Hvetur til að láta vita af ferðum grunsamlegra ökutækja
Góð samvinna er milli bæjarins og lögreglunnar um löggæslumál, en lögreglustjóri Sigríður Björk Guðjónsdóttir hefur lagt ríka áherslu á samstarf og samvinnu við bæjarfélög. Á fundinum voru kynntar tölulegar upplýsingar um afbrot, hraðakstur o.fl. sem tengist Seltjarnarnesi.
Einnig var upplýst að öryggismyndavélar bæjarins við bæjarmörkin hafi margoft komið að góðu gagni við rannsókn mála. Þá var sagt frá því að lögreglan keyri reglulega um Nesið á ómerktum bílum, auk fastra ferða á merktum bílum.
Fjöldi ábendinga komu fram á fundinum og góðar umræður urðu um tölulegar upplýsingar sem kynntar voru. Það er gott að geta sagt frá því að allar tölur sýna að ástand mála er mjög gott hjá okkur, miðað við önnur bæjarfélög á höfuðborgarsvæðinu.
Alltaf er þó hægt að gera betur, og því hvet ég íbúa til þess að gefa því sérstaklega gaum ef það verður vart við ferðir ókunnugra, eða grunsamlegar ferðir ökutækja. Við þær aðstæður hvatti lögreglan fólk að senda inn ábendingar.
Lögreglan hvetur íbúa til þess að láta vita ef það verður vart við eitthvað grunsamlegt, með því að senda skilaboð á Facebooksíðu lögreglunnar. (www.facebook.com/logreglan eða með tölvupósti abendingar@lrh.is)
Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri.