Kamp Knox

– smánarblettur eða söguleg nauðsyn –

Á góðviðrisdegi í Vesturbænum.

Eftir heimsstyrjöldina 1939 til 1945 stóðu borgar­yfirvöld í Reykjavík frammi fyrir miklum húsnæðisvanda. Fólki fjölgað ört af náttúru­legum orsökum og fjöldi fólks flutti til borgarinnar af lands­byggðinni í von um betra líf. Uppbygging húsnæðis hafði verið hæg og ekki gert ráð fyrir þeim fólksflutningum sem hafinn var í landinu þótt hann hafi verið augljós um nokkurt skeið. Borgaryfirvöld höfðu fá ráð til að taka við þessu fólki. Eitt neyðarráð kom þó upp í hendurnar á þeim við lok styrjaldarinnar og var óspart notað.

Á styrjaldarárunum byggðu Bretar og einkum Bandaríkjamenn mikinn fjölda hermannaskála eða bragga víðs vegar um landið til að hýsa þann mikla fjölda hermanna sem hingað kom á stríðsárunum. Þessir skálar mynduðu oftast þyrpingar eða hverfi sem kölluð voru kampar sem dregið er af enska orðinu camps. Í Reykjavík voru reist um 80 braggahverfi með hátt í sex þúsund bröggum. Stærsti bragga kampurinn í Reykjavík var í Vesturbænum. Kallaðist Kamp Knox og stóð á svæðinu milli Kaplaskjólsvegar og Hofsvallagötu þar sem Hagamelur og Grenimelur eru í dag. Kampurinn var fyrst og fremst svefnstaður hermanna en nokkur þjónusta varð til í kringum þessa byggð. Má þar nefna kvikmyndahús, þvottahús, keilusal, rakarastofu auk annarrar þjónustu. Höfuðstöðvar bandaríska setuliðsins voru staðsettar í Camp Knox á stríðsárunum.

2300 íbúar í 543 bröggum

Við stríðslok 1945 hurfu hermennirnir á braut og braggarnir stóðu auðir eftir. Í húsnæðisneyð sem borgaryfirvöld áttu engin svör við gripu þau til þess ráðs að kaupa bragga af Bandaríkjamönnum til að leigja efnalitlu fólki. Árið 1947 keyptu borgaryfirvöld Camp Knox fyrir 415 þúsund krónur. Í fyrstu var litið á þetta sem skammtímalausn á ört vaxandi húsnæðisvanda en raunin varð allt önnur. Braggalausnin varð mun lífseigari en til stóð. Í september 1944 bjuggu um 800 Reykvíkingar í bröggum og rúmum áratug síðar eða árið 1955 bjuggu 2300 bæjarbúar í 543 bröggum. Taldi Camp Knox þá 165 skála, stóra og smáa. Að geta fengið inni í bragga var skárra en ekkert. Braggarnir í Camp Knox voru notaðir undir leiguhúsnæði allt til ársins 1966 eða í nær tvo áratugi.

Börn að leik í Kamp Knox á sjöunda áratugnum skömmu áður en að kampurinn var rifinn. Mynd: Rúnar Gunnarsson.

Burðarbitar steyptir í tunnu 

Braggarnir voru byggðir á grind úr hálfhringlaga burðarbitum úr járni sem oftast voru steyptir ofan í tunnu eða bensínbrúsa sem bárujárn var síðan fest á. Oft var steypt gólf í skálunum en einnig var algengt að þeir væru með timburgólfi. Braggarnir voru illa einangraðir og því oft bæði rakir og kaldir. Utan frá séð litu braggarnir út eins og hálfar tunnur úr bárujárni með hurð og tveimur gluggum á öðrum gaflinum, stundum með bíslagi fyrir forstofu.

