Lagfæringar á húsnæði bókasafnsins taka um sex vikur
Seltjarnarnesbær endurnýjar samning við Reiti.
Í byrjun maí undirritaði bæjarstjóri Seltjarnarness, Ásgerður Halldórsdóttir, nýjan samning við Reiti vegna leigu á húsnæði Bókasafns Seltjarnarness á Eiðistorgi og tekur hann við af núgildandi samningi sem gilti til apríl 2018. Nýi samningurinn gildir í fimmtán ár eða til ársins 2032 og svipar að mörgu leyti til hins fyrra. Umsamið leiguverð helst óbreytt og fylgir vísitölu neysluverðs.
Í samningnum er kveðið á um að Reitir taki að sér endurbætur á húsnæðinu innandyra sem felur m.a. í sér endurnýjun gólfefna og lagfæringa á lofti. Þýðingarmesta framkvæmdin felst þó í aðgreiningu á rýmum Bókasafnsins og Hagkaupa, en lokað verður á milli hæðanna með berandi lofti til að takmarka hljóðleka sem berst frá Hagkaupum upp í Bókasafnið. Framkvæmdin felur í sér að sett verður upp hurð á jarðhæðinni þar sem gengið verður upp í safnið. Breytingarnar krefjast mikils rasks á starfsemi safnsins og því verður það lokað frá 26. júní til 8. ágúst. Safngestum er vinsamlega bent á þjónustu útibúa Borgarbókasafnsins og Bókasafns Mosfellsbæjar þar sem bókasafnssafnkortið fyrir Seltjarnarnes gildir einnig. Viðskiptamenn safnsins eru hvattir til að viða að sér útlánsefni áður en safninu verður lokað. Af þessum sökum verður útlánstími bóka, sem fengnar eru að láni frá og með 15. maí, lengdur til samræmis við lokunina. Bókasafnið opnar að nýju þriðjudaginn 8. ágúst. Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem lokunin kann að hafa í för með sér.