Fjölmenni á jólamarkaði Tjarnarinnar

Mikil gleði ríkti á meðal barnanna á jólamarkaði Tjarnarinnar.
Mynd: James Weston.

Frístundamiðstöðin Tjörnin var vinsæll áfangastaður hjá fjölskyldum í Vesturbæ, Miðborg og Hlíðum milli klukkan 16 og 18 sl. fimmtudag þegar börnin í frístundaheimilum Tjarnarinnar héldu jólamarkað til styrktar barnaþorpum SOS. Börnin hafa undanfarna daga lagt hart að sér við að búa til ýmiss konar jólalegan varning sem þau selja vinum og vandamönnum á jólamarkaði fjölskyldunnar. Auk markaðarins ráku starfsmenn kaffihús í Tjörninni þar sem íbúar hverfisins gátu sest niður og jólað sig í gang með jólalegum veitingum í góðum félagsskap.

Allur ágóði af sölunni rennur óskiptur til barnaþorpa SOS en börnin í hverju frístundaheimili eru að gerast „styrktarsystkini“ barns í barnaþorpi SOS og fá að fylgjast með því hvernig því vegnar í gegnum reglulega mynda- og bréfasendingar, en einnig geta börnin í frístundaheimilinu sent „styrktarsystkini“ sínu fréttir frá daglegu starfi þeirra og þannig myndað samskipta brú við barn sem er háð því að fá aðstoð frá betur settur þjóðum til að búa við mannsæmandi lífsskilyrði. Með jólamarkaðinum eru börnin í frístundaheimilum Tjarnarinnar að leggja sitt af mörkum við að bæta lífskjör barna sem búa ekki við jafn góðar aðstæður og þau sjálf og hafa þannig áhrif til góðs fyrir önnur börn. Börnin sem eru ekki nema 6 til 9 ára leggja á sig heilmikla og óeigingjarna vinnu við að bæta líf annarra með markaðinum eiga hrós skilið fyrir sitt framlag og því megi veita eftirtekt á sem flestum sviðum.

You may also like...