Ruslahaugar og skólp í opnum skurðum

Umhverfið var ekki til fyrirmyndar. Samfelldir moldar- og ruslahaugar umluktu braggana á stórum svæðum. Til að byrja með fór allt skólp í opna skurði sem voru fullir af for. Úr því var þó bætt sumarið 1947 eftir að margar kvartanir höfðu borist frá íbúum við Kaplaskjólsveg um óþrifnað í sambandi við umgengni og frárennsli frá Camp Knox. Heilbrigðislögreglan athugað ástandið og komst að því að kvartanirnar voru á rökum reistar. Skólpleiðsla sú er setuliðið hafði lagt frá hverfinu á sínum tíma var ónýt eða að minnsta kosti svo léleg að hún flutti ekki skólpið. Einn aðal skurðurinn lá fram með veginum heim að barnaheimilinu Grund og var ástandið talið hættulegt umferð barnanna. Dýpt forarinnar var allt upp í yfir hálfan metra í skurðinum. Þetta var hinn mesti viðbjóður og sóðaskapur sem sést hafði í höfuðborginni. Margoft var haft samband við verkstjóra bæjarins og skrifstofu bæjarverkfræðings en þessir aðilar treystu sér ekki að bæta úr ástandinu.

Þann 16. desember 1950 fór fram verðlaunaafhending í jólakeppni í keilu í Bowlingskálanum í Kamp Knox í Reykjavík. Jóhann Eyjólfsson sem sigraði keppnina er trúlega til hægri á myndinni. Mynd: Ragnar Vignir.

Málið til borgarstjóra

Barnavinafélagið Sumargjöf sem rak barnaheimilið Grund sendi bæjarverkfræðingi harðort bréf yfir ástandinu. Í lok árs 1947 var samþykkt í bæjarstjórn Reykjavíkur að fela borgarstjóra að hlutast til um að braggahverfunum væri séð fyrir nauðsynlegum tækjum til þrifnaðar, meðal annars að skolpræsi væru þar í lagi. Borgarstjóri vísaði málinu áfram til heilbrigðisnefndar sem ákvað að rannsaka ástandið í herskálahverfunum á grundvelli fyrrgreindrar tillögu. Ágúst Jósefsson heilbrigðisfulltrúi framkvæmdi rannsóknina á útmánuðum 1948 með því að heimsækja allar íbúðir í bröggum, samtals 380 að tölu. Af þeim höfðu 189 vatnsleiðslu inn í íbúðina, 207 höfðu skólpleiðslu en vatnssalerni voru í 117 bragga íbúðum. Við útikamra við bragganna voru aðstæður mjög óþrifalegar. Ágúst sagði eftir þessa yfirferð að vatns- og skólpleiðslukerfum í herskálahverfum væri svo ábótavant að brýn nauðsyn bæri til útbóta.

Rottur og heimilisofbeldi 

Flóra mannlífsins hófst við í braggahverfunum og þá ekki síst Kamp Knox. Þótt upphaf þeirra mætti að miklu leyti rekja til fólksflutninga af landsbyggðinni til Reykjavíkur var það síður en svo eingöngu fyrrum sveitafólk sem festi búsetu þar. Húsnæðisvandræðin voru slík að margir innfæddir Reykvíkingar áttu ekki í önnur hús að venda. Sveinn Þormóðsson ljósmyndari var einn þeirra sem þurfti að setjast að í bragga með fjölskyldu sinni. Hann bjó fyrst á Skólavörðuholtinu en þegar braggahverfið þar var rifið fékk fjölskyldan inni í bragga í Kamp Knox. Sveinn sagði frá því í blaðaviðtali á sínum tíma að nýi bústaðurinn hafi verið miklu betur innréttaður en bragginn á Skólavörðuholtinu. Einn galli hafi þó verið á gjöf Njarðar. Rottur höfðust við á milli þilja „Þegar fór að hausta heyrðum við voðaleg læti, skrens og tíst. Þá voru stórar rottur á milli klæðningarinnar og járnsins. Gauragangurinn var voðalegur en þær komu ekki inn til okkar. Ég setti upp völundarbúr fyrir þær og egndi fyrir þær með haframjöli. Þegar við komum aftur eftir að hafa verið aðeins í burtu var búrið fullt af rottum og margar þeirra hlupu í burtu þegar ég kom inn. Ég hafði varla kjark til þess að drepa þær,“ sagði Sveinn í viðtalinu. Hann sagði að talsvert hafi verið um óreglu í bröggunum og háreysti og rifrildi af þeim sökum. Heimilisofbeldi hafi verið algengt og kvaðst hann oft hafa þurft að bjarga konum sem öskruðu á hjálp. „Ég gat ekki látið það ógert að skipta mér af því,“ sagði Sveinn. Hann sagði að ef konurnar voru ósáttar hefðu þær skvett úr skúringafötunum hjá nágrönnum sínum eða mokað möl og drasli yfir eigur þeirra. Skapsmunir hafi stundum ráðið för og aðstæður eflaust ýtt undir að þeim væri beitt. Hann sagði að sín börn hafi aldrei orðið fyrir aðkasti í skólanum þrátt fyrir að þau byggju í bragga. „Ég var alltaf svo bjartsýnn og trúði því að allt gengi vel. Ég varð ekki var við að litið væri niður á okkur þegar við bjuggum í bröggunum. Sumt fólkið sem bjó þar var kærulaust en innan um var ágætis fólk.“

