Best að búa í Breiðholti

— segir Hafdís Hansdóttir nýráðin framkvæmdastjóri ÍR —

Hafdís Hansdóttir í nýju íþróttahúsi ÍR.

Hafdís Hansdóttir nýráðin framkvæmdastjóri ÍR flutti í Breiðholtið í bernsku þar sem foreldrar hennar byggðu sér hús í Seljahverfinu. Hún gekk í Ölduselskóla og fór síðan í Versló. Hún lagði eftir það stund á félags- og kynjafræði við Háskóla Íslands og tók 1 námsár í Lancaster á Englandi. Hafdís er einnig með diploma í rekstrar- og viðskiptafræði ásamt námi í  markþjálfun. Fyrstu árin eftir háskólanám vann Hafdís hjá Félagsþjónustunni í Reykjavík en lengst af hefur hún starfað í fjármála- og tryggingageiranum. Hún var síðast framkvæmdastjóri þjónustu hjá VÍS og þar áður vann Hafdís hjá Arion banka í 18 ár m.a. sem útibússtjóri. Hafdís spjallar við Breiðholtsblaðið að þessu sinni.

„Ég segi að ég sé úr Breiðholtinu þó ég hafi verið tæplega 8 ára þegar við flytjum hingað. Líf mitt hefur lengstum verið hér í Breiðholtinu bæði sem barn og fullorðin og tel mig því Breiðhylting í húð og hár! Foreldrar mínir fengu úthlutaða lóð í Seljahverfi árið 1974 og við fluttum inn 1976. Ég skipti um skóla þó skólaárið væri meira en hálfnað, kvaddi vini mína í Álftamýraskóla og mætti í annan bekk í Ölduselsskóla í febrúar. Það var góð ákvörðun hjá foreldrum mínum að láta mig skipta strax um skóla því þá var ég búin að eignast nýja vini fyrir sumarið og í minningunni leiddist mér ekki eina mínútu á þessum árum. Við vinirnir höfðum alltaf nóg fyrir stafni í þessu nýja og spennandi hverfi.  Eftir góða og skemmtilega skólagöngu í Ölduselsskóla hefði legið beint við að fara í FB sem var tiltölulega nýr framhaldsskóli í Breiðholti en Hafdís segist verða að viðurkenna að það var annar skóli sem togaði. „Ég fór ekki i FB eins og mörg skólasystkini mín. Mig langaði í bekkjarkerfi en ekki áfangakerfi eins og er í FB. Kannski ég viðurkenni líka að ég hafði heyrt að busavígslurnar í FB væru hræðilegar en í Versló tóku eldri nemendur á móti nýliðum með kökuveislu og það hljómaði dásamlega í mín eyru” segir Hafdís og hlær. En það hefur nú allt breyst og ég fór reyndar á kynningu hjá FB fyrir nokkrum árum og var mjög hrifin af áherslum skólastjórnenda og því fjölbreytta námi sem býðst þar. Við erum heppin að hafa svona öflugan framhaldsskóla í Breiðholti. 

Urðarkettir, Fellahellir og Dansskóli Heiðars

Hafdís kveðst snemma hafa farið að taka þátt í félagslífi og farið nokkuð víða um Beiðholtið. „Ég prófaði mig áfram, fór á fundi í KFMK, prófaði örfáar íþróttaæfingar hjá ÍR sem þá voru í Breiðholtsskóla en festist svo í skátunum og skátastarfið skipaði stóran sess í æsku minni. Við vinkonurnar löbbuðum niður í Neðra Breiðholt því ég var í skátafélaginu Urðarköttum þar sem ekkert skátafélag var í Seljahverfi. Á sama tíma vorum við líka að labba upp í efra Breiðholt þar sem við vorum í dansskóla Heiðars Ástvaldssonar og þegar við höfðum aldur til byrjuðum við að fara í Fellahelli en það voru diskókvöldin sem toguðu okkur helst þangað. Síðan sóttum við þjónustu bæði í Fellagarða og í verslunarkjarnann í Arnarbakkanum, þar sem voru t.d. bókabúðir en þetta var mörgum árum áður en Mjóddin opnaði. Breiðholtið er búið að breytast mikið frá þessum tíma Fyrsta árið mitt í Ölduselsskóla tók ég t.d. rútu í skólann því það var ekki göngufært yfir móann sem er núna Seljadalurinn sem er allur út í stígum og fallegum gróðri. Húsin komu síðan upp eitt af öðru á ótrúlega skömmum tíma. Þegar ég horfi út um gluggann minnist ég þess að fólk taldi að tré myndu aldrei vaxa í Breiðholti. Til þess lægi byggðin of hátt yfir sjávarmáli. Annað hefur komið á daginn og óvíða er gróðursælla í borginni en hér og bý ég t.d. nánast inn í skógi hérna í miðju Seljahverfinu.”

