Fróðleg og skemmtileg ferð

Hópmynd af nemendum og kennurum í heimsókn í Parsons skólanum í París, Una Björk er þar fjórða frá hægri og Guðrún Margrét er önnur frá hægri.

Nemendur Textíldeildar Myndlistaskólans í Reykjavík við Hringbraut fóru í tveggja vikna ferð til Englands og Frakklands á liðnu vori. Guðrún Margrét Gunnsteinsdóttir og Una Björk Jónsdóttir voru á meðal þeirra nemenda sem heimsótti Englendinga og Frakka í þessari ferð og settust þær niður með Vesturbæjarblaðinu í Marshallhúsinu á dögunum og röbbuðu um þessa fróðlegu og skemmtilegu ferð. Í Frakklandi skoðuðu þær einkum söfn en meiri fjölbreytni var í Englandsferðinni sem tók fleiri daga og hópurinn fór nokkuð vítt um bæði um Englandi og einnig Skotland.

Ferðin var hluti af námi nemendanna og farin með styrk frá Erasmus+ menntaáætluninni. Tilgangurinn var að skoða skóla sem bjóða upp á textílnám á háskólastigi og kynna sér starfsemi safna og einnig fyrirtækja. Hópurinn sótti bæði heim söfn og einnig vinnustaði og fyrirtæki sem tengjast þessari fjölbreyttu grein. Þær Guðrún og Una segja ferðina bæði hafa verið mjög lærdómsríka og einnig skemmtilega. Þær segja fyrirtæki og stofnanir mjög ólík að gerð og umfangi, stór söfn, skóla með langa sögu að baki og allt niður í litlar vinnustofur og eins manns fyrirtæki. En hvað er textíll.” Textíll er vinna með allskyns efni þar sem farið er frá frumeiningu til framleiðslu allskyns hluta. Það má ef til vill draga þetta saman í eina setningu – “frá þræði til heildar.”

Engin stöðnun ríkjandi

Þær Guðrún og Una segjast hafa orðið mjög undrandi að sjá hvað vel væri búið að þessari grein viða og hvað hún stendur á klassískum grunni. Íslendingar séu ef til vill ekki eins vanir þessu hugtaki eða þekkja hvað stendur að því að baki og margir tengi það sérstaklega við fatahönnun. “Fatahönnunin er bara ein grein innan fjölbreyttrar flóru sem snýr að listum, iðnaði og annarri framleiðslu þar sem unnið er úr hinum ýmsu efnum. Þótt textíllinn eigi sér alda gamla sögu þá ríkir engin stöðnun innan hans. Við veittum því athygli að nýjasta tækni er að ryðja sér þar til rúms – tölvutæknin og farið að vinna hluti með þrívíddarprenturum. Engu að síður er nauðsynlegt að kunna góð skil á frumaðferðunum og hversu mikilvægt er að skynja áþreyfaleikann – að koma við efnin og hluti og handfjatla þau. Það sakar ekki að kunna að sauma eða prjóna svo dæmi um handverk sé getið þótt það sé engan veginn nauðsynlegt. Við komum sjálfar úr gjörólíkum greinum þegar við hófum nám við textíldeildina.” Guðrún er hjúkrunarfræðingur en Una Björk mannfræðingur. Þær segjast hafa fundið fyrir mikilli framþróun og séð hvað textíllinn er að koma inn á fleiri og fleiri svið til dæmis í matvælaiðnaði. “Eitt af því sem við sáum var hvernig verið var að búa til matvæli úr sjávarþangi og móta þangið þannig að það liti út eins og kjöt. Þannig er textíllinn notaður til þess að hugsa upp á nýtt. Þróa efnin til nýrrar heildar.”

París er æðisleg borg

Guðrún og Una segja að dagskrá ferðarinnar hafi verið þétta einkum í Frakklandi þar sem þær hafi gengið fleiri kílómetra eftir götum Parísar. “París er æðisleg borg en á fjórum dögum með þéttskipaða dagskrá er ekki hægt að skoða allt sem mann langaði til að gera. Englandsdvölin var aðeins afslappaðri og farið út fyrir stórborgir og jafnvel út í sveitir þar sem margt athyglisvert var að sjá. Við sjáum hins vegar ekki eftir Parísarrötlinu þótt strembið væri. Það situr svo margt efir þaðan.