Ýmis kofaskrifli voru á milli sumra bragganna í Kamp Knox.

Engin einangrun, saggalykt og fúkki 

Í bókinni Úr sól og eldi leiðinni frá Kamp Knox eftir Oddnýju Sen segir Ragna Bachman frá uppvexti sínum í hverfinu. „Kamp Knox var kynlegur spegill af veröldinni. Ég var ákaflega forvitin um nágranna mína í kampinum og ég man enn þann dag í dag eftir þeirri sérstöku lykt sem var af fólkinu í kringum mig. Það var sagt að braggabúar þekktust á lyktinni einni saman. Ástæðan var sú að það var engin einangrun í veggjum bragganna, þeir voru flestir þiljaðir með spónaplötum. Þegar kynnt var inni myndaðist því raki og fúkkalyktin settist í hár og klæðnað íbúanna. Lyktin hvarf ekki þótt gert væri hreint á hverjum degi. Hins vegar voru sumir braggar í Kamp Knox auðþekktir af daunillum fnyk. Þá blandaðist fúkkalyktin vínlykt og skólplykt. Venjulega var mikil óreiða í kringum slíka bragga og ég lærði fljótlega að forðast fólkið sem þar bjó. Einu sinni þegar ég var á ferð með leiksystrum mínum á braggasvæðinu tókum við eftir einkennilegri lykt úr einum bragganum. Við kíktum inn um gluggann og þar lá íbúinn látinn. Nokkru síðar var komin lögregla, sjúkrabíll og útfararstjóri. Maðurinn hafði legið þarna í eina þrjá daga. Þetta atvik hafði engin sérstök tilfinningaleg áhrif á mig, fyrir mér var þetta ósköp hversdagslegt. Á fullorðinsárum hafa viðbrögð mín við þessum atburði og öðrum sambærilegum vakið mig til umhugsunar um raunveruleg áhrif uppvaxtarskilyrða á fólk. Einn af mínum eftirlætis stöðum í kampinum var þvottahúsið sem var í stöðugri notkun. Mér fannst afskaplega gaman að dunda mér þar og fylgjast með. Þar var stór þvottavél á hjólum og áður en hún var sett í gang var vatnið hitað í sérstöku hitatæki. Síðan var þvotturinn settur í skolkör úr tré sem voru spengd saman með járnhring, svo var hann undinn í sérstakri vindu. Lyktin var alltaf góð í þvottahúsinu. Ein kvennanna í kampinum, sex barna móðir, tók að sér að þvo fyrir alla íbúana og lifði á því. Hún var auk þess spákona og spáði í bolla fyrir konunum. Mér þótti hún afskaplega sérkennileg í útliti en hún var með sterkustu fjarsýnisgleraugu sem ég hef séð. Augun virtust svo ofboðslega stór að mér sýndust þau ná út að gleraugnaspönginni. Ég botnaði ekkert í því hvernig hún gat gifst og eignast öll þessi börn með önnur eins gleraugu. Hún reykti mikið og mér er minnisstætt að í stað þess að slá öskunni í bakka sló hún henni upp í sig og sagðist vera að ná sér í steinefni fyrir barnið sem hún gekk með.“

