Bjartara og betra er yfirskrift breytinganna

Nýlega var tilraunaverkstæði fyrir krakka opnað í Borgarbókasafninu í Gerðubergi. Keyptar voru Raspberry Pi tölvur þar sem krakkar geta fikrað sig áfram með einfalda forritun og leiki, sett saman allskonar tæknivirkni með Little Bits tæknikubbum. Á myndinni eru ungmenni að fást við ýmis verkefni á verkstæðinu.

Miklar breytingar og endurbætur hafa verið gerðar á Borgarbókasafni menningarhúsi Gerðubergi. Bjartara og betra í Breiðholtinu gæti verið yfirskrift þeirra breytinga. Bókasafnið hefur verið í Gerðubergi frá upphafi og nýlega fékk það mikla andlitslyftingu. Aðstaða fyrir börn, fjölskyldur og ungmenni var stækkuð og betrumbætt en einnig var almenn aðstaða í safninu löguð og færð til nútímans ef svo má að orði komast. Mikil áhersla er lögð á aðkomu að safninu og hún bætt verulega. Guðrún Lilja segir það einkum gert til þess að fólk finni að það sé velkomið í safnið. Umhverfið bjóði gesti velkomna og er töluvert af nýjum húsgögnum, tæknibúnaði auk þess sem aðstaða fyrir gesti hefur verið bætt. Guðrún Lilja bendir einnig á aukna tengingu bókasafnsins við kaffihúsið og segir að fólk getið komið, fengið blöð, tímarit og annað efni til aflestrar á meðan það gæði sér á kaffi og öðrum veitingum í fersku, fínu og grænu umhverfi kaffihússins.

Þær Guðrún Lilja og Sólveig Arngrímsdóttir, deildarstjóri Borgarbókasafnsins í Gerðubergi, segja að mikil áhersla hafi verið lögð á að efla tenginguna við nærumhverfið. Þessi tenging sé mjög mikilvæg því safnið í auknu mæli komu til móts við þarfir íbúanna í hverfinu. Áður en breytingarnar fóru af stað var gerð könnun í hverfinu og rýnt í framtíðarmöguleika safnsins með þarfir íbúa í huga. Niðurstaðan hennar voru t.d. að betri aðstöðu vantaði fyrir börn og fjölskyldur, fjölmenningartengda starfsemi og sýningar. Í því samhengi má nefna sýninguna Skrímslin bjóða heim sem var mjög vel tekið af gestum. Fyrir breytingar var efnt til vinnustofu með krökkum á aldrinum 9 til 15 ára þar sem margt mjög skemmtilegt kom frá þeim um þeirra hugmyndir um framtíðarbókasafnið. Þau bentu á nauðsyn þess að hafa opin rými, betra aðgengi að fjölbreyttum svæðum og bókum og öðru efni sem safnið hefur að bjóða. Á óskalistanum krakkana voru líka staðir sem hægt væri að hafa það kósí á og lesa t.d. hengirúm. Við urðum að óskum þeirra og settum upp hengirúm í safninu og einnig eru nokkrir Fat boy púðar til að sitja á svo að það ætti að vera hægt að koma sér vel fyrir. Plássið fyrir krakka var stækkað mikið og sett upp tilraunaverkstæði með allskonar tækjum og tölvum í rýminu. Deildin fyrir minnstu börnin var einnig stækkuð til muna.

Mjög góð aðstaða er fyrir börn í Borgarbókasafninu í Gerðubergi og bjartir litir sóttir í náttúruna.

Að bregðast við þörfum hverfisins

Þær Guðrún og Sólveig segja hlutverk Menningarhússins Gerðubergs sé að bregðast við þörfum hverfisins í vaxandi mæli og því þurfi að aðlaga starfsemina í takt við breyttar þarfir. Sú reynsla sem komin er á þessar breytingar er mjög góð að mati Guðrúnar og Sólveigar og bæta því jafnframt við að enn sé sama góða starfsfólkið til staðar þótt nýtt starfsfólk bætist í hópinn.

