Nýtt skýli fyrir sjóböð við Seltjörn

Núverandi búningsaðstaða til sjóbaða í Seltjörn er talin ófullnægjandi.

Margrét Leifsdóttir, arkitekt hefur lagt fram ásamt Hauki  Geirmundssyni íþrótta- og tómstundafulltrúa Seltjarnarnesbæjar hugmyndir að nýju skýli í stað þess sem nú er til staðar fyrir sjóböð við Seltjörn. Hugmyndirnar voru kynntar á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar á dögunum. Fyrir er á svæðinu lítið skýli sem reist var upp úr aldamótum.

Margrét er áhugakona um sjóböð og hefur stundað slík böð við við Seltjörn um árabil. Hún vill bæta aðstöðu baðgesta sem hefur verið talsvert notuð að undanförnu. Í hugmyndum Margrétar felast opinn búningsklefi og rennandi vatn þar sem baðgestir geta skolað sand af sér. Einnig eru hugmyndir um bætta aðstöðu við göngustíg. Þessar hugmyndir eru enn á byrjunarstigi en vel hefur verið tekið við þeim. Haukur Geirmundsson segir að bætt aðstaða myndi draga fleira fólk að. Seltjörn var sjávarlón fram til 1799 að óveður oft nefnt Básendaveðrið rauf rifið sem afmarkaði það. Frá þeim tíma hefur lónið verið opið og þar er talinn ómengaðri sjór en annars staðar á höfuðborgarsvæðinu.

You may also like...