Breiðholt er best geymda leyndarmálið

„Þegar ég flutti að heiman bjó ég tvö ár í Grafarvog og eitt ár í Englandi en Breiðholtið togaði aftur í mig og ég flutti reyndar aftur heim til foreldra minna þegar ég kom frá Englandi. Fór svo að heiman í annað sinn en þá bara í næstu götu! Fyrir nokkrum árum keypti ég svo hús foreldra minna og er því enn á ný komin heim aftur. Þannig að ég hef nánast alltaf búið á sama frímerkinu enda er þessi staður bara svo frábær.  Breiðholtið er í raun svo miðsvæðis. Náttúruperlan í Elliðaárdalnum er við hliðina á okkur, stutt er yfir í Smáralindina og stutt í austurleiðina út úr bænum svo eitthvað sé nefnt. Mjóddin hefur líka upp á margt að bjóða og eftir að ég byrjaði að vinna í ÍR þá koma dagar þar sem ég fer varla út úr Breiðholtinu. Mér finnst Breiðholtið frábært, fjölbreytt byggð, bæði róleg svæði en einnig iðandi mannlíf. Ég held að Breiðholt sé best geymda leyndarmálið í Reykjavík.”

Komin aftur á upphafsreitinn

Þótt Hafdís hafi í fyrstu starfað við félagsþjónustu lá leið hennar í önnur og óskyld efni. Hún haslaði sér völl í fjármálageiranum þaðan sem hún var að koma til ÍR. Hvað kom til að hún skipti um vettvang. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á fólki og mannlegum samskiptum. Ég hafði unnið í nokkur ár hjá félagsþjónustunni í Reykjavík og vann um tíma sem jafnréttisráðgjafi Kópavogsbæjar en var á sama tíma að læra rekstrar- og viðskiptafræði í Endurmenntun Háskóla Íslands og kynntist þar mönnum sem sannfærðu mig um að koma og vinna hjá gamla Búnaðarbankanum. Upphaflega ætlaði ég að starfa þar í eitt ár til að ná mér í reynslu en það hvarlaði ekki að mér að banka­störf væru fyrir mig. En fjármála­heimurinn kom mér skemmtilega á óvart og sýndi mér að það er í raun sama í hvaða atvinnugeira við störfum, þegar öllu er á botninn hvolft snýst allt um mannleg samskipti. Í bankanum var ég í 18 frábær ár. Þar fór ég í gegnum allar þær breytingar sem urðu. Allt frá Búnaðarbankanum yfir í KB banka, Kaupþing og Arion banka. Eitt af síðustu störfunum mínum í bankanum var starf útibússtjóra. Það starf er mjög fjölbreytt og reynir bæði á allt það sem við kemur rekstri ásamt mannauðsmálum og þjónustu við viðskiptavini. Í stjórnunarstörfum hefur alltaf staðið hjarta mér næst það sem snýr að mannauðsmálum og þjónustu. Eftir árin 18 hjá Arionbanka starfaði ég í nokkur ár hjá VÍS sem framkvæmda­stjóri þjónustu og það var viðburðaríkur og skemmtilegur tími. Eftir tæp 25 ár í fjármála- og tryggingaheiminum þá var alveg kominn tími á breytingu. Mér finnst ég vera komin svoldið aftur í uppruna minn, ef ég get sagt sem svo, með því að vera farin að vinna hjá íþróttafélagi því íþróttastarf  skipar svo stóran sess í hverju samfélagi og höfðar því sterkt til félagsfræðingsins í mér. Það er fjölbreytt starf að vera framkvæmdastjóri hjá íþróttafélagi og í ótal mörg horn að líta hvort sem það snýr að rekstrinum, íþróttaiðkun, samstarfsaðilum eða öðru. ÍR hefur stóru samfélagslegu hlutverki að gegna í Breiðholti og er mikilvægt að vera í góðu sambandi við iðkendur á öllum aldri, foreldra, stofnanir í hverfinu og borgaryfirvöld svo eitthvað sé nefnt. ÍR á stóran þátt í því að það er eftirsóknavert að búa í Breiðholti, það geta fá íþróttafélög státað af jafn fjölbreyttri starfsemi og góðri íþróttaaðstöðu eins og ÍR.  

Nýr og glæsilegur frjálsíþróttavöllur ÍR við Skógarsel.

