kynningu á því sem er í boði.

Barnafjölskyldur í brennidepli

Talandi um krakkana, það hefur verið mikil deigla í umræðum um skólamál að undanförnu – stendur til að bæta fjármagni í skólamálin?

„Í mínum huga var mjög tímabært og mikilvægt að geta bætt við fjármunum í skólamálin. Skólarnir voru undirfjármagnaðir, að sumu leyti var það skiljanlegt því það var sett í forgang að hækka laun starfsfólksins. Annað lykilatriði í mínum huga er að tryggja að öll börn í borginni hafi tækifæri til að stunda innihaldsríkt frístundastarf. Þess vegna höfum við verið að auka stuðning við barnafjölskyldur og frístundaþátttöku barna með hækkun frístundakortsins í 50.000 kr. Þetta er mikilvægur stuðningur því ég er sannfærður um það að reynslan og lærdómurinn sem krakkar fá út úr íþróttum, tónlist eða öðru frístundastarfi er jafn mikilvægt eða jafnvel mikilvægara en hefðbundnar námsgreinar. Við eigum bæði frábær íþróttafélög, dans- og tónlistarskóla og fjölmörg æskulýðsfélög sem gera margt framúrskarandi og flott fyrir börnin okkar. Það þekki ég af eigin reynslu sem fjögurra barna faðir.“

Nýjar ungbarnadeildir

Þið viljið fjölga leikskólaplássum og voruð að koma á fót ungbarnadeildum í borginni. Hvernig heldurðu að það muni ganga?

„Já, ég vonast til þess að þetta gangi vel. Þarna erum við að brúa bilið enn frekar milli fæðingarorlofs og leikskóla þannig að við reynum sífellt að stytta þann óvissutíma sem tekur við frá því að fæðingarorlofi sleppir, þar til barnið fer inn á leikskóla. Nú strax í haust ætlum við að opna fjórar ungbarnadeildir en endanlegt markmið er að öll börn komist inn á leikskóla um leið og fæðingarorlofi lýkur. Það þarf að taka þetta í skrefum en við munum fylgja þessu vel eftir í haust og meta árangurinn út frá því.“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri mætti til vinnu í Breiðholti í viku tíma á liðnum vetri. Tekið var á móti honum með gjöfum þar sem meðal annars var bolur merktur hverfinu. Hér má sjá borgarstjóra með starfsfólki Borgarbókasafns – menningarhúss Gerðubergi og skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

Reykjavík er góð borg til að eldast í

Ég hef líka átt framúrskarandi samstarf við eldri borgara um alla borg og Félag eldri borgara í Reykjavík. Ég vil að Reykjavík verði framúrskarandi borg til að eldast í. Nú þegar er margt gott, eins og sundlaugarnar, félagsstarfið og heimaþjónustan. Ríkið þarf hins vegar að taka sig á þegar kemur að byggingu hjúkrunarheimila og heilbrigðisþjónustu. Ég hef kallað eftir því og rekið á eftir, því þetta er lykilatriði. Ég hef líka sérstakan áhuga á að huga að því sem við kemur hreyfingu og möguleikum til hreyfingar og heilbrigði og líðan eldri borgara almennt. Þar höfum við fengið frábærar tillögur um næstu skref í heilsueflingu aldraðra frá hópi sem Ellert B. Schram fyrrverandi forseti ÍSÍ og núverandi formaður Félags eldri borgara í Reykjavík fór fyrir. Að þeirra frumkvæði lækkuðum við aldur þeirra sem fá ókeypis i sund niður í 67 ár og ætlum næsta vetur að gefa út sérstakt Menningar- og heilsukort til að kynna þetta betur, því alls ekki allir eldri borgarar í Reykjavík átta sig á því hvað mikið er í boði, endurgjaldslaust eða fyrir lágt verð. Þannig verður borgin ennþá aldursvænni borg og það er gömul saga og ný – borgir sem eru góðar fyrir eldri borgara eru góðar fyrir alla.“

Stofnbrautakerfið er sprungið

Samgöngumálin eru mikið til umræðu, umferðin þéttist og það er mikið rætt um svokallaða Borgarlínu. Hvað er á dagskrá til að leysa umferðavandann í Reykjavík?

„Já, að mínu mati er stofnvegakerfið sprungið og við sjáum að umferðin þéttist og þéttist á álagstímum. Það er mjög margt sem þarf að gera til að bregðast við þessu. Það fyrsta er að viðurkenna að við erum að fylgja umferðarskipulagi frá 1960 sem gerði alls ekki ráð fyrir svona mikilli bílaeign eða svona mikilli umferð. Á næstu tuttugu árum mun íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölga um í það minnsta 70.000. Ef við byggjum ný hverfi í útjaðri höfuðborgarsvæðisins sem erfitt er að þjóna vel með almenningssamgöngum munu þessir íbúar bætast við morgun og síðdegisumferðina. Það mun einfaldlega aldrei ganga. Þess vegna þarf að byggja nýjar íbúðir í eldri hverfum og þétta byggð. Þannig styttast vegalengdir fólks frá heimili til vinnu og það léttir á umferðinni. Valið stendur einmitt um þetta: að þétta byggð eða þétta umferðina meira.“

Reykjavík þarf Borgarlínu

Í öðru lagi þarf að fjárfesta miklu meira í samgöngukerfinu heldur en gert hefur verið. Mikilvægasta fjárfestingin og sú stærsta er Borgarlína, hágæða almenningssamgöngur, sem þurfa að verða að veruleika sem fyrst. Borgarlínan er nauðsynleg til að tafatíminn í umferðinni stóraukist ekki á komandi árum. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru sammála um mikilvægi þessa verkefnis og við munum kynna líklegt leiðaval og áfangaskiptingu á næstu vikum. Um leið er mikilvægt að halda áfram að efla strætó og gera öllum ferðamátum hátt undir höfði. Þeir sem nota bíl sem aðalferðamáta ættu að fagna öllu því sem gert er fyrir hjólandi og gangandi, svo dæmi sé tekið, því eftir því sem fleiri fara ferða sinna þannig þeim mun meira pláss er á götunum fyrir þá sem keyra,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

You may also like...