Kraumandi hugmyndahús og samkomustaður

En hver var helsta ástæðan fyrir þessum breytingum? Hún var einfaldlega sú að það var kominn tími til að endurnýja ýmsan búnað á safninu. Um leið ákváðum við að slá tvær flugur í einu höggi og nota tækifærið til að staldra við og skoða starfsemina í stærra samhengi með þarfir íbúa í huga. Samfélagið er ekki jafn einsleitt og áður. Fólk er af mismunandi uppruna og auknir flutningar milli landa hafa breytt samsetningunni á gestum safnsins. Bókasöfnin eru líka tilvalinn samkomustaður þar sem allir mætast á jafnréttisgrundvelli óháð þjóðerni eða samfélagstöðu. Guðrún og Sólveig segja að með því að þróa starfsemi bókasafnanna í takt við breyttar þarfir íbúa og nýjungar í tækni þá séu þau að lifna við og verða að stöðum þar sem hjartað slær í samfélögum. Þau eru að þróast yfir í að vera blanda af bókasafni, menningarhúsum, vinnu- og lærdómstöðum eða jafnvel kraumandi hugmyndahús. Þær Guðrún og Sólveig benda á að í Gerðubergi sé þegar fyrir hendi bækur um fjölmörg efni á mörgum tungumálum. Til að koma betur til móts við fjölmenningarlegt umhverfi í Breiðholti sé stefnt að því að auka enn frekar lesefni á erlendum málum fyrir alla aldurshópa þó megináherslu verði lögð á þarfir barna og ungmenna.

Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir hönnuður verkefnisstjóri hjá Borgarbókasafninu og Sólveig Guðrún Arngrímsdóttir deildarstjóri Borgarbókasafnsins í Gerðubergi

Tilraunaverkstæði – tæknilæsi ekki síður mikilvægt

Nýlega var tilraunaverkstæði opnað í Gerðubergi. Markmiðið með því er að efla tæknilæsi hjá ungmennum og auka aðgengi að nýrri tækni til að virkja sköpunarkraftinn og efla sjálfsþroska í gegn um tækni og leik. Keyptar voru Raspberry Pi tölvur þar sem krakkar geta fikrað sig áfram með einfalda forritun og leiki, sett saman allskonar tæknivirkni með Little Bits tæknikubbum og Makey Makey tæknisettum. Þar geta þau jafnframt lesið bækur um virkni þessara nýju tækni og aflað sér frekari þekkingar á sínum hraða. Einnig er búið að koma upp þrívíddarprentara og vínyl-skera sem verða fljótlega aðgengilegir fyrir notendur. Í sumar verður tilraunaverkstæðið opið á þriðjudögum og fimmtudögum frá 13 til 16 með leiðbeinanda en auðvitað er líka hægt að koma og fikta á örðum tíma. Sumarið verður svo notað í að móta starfsemina enn betur í kringum þessa nýja þjónustu. Fullorðnir eru að sýna þessari nýjung mikinn áhuga og auðvitað geta þeir líka komið og fiktað.

Flestu var breytt nema að gamla góða starfsfólkið er enn til staðar.

Cocina Rodriguez – kaffihús með persónulegan stíl

Bókasafnið og menningarhúsið eru nú ein sameiginleg heild með kaffihúsið í miðjunni þar sem hægt er að setjast niður og kíkja í tímarit og blöðin yfir rjúkandi kaffi. Kaffihúsið verður opið virka daga í sumar frá kl. 10 til 17. Um síðustu áramót tók Evelyn Rodriguez við rekstrinum og rekur það undir nafninu Cocina Rodriguez. Miklar breytingar voru gerðar á kaffihúsinu fyrir nokkrum árum. Sett var upp var nýtt eldhús og veitingasalurinn var stækkaður og opnaður bæði inn í bókasafnið en einnig í átt að fundaraðstöðu hússins. Í hádeginu er boðið upp á heitan mat frá kl. 11.30 til 13.00. Evelyn eldar allan mat á staðnum, úr íslensku hráefni, en þar sem hún á rætur að rekja til Dómíniska lýðveldisins berst stundum framandi ilmur úr eldhúsinu með nýju og spennandi bragði af réttum sem kitlar bragðlaukana. Evelyn er lærð blómaskreytingakona. Hún sagði í samtali við Breiðholtsblaðið sl. vetur að þótt hún hafi lært blómaskreytingar þá hafi hún alltaf haft mikinn áhuga á mat og matarmenningu. Þessi mataráhugi hennar skilar sér í veitingunum á Cocina Rodriguez þar sem alla daga er ilmandi kaffi og ljúffengt meðlæti á boðstólum. Cocina Rodriguez er því bæði bókakaffi með góða tengingu við bókasafnið en einnig tilvalinn staður fyrir einstaklinga og hópa. Það er ekki amalegt eftir göngutúr eða sundferð að hreiðra um sig á kaffihúsinu í Gerðubergi með ljúffengar veitingar og ný tímarit að skoða, segja þær Guðrún og Sólveig að lokum.

Hvað er betra fyrir ungmenni á tímum snjallsíma, ipoda og allra samfélagsmiðla annað er huggulegheit með góða bók.

You may also like...