ÍR stór hluti af Breiðholtinu

„Þess vegna sótti ég um þetta starf,“ heldur Hafdís áfram. „Ekki vegna þess að ég hafi brennandi áhuga á íþróttum heldur fyrst og fremst vegna þess að ég er Breiðhyltingur og hugsaði með mér að það væri gaman að vinna fyrir hverfið sitt. Mig langaði að vinna fyrir ÍR og Breiðhyltinga þótt ég eigi enga sögu að baki um að hafa æft með félaginu.“ Hafdís segir ÍR vera stóran hluta af Breiðholti. „Með þeirri miklu uppbyggingu mannvirkja sem nú er orðin að veruleika hefur aðstaða ÍR-inga tekið stakkaskiptum. Hún nefnir nýja frjálsíþróttavöllinn, knatthúsið og parkethúsið. Segir að með þessari aðstöðu sé ÍR komið í hóp þeirra félaga sem hvað best er að búið. „Mér hefur fundist einkar ánægjulegt eftir að ég byrjaði hérna að eiga samtöl við eldri ÍRinga, fólk sem er nú á miðjum aldri og æfði áður með ÍR og er nú að fagna því að sjá ÍR hjartað komið saman á þennan stað.“ Hafdís benti á að áður hafi starfið verið dreift. Fótboltinn á ÍR svæðinu sem hafi raunverulega nánast bara verið fótboltasvæði. Handboltinn hafi verið í Austurbergi, karfan í íþróttahúsi Seljaskóla og frjálsar í Laugardal svo eitthvað sé nefnt. „Nú eru lang flestar íþróttagreinar með stærsta hlutann af iðkun sinni á ÍR svæðinu í Skógarseli. En í stóru félagi með 10 íþróttagreinum þá erum við enn að nýta aðstöðu víðar í bænum og má t.d. nefna fimleikana sem sárvantar fimleikahús fyrir þessa vinsælu og vaxandi íþróttagrein á Íslandi. En almennt séð þá er uppbyggingin í Skógarselinu að skapa þéttari félagsanda þar sem iðkendur úr óskildum greinum eru að hittast í stað þess að fara á sinn hvorn staðinn og gerir iðkendum kleift að kynna sér og iðka fleiri íþróttir. Það gæti aukið líkurnar að barn finni sig í íþróttum þegar það getur t.d. prófað karate, júdó og Taekwondo í einu húsi og handbolta og körfubolta í húsi sem er 20 skrefum frá en ekki bílferð í burtu. “ Hafdís segir að þótt biðin eftir íþróttamannvirkjum ÍR hafi verið löng megi segja að góðir hlutir gerist hægt. Það eigi við í þessu tilviki. „Þetta kom á endanum og svo höldum við áfram að vinna með borginni að enn frekri uppbyggingu. Ég held að krakkarnir sem eru ungir í dag og eru að hefja þátttöku í íþróttastarfi eigi eftir að sjá miklar breytingar á komandi tímum því íþróttaiðkun í Breiðholti er mikil.“

Keilan er fyrir alla

Hafdís bendir á keiludeildina ÍR sem dæmi um aðra grein sem ekki hefur aðstöðu á ÍR svæðinu. „Keiludeildin er að æfa í Egilshöll. Ekki í nánd við ÍR svæðið. En það stendur til bóta. Þessi deild er að vaxa mjög hratt og það sem er svo skemmtilegt við þessa íþrótt er að hún höfðar til iðkenda á öllum aldri. Það er mjög ánægjulegt að vera með íþrótt sem höfðar til breiðs hóps. Hluti af okkar starfi er að leggja áherslu á almenningsíþróttir og aukna lýðheilsu og því er svo mikilvægt að geta verið með þessa fjölbreytni. En til að keiludeildin geti haldið áfram að vaxa og tekið á móti iðkendum þarf aðstöðu og vonandi verður ekki langt í að keiluaðstaða rísi við Skógarselið. 

Félagsþjónustan og ÍR fara vel saman

Hafdís rifjar upp árin hjá félags­þjónustunni í Reykjavík. „Ég vann þar í okkur ár áður en ég fór yfir í fjármálageirann og ber sterkar taugar til alls sem snýr að félagslegri þjónustu við borgarbúa. Eitt fyrsta skrefið mitt í núverandi starfi var að kynnast þjónustunni í hverfinu. Ég fór og hitti Óskar Dýrmund framkvæmdastjóra hverfis­miðstöðvar Breiðholts og hann kom mér í samband við Þráinn Hafsteinsson og Jóhannes Guðlaugsson sem eru með lýðheilsu­málin á sinni könnu og hafa lyft grettistaki í aukinni íþróttaiðkun barna í Breiðholti. Saman geta allir aðilar sem sinna þjónustu við Breiðholtsbúa – og ekki síst Breiðholts­búar sjálfir,  tekið höndum saman og gert Betra Breiðholt enn betra. Það er sagt að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn og ég segi að það þurfi heilt nærsamfélag til að halda uppi íþróttastarfi. Ég vona að á tíma mínum í þessu starfi eigi ég eftir að sjá foreldra í Breiðholti halda áfram að standa þétt við bakið á börnum sínum í íþróttum og vera öflugir þátttakendur í því sjálfboða­liðastarfi sem þarf til að við getum haldið úti góðu íþróttastarfi.”

Hátt er til lofts og vítt til veggja í nýju fjölnotaíþróttahúsi ÍR.

You may also like...