Hvatningarverðlaun afhent
Ungmennaráð Breiðholts og frístundamiðstöðin Miðberg hlutu hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs fyrir framsækið frístundastarf 12. maí síðastliðinn. Verðlaunin hlaut ráðið fyrir fjármálafræðslu fyrir unglinga í Breiðholti.
Fjármálafræðslan er jafningjafræðsla þar sem fjármál eru útskýrð á einfaldan og skemmtilegan hátt með leikjum, glærum, umræðum og spurningakeppni. Fræðslan er þátttakendum að kostnaðarlausu og hefur verið haldin í félagsmiðstöðvum og grunnskólum Breiðholts. Í umsögn dómnefndar segir m.a. „Verkefnið er dæmi um fyrirmyndar unglingalýðræði þar sem unglingar bregðast við þörf og skapa vettvang til að vinna að málum sem á þeim brenna. Þarna er um valdeflingu unglinga að ræða, sem er öðrum hvatning og fyrirmynd.“ Birgitta Rut, Elínborg Una og Hildur María tóku við verðlaununum fyrir hönd ungmennaráðs Breiðholts ásamt Kára Sigurðssyni og Sif Ómarsdóttur umsjónarmönnum ráðsins.