Stóru söfnin og Parísarlífið

Hvað finnst þeim merkilegast við Frakkland. “Við skoðuðum Mesée du qual Branly sem er stórt safn og inniheldur söfn þjóðlegrar listar frá mörgum löndum austan hafs og vestan og einnig frá Eyjaálfu. Þar sáum við meðal annars sýningu þar sem fjallað var um afrísk áhrif í verkum Pablo Picasso frumkvöðuls þeirrar listastefnu sem kölluð er kúbismi. Við skoðuðum einnig Musée de Cluny, sem er safn miðaldalistar og hefur verið starfrækt frá 1843. Þar er meðal ananas að finna frægan myndvefnað frá 16. öld – oft gríðarstór handofin teppi sem líta eins út frá báðum hliðum og eru talinn eitt helsta listræna afrek miðalda í Evrópu. Við skoðuðum líka vinnustofur í Frakklandi þar á meðal Stúdíó Anais Gurey var heimsótt. Gurey er fatahönnuður og hefur byggt upp eins manns fyrirtæki í kringum hönnun sína. Annað sem geta má um úr Frakklandsheimsókninnni er útibú bandaríska skólans Parsons sem er er með franskt útibú þar sem kenndar eru tískutengdar greinar. Fleiri fyrirtæki og starfsstöðvar voru skoðaðar í París meðal annars höfuðstöðvar Trend Union, ráðgjafafyrirtækis Lidewij Edelkoort sem er hollensk og stofnaði það á 9. áratugnum.

Ferðalangar frá Íslandi að prufa vefstólana í Glascow School of Art.

Kynntumst meiri breidd í Englandi

Heillaði England ykkur líkt og París. “Já – en kannski á annan hátt. Þar skoðuðum við bæði skóla, fyrirtæki og vinnustofur og kynntumst meiri breidd þar sem klassíkin var meira á dagskrá í Frakklandi. Central Saint Martins listaháskólinn er gríðarstór skóli þar í boði er upp á margvíslegt listnám þar á meðal í textíl- og fatahönnun. Craft Study Center háskólasafnið í Farnham var sótt heim og einnig University for the Creative Art sem er það skammt frá.”

Höllin með mikið aðdráttarafl

Hópurinn heimsótti síðan The Royal School of Needlework. Þær Guðrún og Una segja að Hamton Court höllin þar sem skólinn er staðsettur sé aðdráttarafl í sjálfu sé. Í einum hluta hallarinnar er RSN til húsa, mjög viðeigandi fyrir konunglegan skóla. RSN á langa sögu að baki, var upphaflega stofnaður árið 1887 undir verndarvæng Helenu prinsessu.” Hápunktur ferðarinnar var þó að sögn Guðrúnar og Unu heimsókn til til strandbæjarins Margate þar sem Turner Contemporary listagalleríið sem nefnt er eftir breska listmálaranum J. M. W. Turner. “Þar skoðuðum við sýninguna ,,Entangled: Threads & Making” – verk þar sem framkvæmd og efniskennd eru í aðalhlutverki. Þar sáum við meðal annars verk eftir listakonur sem fjallað var um í náminu hjá okkur hér heima. Að loknum þessum hápunkti var haldið til Victoriu og Alberts í London sem er eitt helsta lista og hönnunarsafn í heimi – stofnað árið 1852 og nefnt eftir Victoriu drottningu og Albert manni hennar. Gríðarstórt safn með 145 sýningarsali og sýningargripi sem spanna 5000 ára tímabil.”

Skólar og vinnustofur í Skotlandi

Í Skotlandi var farið nokkuð víða og merkilegir staðir voru skoðaðir. Einn af þeim var verkstæði Laura Spring grafísks hönnuðar sem vinnur nú með textílþrykk. Einnig Glasgow School of Art þar sem boðið er upp á bæði B.A. og M.A. gráðu í textíl. “Eitt sem vakti verulega athygli okkar var í smábæjarins Duns suðaustur af Glasgow en þar er spunafyrirtækið Boarder Mill. Þar fer fram sérhæfing í spuna á Alpacca ull, en einnig spunnið úr merinó og íslenskri ull og jafnvel notuð hundahár í spuna.”

Unnið fyrir Elísabetu drottningu og J.K. Rowling

Hópurinn skoðaði einnig Heriot Watt háskólann í Galashiels þar sem mikil hefð er fyrir textíliðnaði. Stead McAlpine var einnig sótt heim en það er textílprentverksmiðja sem hefur verið starfandi síðan 1835. “Við fengum góða tilfinningu fyrir því hvernig Stead McAlpine hefur komið víða við í sögu Bretlands. Margir hafa notið textílprentsins þeirra, allt frá Elísabetu drottningu og J.K. Rowling til kattar sir Winston Churchills.”

Grónar stofnanir og ung fyrirtæki

Guðrún og Una segja að þrátt fyrir að um gamlar og grónar stofnanir sé að ræða en einnig ung fyrirtæki þá koma hvarvetna fram áherslan á að draga úr öllu sem talist geti til mengunar. Áður fyrr hafi verið unnið með ýmis hættulega efni. Notkun og meðferð efna miðist nú meira og meira við að ekki hljótist mengun af notkun þeirra og ljóst að mikil vakning eigi sér nú stað að þessu leyti. Þær segjast hafa orði mjög undrandi að sjá hversu langt Bretar og ekki síður Skotar séu komnir í flestu sem snýr að textíliðnaði. Ferðin þangað hafi verið mjög lærdómsrík.

Slappað af á kaffihúsi í strandbænum Margate á Englandi.

You may also like...