Miðborgin hefur breytt um útlit

Jóhann Jónsson kaupmaður og veitingamaður í Ostabúðinni á Skólavörðustíg.

„Miklar breytingar hafa orðið í Miðborginni á ótrúlega skömmum tíma. Bylting hefur orðið í ferðaþjónustunni sem menn sáu ekki fyrir. Fólk flykkist hingað forvitið um land og þjóð og Miðborgin er eðlilega viðkomustaður flestra. Jóhann Jónsson kaupmaður og veitingamaður í Ostabúðinni á Skólavörðustignum og formaður Miðborgarsamtakanna segir að eldsumbrotin í Eyjafjallajökli, afrek Íslendinga bæði á íþrótta- og menningarsviðum til dæmis í kvikmyndagerð að ógleymdum lágjaldaflugfélögunum og Internetinu sem veitir nánast ótakmarkaða upplýsingagjöf um Ísland hafa gerbreytt stöðu okkar. Miðborgin hafi einnig verið að breyta um útlit og fá á sig annan svip vegna endurnýjunar gatna, húsbygginga og annarra framkvæmda.

Jóhann er Borgnesingur, foreldrar hans stunduðu verslun en hann flutti til Reykjavíkur til þess að nema matreiðslu á Hótel Holti hjá Skúla Þorvaldssyni. Jóhann hefur starfið við matreiðslu og veitingarekstur síðan, meðal annars á Lækjarbrekku og með Rúnari Marvins gæðakokki og einum af frumkvöðlum í matreiðslu fiskrétta hér á landi. Jóhann keypti Ostabúðina á Skólavörðustignum um aldamótin sem þá var lítil sérverslun og sælkerabúð með osta en hefur nú eflt verslunina og byggt upp vinsælan veitingastað með sama nafni við hlið hennar. „Mér fannst sjálfsagt að halda nafninu þótt ég færði starfsemi út. Ég tók kjallarann hér baka til þar sem við sitjum sem hafði verið notaður til geymslu og breytti honum í hádegisveitingastað auk þess að vera búinn að vera með veisluþjónustu í langan tíma. Að endingu opnaði ég svo stað í sama húsi hér á Skólavörðustígnum sem heitir Ostabúðin Resturant og er kvöldveitingataður.“

Þarf að tryggja aðgengið

Talið berst aftur að Miðborginni. Jóhann segir að þróunin sé mjög jákvæð en alltaf komi upp ákveðnir erfiðleikar meðan verið sé að byggja upp. Einkum séu erfiðleikar með aðgengi. „Þróunin byrjaði aðeins á vitlausum enda. Ef við miðum við byggingamagnið sem er að rísa þá þarf einnig að tryggja aðgengið. Við finnum fyrir þessu sem þurfum að kaupa aðföng og fá þau send hingað. Eflaust fælir þetta hefta aðgengi eitthvert fólk frá því að sækja Miðborgina og þá þjónustu sem þar er að finna. Ég hef velt því fyrir mér hvort ekki sé hægt að hafa meiri sveigjanleika í umferðinni. Til dæmis að opna hliðin meira einkum því að veðurskilyrði eru ekki alltaf góð eins og oft vill vera hér á landi. Göngugöturnar eru um margt af því góða og miðað við þann fjölda sem er jafnan á götunum í dag er ákveðið öryggisatriði að blanda bílaumferð ekki saman við umferð gangandi fólks.“ Jóhann segist vel muna þá tíð þegar fólk ók sunnudagsbíltúrinn niður Lagaveginn til þess að skoða í búðarglugga og hafa veitt því athygli að útstillingar hafi breyst. „Það er verið að höfða til annara hópa í dag einkum ferðafólksins sem fyllir göturnar sem aldrei fyrr.“

