Tvær fegrunarviðurkenningar í Vesturbæinn

Brekkustígur 5A.

Tvær fegrunarviðurkenningar Reykjavíkurborgar féllu til Vesturbæjarins að þessu sinni en alls voru veitar fimm viðurkenningar fyrir hús, lóðir og sumargötur. Viðurkenningar fengu Brekkustígur 5A og Blómvallagata 2.

Brekkustígur 5A er steinbær sem er sér reykvísk húsagerð sem varð til eftir byggingu Alþingishússins árið 1880 en með því urðu tímamót í byggingu steinhúsa þar sem Íslendingar lærðu þá iðn að höggva til grjót. Húsið stendur á baklóð við götuna og var byggt byggð árið 1880. Bærinn hefur frá upphafi verið nefndur Garðbær og var upphaflega byggður úr grjóti en með timburgafli. Viðgerð á Garðbæ hefur staðið yfir í nokkur ár og hefur Húsverndarsjóður Reykjavíkur veitt styrki til verkefnisins. Blómvallagata 2 er íbúðarhús í fúnkísstíl, steinsteypt og steinað að utanverðu. Það var reist árið 1936 eftir teikningu arkitektanna Einars Sveinssonar og Sigmundar Halldórssonar og hét þá Hávallagata 19. Fyrstu eigendur hússins voru Haraldur Ágústsson kaupmaður og kona hans Steinunn Helgadóttir sem byggðu það í samstarfi við Byggingarsamvinnufélagið Félagsgarð sem var eitt þeirra byggingarsamvinnufélaga sem stofnuð voru eftir setningu laga um byggingarsamvinnufélög árið 1932. Endurbætur á húsinu hafa tekist vel, steiningin er falleg og viðgerð á garðveggnum hin faglegasta.

Blómvallagata 2.

You may also like...