Gæti ekki hugsað mér þægilegri stað
Stella Leifsdóttir opnaði verslunina Belladonnu í Skeifunni og rúmum áratug síðar bætti hún annarri verslun við My Style tískuhús sem er við Holtasmára 1 í Kópavogi. Stella er Reykvíkingur en bjó í Kópavogi á fyrstu búskaparárunum, þar til Seljahverfið í Breiðholti freistaði þeirra hjóna í upphafi aldarinnar eða árið 2002 – nokkru áður en að Belladonna var stofnsett. Stella hafði ekki komið að fataverslun áður en hvað koma til að hún ákvað að snúa sér að verkefni sem hún hafði aldrei kynnst eða tekið þátt í eða með öðrum orðum hvernig hún lenti í tískubransanum. Hún spjallar við Breiðholtsblaðið að þessu sinni.
“Það má rekja þetta til þess að ég ákvað að bæta við menntun mína og fór í nám í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík þaðan sem ég útskrifaðist með BS í vörustjórnun árið 2004. Ég hafði unnið talsvert hjá minni fyrirtækjum og stundum velt fyrir mér að fara út í sjálfstæðan atvinnurekstur en ekki látið verða af því. Ég hygg að námið hafi aukið mér sjálfstraust til þess að fara af stað. Það má kannski segja að tilviljun ráðið nokkru um að fatabransinn var fyrir valinu” heldur Stella áfram. “Eftir því sem ég hugsaði meira um þetta fannst mér ákveðið rými væri fyrir hendi í þessari verslunargrein. Það vantaði meiri fjölbreytni inn á þennan markað. Fá þangað vörur sem hentuðu flestum konum. Ég ákvað því strax að huga að fleiri stærðum – stærðum sem henta flestum konum á öllum aldri. Ég er með stærðir frá 38 til 58 í Belladonnu og 38-52 í My Style tískuhúsi en ég er samt ekki alveg með sömu vörurnar þar og í Belladonna.”
Maður verður að vera allt í öllu
En er ekki margra manna verk að reka tvær verslanir ? “Það er enginn átta tíma vinnudagur hjá mér, ég er líka í mörgum hlutverkum. Ég næ að vera sjálf í búðinni flesta daga en sé einnig bæði um innkaup og markaðsmál. Ef maður er í eigin rekstri þá er ekkert um annað að gera en að vera allt í öllu. Hlutirnir ganga ekkert upp með því að halda sig fjarri. En ég nýt þess einnig að hafa gott starfsfólk, án þess gengi þetta ekki því maður gerir ekki allt sjálfur.” Stella er með um 20 vörumerki sem þýðir að hún verður að fylgjast vel með. Sækja sýningar og annað sem þessu fylgir. “Já – þetta er svolítið skrítinn heimur og í tískunni er hugsað nokkuð langt fram í tímann. Núna er ég að skipuleggja hvað ég ætla að bjóða næsta sumar. Fylgjast með hvernig tískan verður þá. Vetrartískan er löngu ákveðin og styttist í að haustvörur fari að koma inn, en þá verður líka fljótlega farið að huga að næsta vetri. Að þessu leyti lifir maður talsvert í framtíðinni.”
Að stýra flugvél og traktor
Í æsku var Stella mörg sumur í sveit og minnist þess tíma þegar hún var sett upp í flugvél á Reykjavíkurflugvelli á ellefta ári. Hún flaug til Akureyrar þar sem hún þurfti að bíða um nokkurn tíma eftir því að fara með annarri flugvél til Vopnafjarðar. “Ég man að ég varð að passa mig mjög vel og fylgjast með hvenær Vopnafjarðarvélin færi. Þetta var lítil rella, sex eða átta sæta. Það voru fáir farlegar og flugmaðurinn leyfði mér að sitja fram í hjá sér og lét mig meira að segja grípa í stýrið og fá tilfinninguna fyrir því að stjórna vélinni. Þetta er í eina skiptið sem ég hef stýrt flugvél. En þetta var bara byrjunin á reynslu minni af því að stjórna farartækjum. Ég var aðeins á 14. ári þegar talin var kominn tími til að sumarstelpan færi að hjálpa til við heyskapinn, þá var ég sett á traktorinn. Ég hef aldrei verið mjög hávaxin og þurfti að standa upp til þess að ná niður á kúplingu og bremsur. Eina kennslan sem ég fékk var hvernig ætti að taka af stað og stöðva og svo var mér sagt að fara út á tún að snúa heyi. En einhvern veginn gekk þetta. Ég var meira og minna í sveit á sumrin frá því ég var var fjögurra ára og fram yfir fermingu. Og ég held að ég hafi haft gott af sveitadvölinni. En þetta er breytt í dag. Mun færri börn fara til dvalar á sveitabæjum og ég efast um að nokkrum kæmi nú til hugar að setja 14 ára gamlan stelpukrakka upp á traktor til þess að vinna á honum.”
Gæti ekki hugsað mér þægilegri stað til að búa á
Stella kynntist eiginmanni sínum Davíð Jóni Ingibjartssyni á heimavistarskóla. Hann er alinn upp í Hveragerði og þegar Stella var 17 ára flutti hún til hans og réðst til starfa við Heilsuhæli NFLÍ. “Ég var í um tvö ár í Hveragerði og við Davíð keyptum okkur síðan íbúð og fluttum í Kópavoginn, stækkuðum smám saman við okkur eftir því sem börnunum fjölgaði, síðan þegar elsta dóttir okkar þurfti á sér íbúð að halda, fórum við að leita fyrir okkur um húsnæði þar sem aukaíbúð fylgdi. Við fundum hana á endanum í Seljahverfinu.” Voru það erfið skipti. “Nei alls ekki – við höfum aldrei séð eftir því að hafa flust hingað. Þetta er bæði friðsælt og barnvænt umhverfi og líka mjög miðsvæðis fyrir okkur. Ég er með búðirnar í Skeifunni og Hlíðarsmáranum í Kópavogi þannig að ég er svona mitt á milli staða heima í Seljahverfinu. Þetta hentar Davíð einnig vel því hann sinnir kennslu bæði við Tækniskólann – Gamla Iðnskólann í Hafnarfirði og Tækniskólann niðri á Háteigsvegi. Ég gæti því ekki hugsað mér þægilegri stað til þess að búa.
Félag kvenna í atvinnulífinu og barnabörnin
Hefur kona sem er af fullum krafti í atvinnulífinu einhverjar tómstundir. Getur hún fengist við önnur áhugamál en vinnuna. Stella hugsar sig um. “Jú – maður verður að gera það, sjálf síns vegna. Ég er félagi í félagsskap sem heitir FKA – Félag kvenna í atvinnulífinu og sinni nefndarstörfum á þeim vettvangi. Við hjónin höfum líka gaman af að ferðast bæði innanlands og erlendis, við eigum góða vini og yndislega fjölskyldu. Elsta dóttir okkar býr í Kópavoginum og sú yngri í Hafnarfirði með þrjú börn Yngstur er sonurinn sem býr svo hér í Seljahverfinu með sinni fjölskyldu, en þau eiga tvö börn. Barnabörnin eru því orðin fimm. Að sinna fjölskyldunni, börnum og barnabörnum er ánægjulegt verkefni sem maður reynir að gefa sér tíma í – enda dásamlegt hlutskipti að hafa heilsu og getu til að sinna því sem manni finnst skemmtilegt og huga að þeim sem manni þykir vænst um.”