Mætti vera meira um íslenska hönnun

Og þá vaknar spurningin um hvort verslanir séu að verða um of einleitar í Miðborginni. Hvort verslunarmenn séu einkum að höfða til ferðamanna. Jóhann segir marga horfa til viðskipta við ferðafólk og önnur verslun hafi vikið en það kunni að vera tímabundið. Hann kveðst hafa trú á að sú uppbygging sem nú á sér stað á Hafnartorginu og koma verslana á borð við H&M eigi eftir að draga heimafólk til sín ekki síður en ferðafólkið. „Ég sakna þess svolítið hvað sest lítið af íslenskri hönnun í búðum í Miðborginni. Ferðamannavara á borð við lundann sem er orðinn einskonar tákn landsins er mjög áberandi enda eru um 30 „lundabúðir“ í Miðborginni. Ég hygg þó að umtalsvert framboð á hönnunarvöru sé í miðborginni þótt Lundinn og fleiri „made in China“ vörur séu áberandi. Hér eru grónar verslanir eins og Rammagerðin, Eggert feldskeri hér efst á Skólavörðustígnum, Ófeigur gullsmiður og Hildur kjólameistari. Tólf tónar eru hér ofar við götuna og Handprjónasambandið er hér. Egill bólstrari og Sirrý hafa verið hér neðst á Bergstaðastrætinu um langan tíma. Þau eru nú búinn að selja gamla húsið og maður veit ekki hvað kemur staðinn. Og Helgi úrsmiður er hættur. Ég sakna gróinna verslana sem farið hafa á brott – verslana á borð við Tösku- og hanskabúðina og fleiri verslana. Þetta hefur að miklu leyti með húsaleiguna að gera. Ferðamannaverslanirnar yfirbjóða aðra aðila.“ Og Jóhann snýr sér að fólkinu „Hér hafa líka verið margar eftirminnilegar persónur sem settu svip á Miðborgarlífið. Sumar tengdust Mokka en líka öðrum stöðum. Mokka er eitt elsta kaffihús borgarinnar. Það var opnað í ítölskum stíl 1958 og er því að verða sextíu ára. Á þessum áratugum hefur ekkert breyst þar og ég hef heyrt að Guðný stofnandi þess hafi aldrei mátt heyra minnst á breytingar. Ég ætla rétt að vona að dætur hennar og barnabörn hafi þessa sögu í heiðri og kaffihúsið verði rekið með óbreyttu sniði um ókomin ár. Þetta er eitt af andlitum götumyndarinnar. Skólavörðustígurinn tignarleg gata með kirkjuna fyrir ofan enda er þetta trúlega orðin vinsælasta ferðamannagata landsins. Það sést á umferðinni og þá einkum upp á Skólavörðuholtinu. Gatan var líka tekin í gegn fyrir nokkrum árum og gerbreyttist. Ég benti á meðan á þeim framkvæmdum stóð að þess virði væri að þrauka vegna þess að þær myndu skila miklu fallegra og betra umhverfi sem raunin varð.“

Næturlífið verður að fara

En hvað með veitingastaðina. „Þeir hafa auðvitað sprottið upp bæði hér og víðs vegar á miðborgarsvæðinu. Það þarf að fæða ferðafólkið og eftirspurn eftir veitingastöðum hefur margfaldast eins og dæmin sýna. Við búum við allt aðra matarmenningu í dag en fyrir nokkrum árum og getum þakkað ferðafólkinu hluta af henni. Það er margt mjög jákvætt að gerast í veitingamennskunni en annað er ekki eins gott.“ Hvað áttu við. „Ég á við næturlífið – það verður að fara. Ég tel að borgaryfirvöld verði að átta sig á því að næturklúbbar eiga ekki samleið með öðru sem er að gerast í Miðborginni. Hér eru margir vínveitingastaðir sem eru opnir til klukkan þrjú og jafnvel lengur á nóttunni hvern dag allan ársins hring. Skemmtanalíf af því tagi á ekki heima hér. Bæði vegna íbúa og ekki siður vegna ferðafólks. Fólks sem er að koma út af hótelum og gistiheimilum ef til vill kl. fimm og sex á morgnana til þess að fara í flug eða í skipulagðar ferðir og mætir dauðadrukknu og illa áttuðu fólki – mætir skríl. Víða erlendis er næturlífið skilið frá hinu eiginlega miðborgar- og menningarlífi. Ég get nefnt borg eins og Barcelona á Spáni þar sem næturlífið fer að miklu leyti fram á hafnarsvæði borgarinnar þar sem lögregla, sjúkra- og slökkvilið er jafnan til staðar um nætur. Við þurfum að vinna að því að færa þetta en ég veit að tekur tíma þótt ákvarðanir verði teknar. Ólafur Laufdal byggði í Múlanum á sínum tíma í talsverðri fjarlægð frá íbúðum og annars konar miðborgarlífi. Ég tel það hafi verið ákveðin framsýni en með pubbamenningunni færðist þetta að mestu leyti inn í Miðborgina. Stærsti vandinn felst í þessari löngu næturopnum. Ég er ekki að fárast yfir pubbum sem loka á skynsamlegum tíma á kvöldin eins og víðast erlendis. Þeir eru hluti af mannlífinu en staðir sem eru opnir fram undir morgun eru ekkert annað en næturklúbbar.“

Veggjakrotinu verður að linna

Jóhann vendir kvæði í kross og tekur upp annað mál sem er miðborgarbúum og atvinnurekendum í Miðborginni mikill þyrnir í augum. Það er veggjakrotið. „Þetta er alltaf að aukist og það sem athyglisverðast er að þarna er fullorðin fólk á ferðinni. Oft hafa unglingar tekið upp á þessu en það sem nú gengur yfir kemur frá eldra fólki – jafnvel um og yfir þrítugt. Ég veit ekki hvað því gengur til. Hvort þetta er einhver tiltekinn hópur. Hef grunsemdir um það vegna þess að það virðast ganga merkjasendingar á milli aðila um þetta. Það er vægst sagt sérkennilegur hugarheimur á bak við veggjakrotið og því fylgir mikill óþrifnaður og eyðilegging á verðmætum. Margt af því sem sett er á veggina er heldur engum til sóma. Það var gert átak gegn þessu fyrir nokkrum árum og þá dróg úr krotinu og spreyinu um tíma. Ástandið batnaði en nú er allt komið í sama farið aftur. Veit ekki hvort um sömu aðila er að ræða em það þarf að stöðva þetta með öllum tiltækum ráðum. Ef til vill er hluti lausnar að koma upp tilteknu svæði þar sem fólk getur skemmt sér við þessa iðju. Veit það þó ekki. Ef til vill gengur þetta yfir en við getum ekki beðið eftir því. Þessu verður að linna. Borgaryfirvöld verða að taka á málinu.“

