Farið að huga að næstu bæjarstjórnarkosningum

Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri á Seltjarnarnesi ætlar að gefa kost á sér í fyrsta sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórnarkosningum fyrir Sjálfstæðisflokkinn að vori. Bjarni Álfþórsson forseti bæjarstjórnar hyggst einnig halda áfram og gefa kost á sér í annað sæti listans.

Magnús Örn Guðmundsson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins hefur áhuga á að halda áfram og Sigrún Edda Jónsdóttir bæjarfulltrúi kveðst vera að hugsa málið en ekki hafa tekið endanlega ákvörðun. Margrét Lind Ólafsdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar sem búin er að starfa í bæjarmálunum í átta ár kveðst ekki ætla að gefa kosta á sér áfram en Guðmundur Ari Sigurjónsson sem setið hefur í bæjarstjórn á vegum Samfylkingarinnar hyggst gefa kost á sér áfram. Árni Einarsson sem verið hefur bæjarfulltrúi hjá Neslistanum um árabil ætlar hins vegar ekki að gefa kost á sér. Af öðrum stjórnmálaöflum er það að frétta að nú er unnið að stofnun bæjarmálafélags á vegnum Viðreisnar á Seltjarnarnesi og hafin undirbúningur að framboði til bæjarstjórnarkosninga. Á vegum Pírata er einnig gert ráð fyrir framboði til bæjarstjórnarkosninga þótt endanleg ákvörðun liggi ekki fyrir. Vinstri hreyfingin Grænt framboð VG hefur ekki verið með sér framboð á Seltjarnarnesi og óvíst hvort breytinga er að vænta að því leyti, Framsóknarmenn hafa ekki tekið ákvörðum um framboðsmál og ekki hefur náðst í forsvarsmenn Bjartrar framtíðar til að inna þá eftir hvort þeir hyggi á framboð.

You may also like...