Braggahverfin leystu tímabundinn vanda 

Einn núlifandi manna sem ólst upp í Kamp Knox er Helgi Vilhjálmsson athafnamaður kenndur við Góu. Helgi ræddi um líf sitt og störf við Vesturbæjarblaðið á liðnu hausti. Þar sagði hann meðal annars frá uppvexti sínum í Kamp Knox í Vesturbænum og dró ekkert undan. Þegar hann hafi sest niður með tíðindamanni í fundarherbergi Góu dró hann ramma undan hendinni og vildi sýna komumanni. Í rammanum var mynd af braggahverfinu þar sem hann ólst upp fyrir sjö áratugum. Hann vildi sýna komumanni æskustöðvarnar og birta mynd af þeim. Helgi var raunsær og sagði meðal annars að braggahverfin hefðu leyst tímabundinn vanda í sögu þjóðarinnar. Vanda sem ekki var séð fyrir hvernig annars hefði verið leystur.

Frárennslismálin voru í miklum ólestri í Kamp Knox.

Margvíslegir kvistir

Margvíslega kvisti mátti finna í Kamp Knox. Fólk af ýmsum gerðum. Kröftugt og dugmikið fólk sem beið eftir að geta fundið sér betra húsnæði og einnig aðra sem tileinkað höfðu sér óstöðugan lífsstíl og áttu ef til vill ekki borð fyrir báru að skapa sér betri framtíð. Þó fór fjarri að það væru einkum afgangar þjóðfélagsins sem bjuggu þar. Um tíma dvöldu þekktir einstaklingar í Kamp Knox, listamenn og fleiri sem getið höfðu sér orðs og æðis fyrir hæfileika á ýmsum sviðum. Má þar nefna Þorvald Skúlason listmálara, Stein Steinarr skáld, Gunnar Huseby Evrópumeistara í kúluvarpi og Ástu Sigurðardóttir, skáld og listamann sem öll bjuggu þar um tíma. Þar mun Ásta hafa kynnst Þorsteini frá Hamri skáldi en þau voru par um árabil og eignuðust nokkur börn saman. Þá má geta þess að heimkynni hálfgerðra þjóðsagnapersóna, Jósefínu í Nauthól, Halldórs fisksala og Bóbó á Holtinu voru skammt undan og fólki sem þeim fylgdi og hefur áður verið fjallað um í Vesturbæjarblaðinu.

Smánarblettur eða söguleg nauðsyn 

Margir litu á braggahverfin, ekki síst Kamp Knox, sem smánarblett á höfuðstaðnum. Því var fagnað þegar braggarnir voru rifnir og hreinleg byggð íbúðarhúsa reis í staðinn. Reykjavíkurborg stóð meðal annars fyrir  byggingum í Bústaðahverfinu þangað sem Sveinn Þormóðsson flutti og einnig byggingu tveggja íbúðablokka við Meistaravelli örskammt frá gamla braggahverfinu. Eldra fólk man hvar Kamp Knox var í Vesturbænum. Hverfið átti sitt líf á árunum frá 1945 til 1965 eða um tveggja áratuga skeið. Enginn sá eftir því þegar það hvarf. Hvorki íbúar sem flestir fengu betra húsnæði og einnig borgarbúar sem margir skömmuðust sín fyrir að láta þessa búsetuhætti viðgangast svo lengi sem raun ber vitni. Eftir stendur spurningin um hvort braggahverfin hafi verið smánarblettur á Reykjavíkurborg eða söguleg nauðsyn í þróun þjóðfélags á Íslandi.

Helgi Vilhjálmsson í Góu var ekkert að draga undan þegar hann sýndi tíðindamanni Vesturbæjarblaðsins æskustöðvar sínar.

You may also like...