Dúxaði í FB og ætlar í lyfjafræði í haust

Dagmar Ísleifsdóttir með viðurkenningar á útskriftardaginn.

Dagmar Ísleifsdóttir dúxaði á stúdentsprófi í FB á dögunum og hyggst hefja nám í lyfjafræði á komandi hausti. „Ég hef alltaf haft áhuga á að skoða og rannsaka og valdi því náttúrufræðibrautina. Tilraunaglös og smásjá fæla mig ekkert og ég hugsaði um hvort ég ætti að velja lyfja- eða læknisfræði. Lyfjafræðin er orðin fyrir valinu svo verður maður bara að sjá til hvort hún leiðir til frekara náms á öðrum sviðum,“ segir Dagmar.

Dagmar hóf framhaldsnám í MS en segir að sér hafi ekki líkað bekkjakerfið nægilega vel. „Mér fannst það einum of líkt grunnskólanum. Ég vildi hafa meira frelsi svo ég skipti yfir í FB sem er líka í næsta nágrenni við heimili okkar. Mér fannst mun auðveldara að líta á mig eins og fullorðinn einstakling í áfangakerfinu. Þar getur maður ráðið sér svo mikið sjálfur.“ Dagmar er innfæddur Breiðhyltingur yngst fimm systkina úr fjölmennri stórfjölskyldu. „Foreldrar mínir koma bæði úr stórum fjölskyldum og því hefur alltaf verið mikið líf í kringum okkar. Ég held að það hafi verið um 60 manns í útskriftinni minni. Þetta eru líka nokkur tímamót í lífi fjölskyldunnar vegna þess að ég er fyrst systkina minna til þess að ljúka stúdentsprófi þótt ég sé yngst.“

Krakkar mættu vera meira úti

En hvernig er að hafa alist upp í Breiðholtinu. Ég hef alltaf búið í Hólunum og Hólabrekkuskóli er við hliðina á okkur. Það var ekki langt að fara í skólann og maður átti fullt af félögum. Það sem mér finnst eftirminnilegast frá bernskuárunum er hvað krakkarnir fóru mikið út að leika sér. Á sumrin fóru margir krakkar út eftir kvöldmat og komu ekki inn fyrr en til þess að fara að sofa. Þótt ég sé ekki eldri þá hefur orðið mikil breyting á þessu. Krakkar fara mun minna út til að leika sér. Þau halda sig meira inni föst við tölvurnar og iPodana og hafa samskipti í gegnum þá tækni. Þótt hún hafi margar jákvæðar hliðar þá held ég að þetta sé ekki nógu gott. Eðlileg mannleg samskipti geta verið í hættu. Ég hafði aðgang að tölvu sem krakki en var ekki með neina fíkn. Ég var líka í dansi – var í ballett og það var líka til þess að dreifa huganum.“

Fannst stundum talað niður til FB

Fannstu mun á MS og FB. „Já – fyrir utan muninn á bekkja- og áfangakerfinu þá fannst mér talað svolítið niður til FB og krakka sem komu úr Breiðholtinu. Þetta er eflaust arfur frá fyrri tímum en mér fannst þetta einkum gert í gríni. Það var ef til vill ekki svo mikil meining á bak við það. En það var svolítið af villingum hér á árum áður og sögurnar ganga á milli kynslóða. Þetta aftraði mér ekki frá því að flytja mig yfir í FB enda innfædd og uppalin í næsta nágrenni við skólann.“ Dagmar segir að fólki sem hefir alist upp í Breiðholti þyki yfirleitt vænt um hverfið sitt. „Það er alla vega mín tilfinning eftir skólagöngu mína í grunn- og framhaldsskóla.“

Mikið gert fyrir nemendur af erlendum uppruna

FB er þekktur fyrir fjölþjóðleika – að nemendur af mörgum þjóð-ernum stundi nám þar. „Já – maður kynntist krökkur af ýmsum þjóðernum. Það er líka gert mikið fyrir krakka af erlendum uppruna í FB. Skólinn leggur mikið upp úr góðri þjónustu á öllum sviðum og ein þeirra er stuðningur við fólk sem hefur flutt hingað til landa. Þetta blandast saman við gott andrúmsloft í skólanum og góða kennara. Það eru bæði ytri og innri aðstæður sem skipta máli.“

Ekki að flytja að heiman

„Nei – ég er ekki að yfirgefa Breiðholtið þótt ég skipti um skóla og fari í háskólanám. Ég er ekki að fara að flytja að heiman. Eigum við ekki að segja að „hótel mamma“ sé best. Ég held að ungt fólk fari seinna að heiman en var á tíma. Mikill húsnæðiskostnaður á sinn þátt í því. Það er erfitt að koma sér fyrir annarsstaðar. Leiga er há og ungt fólk fjárfestir ekki í húsnæði af námslánum. En ég ætlað ótrauð áfram. Það er farið að aukast að stelpur fari í raungreinar. Í lyfjafræðina alla vega til að byrja með. Svo verður maður bara að sjá til.“

You may also like...