Bensínstöðvum á að fækka um þriðjung

Ásta Kristín Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, Eggert Þór Kristófersson forstjóri N1 og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri við undirritun samnings um fækkun bensínstöðva.

Bensínstöðvum í Reykjavíkurborg á að fækka um þriðjung á næstu árum. Gert er ráð fyrir að þeim fækki úr 45 í 30 samkvæmt samkomulagi um þessar fyrirætlanir sem hefur verið undirritað. Reykjavík á trúlega heimsmet í fjölda bensínstöðva miðað við íbúafjölda. Fyrir tveimur árum gerði borgin öllum olíufélögunum tilboð um að leggja hluta þeirra niður.  

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir borgina hafa boðið upp í samstarf um að uppbygging kæmi í stað stöðvanna. Ráðist yrði í byggingu íbúða og einnig hverfistengdrar þjónustu og með samkomulaginu sem hefur verið undirritað sé þetta að ganga eftir. Með þessu samkomulagi munu stórir reitir þeirra í íbúðahverfum fara undir hverfistengda þjónustu og íbúðir. Eigendur bensínstöðvanna sem rifnar verða eiga að fá byggingarétt á móti en vill tryggja í gegnum skipulagsvaldið að það sé þá í þágu samfélagsins. Fyrst munu bensínstöðvar sem eru inni í hverfum og nálægt leiksvæðum og gönguleiðum barna hverfa en stöðvar sem eru við stofnbrautir verða áfram. Dæmi um stöðvar sem verða fyrstar til að hverfa eru við Stóragerði, Háaleitisbraut, Álfheima, Ægisíðu, Skógarsel og Norðurfell. Samþykkja þarf deiliskipulag og stilla upp hugmyndum sem verða kynntar íbúum á hverjum stað og það mun taka einhvern tíma. Dagur B. Eggertsson kveðst ekki eiga von á öðru en að borgarbúar fagni þessu. „Það hefur verið kallað eftir því að sumar af þessum stöðvum fari og ef að okkur tekst í samvinnu að koma með eitthvað skemmtilegt og gott í staðinn eins og íbúðir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur og ýmsa hverfistengda þjónustu að þá hugsa ég að þetta geti gengið hratt og vel,“ segir Dagur.

You may also like...