Götur hafa tekið stakkaskiptum

Nú hafa svo miklar beytingar orðið í Miðborginni á skömmum tíma að fyrir margra sakir er hún nánast óþekkjanleg frá því sem var. „Já – Þetta eru miklar breytingar og auðvitað er erfitt að gera svo öllum líki. Sæbrautin er orðin fjölsótt af gangandi fólki einkum ferðafólki eftir að listaverk voru sett upp við götuna. Hverfisgata sem var sóðaleg og ljót gata og full af brunarústum er orðin óþekkjanleg eftir mikla endurbyggingu bæði á umhverfi og byggingum við götuna. Nú er hún orðin falleg verslunar- og þjónustugata en einnig íbúðasvæði. Við endurbygginguna voru þó gerð þau mistök að hafa hjólreiðastíga beggja vegna og fyrir vikið vantar betri stæði og einkum safnstæði. Það er ekki hægt að skikka fólk upp á reiðhjól. Fólk verður að finna það hjá sjálfu sér og veðráttan á nokkurn þátt í að takmarka hjólreiðar hér á landi. Þær eru auðveldari í umhverfi eins og við þekkjum til dæmis frá Danmörku.“

Teygir sig langt inn í Vesturbæinn

Jóhann bendir á að Laugavegurinn, Klapparstígurinn og Skólavörðustígurinn hafi einnig gengið í endurnýjun lífdaga og að þessi endurbygging eigi heldur ekki eingöngu við um Miðborgina. „Hún teygir sig langt inn í Vesturbæinn. Meðfram allri sjávarsíðunni. Hafnarstræti og Tryggvagata eru að gerbreytast með tilkomu Hafnartorgsins og byggðirnar í kringum höfnina. Þar er nú að finna flóru veitingahúsa af margvíslegum gerðum og ferðafólk leitar mikið á það svæði. Ég vil vona að borgaryfirvöld sjái til þess að Slippurinn verði starfræktur áfram. Hann er hluti af hafnarsvæðinu og hann hefur líka aðdráttarafl fyrir ferðafólk. Faxaflóahafnir vilja halda í hafnarstarfsemina sem ekki er aðeins af hinu góða heldur nauðsynlegt.“ Jóhann segir líka ánægjulegt að sá hvernig fjölbreytnin er farin að ryðja sér til rúms á Grandanum. „Þar ríkir annað veðurkerfi en hér í Miðborginni. Þar eru oft vindstrengir af sjónum og minna skjól af byggingum en hér. En fólk lætur það ekkert á sig fá. Þar er komið fullt af skemmtilegum verslunum og veitingastöðum. Gömlu verbúðirnar eru sérstakur hluti og svo má nefna Sjóminjasafnið og Marshallhúsið sem hluta af sögu- og menningarlífi. Ferðaþjónustan hefur einnig skotið rótum. Rútufyrirtæki og bílaleigur eru farin að sækja inn á það svæði og margt ferðafólk fer um Grandann á degi hverjum. Það vantar alvöru fiskmarkað þar rétt eins á fiskitorginu í Bergen í Noregi og þá vil ég snúa mér aðeins að hinum endanum á Miðborgarsvæðinu. Það er Hlemmurinn. Ég vona innilega að vel takist til með matarmarkaðinn og góð stemning nái að myndast i kringum hann. Íbúum hefur fjölgað mikið á þessu svæði m.a. með uppbyggingunni í Holtunum og það ætti að hjálpa að margt fólk býr nú í göngufæri við Hlemminn.“

Almenn bjartsýn en nokkuð þarf að laga

„En ef við eigum að líta yfir sviðið í heild sinni þá held að almenn bjartsýni ríki í Miðborginni. Allir verða aldrei sáttir við allt. Það er ekki hægt að ætlast til þess. Ég held að þrjú atriði verði að skoða betur. Það eru aðgengismálin. Hvernig hægt er að bæta aðgengi að fólki og fyrirtækjum í Miðborginni. Hvort bæta megi það með auknum sveigjanleika í umferðinni. Annað er að draga úr starfsemi næturklúbba eða að færa hana til og það þriðja og það allra nauðsynlegasta er að útrýma veggjakrotinu.“

You may also like...