Hingað eru allir velkomnir

Helgi Óttarr Hafsteinsson framkvæmdastjóri Leiknis.

Nýtt verkefni er að fara af stað í Breiðholti í haust sem íþróttafélagið Leiknir ætlar að standa fyrir. Verkefnið byggir á að nýta fótbolta til þess að tengja saman börn í hverfinu af ólíkum uppruna, fá þau til þess að koma saman til leiks sér til ánægju, auðvelda þeim aðlögun og kynni í nýjum heimahögum og efla félagsfærni þeirra. Þetta verkefni verður unnið í samstarfi við bresku góðgerðasamtökin The Unity of Faiths Foundation eða TUFF. Verkefnið hefur verið útfært í hinum ýmsu borgum þar á meðal í London, Brussel, París og einnig í Ástralíu og njóta um 14 þúsund börn þess hingað til í Bretlandi. Utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðni Bergsson formaður KSÍ og breski sendiherrann á Íslandi, hafa lýst stuðningi við verkefnið. Gert er ráð fyrir að farið verði af stað í næsta mánuði en nú erum við að vinna að því að afla fjármuna auk þess að vinna að skipulagningu þess. Helgi Óttarr Hafsteinsson framkvæmdastjóri Leiknis kveðst vonast til þess að Reykjavíkurborg geti líka stutt við þetta mikilvæga samfélagslega verkefni.

TUFF verkefninu hefur verið valin staður í Breiðholti út frá því sjónarmiði að þar búa margar fjölskyldur sem eiga sér erlendan og blandaða uppruna og einnig þeirri staðreynd að mun lægra hlutfall barna í Breiðholti stundar íþróttir en í öðrum hlutum Reykjavíkurborgar. Verkefnið verður einnig sett upp í Kópavogi hjá Breiðablik og HK. Helgi segist hlakka til að takast á við þetta og að þetta verði frábært fyrir Breiðholtið ekki bara það efra þar sem höfuðstöðvar Leiknis eru heldur alla byggðina. Leiknir mun kynna verkefnið vel í hverfinu áður en það fer af stað og vill hvetja sem flest börn til þess að taka þátt.

Borinn og barnfæddur Breiðhyltingur

Helgi tók við starfi framkvæmdastjóra Leiknis á liðnum vetri. Helgi er borinn og barnfæddur Breiðhyltingur, hefur tengst Leikni um langan tíma og þekkir innviði félagsins því ágætlega. Hann lék um tíma með meistaraflokki félagsins og hefur spilað yfir 100 leiki fyrir Leikni auk þess að vinna við þjálfun yngri flokka á sínum tíma. Helgi kveðst ánægður með að hafa fengið þetta tækifæri. “Þetta er tækifæri fyrir mig til að samtvinna menntun, vinnu og áhugamál í eina stöðu,” segir hann í spjalli við Breiðholtsblaðið.

Tók við góðu búi af Dodda

“Ég tók við þessu starfi af Þórði Einarssyni eða „Dodda þjálfara“ eins og flestir þekkja hann enda hefur hann bæði starfað við þjálfun og stjórnunarstörf hjá Leikni um langt árabil. Ég kom að eins góðu búi og hægt var þegar lítið íþróttafélag á í hlut. Doddi hefur staðið sig frábærlega í gegnum árin. Hann er ekkert að fara frá félaginu. Heldur aðeins að létta á sér. Ég hef komið svona meira inn í EXCEL vinnuna – í fjármálin og reksturinn en þjálfunin verður alveg á hans könnu. Hann er yfir öllum yngri flokkunum og afreksstarfinu. Hann þekkir þetta alveg frá A til Ö enda búinn að lifa og hrærast í þessu frá því hann óx upp úr barndómi. Hann gekk hér inn um dyr þegar hann gat sparkað bolta sjálfsagt lítið eldri en fjögurra eða fimm ára og hefur ekki farið síðan.“

Byggðin orðin þroskuð og gróin

Helgi hefur alist upp í Efra Breiðholti og með Leikni. „Ég hef verið hér með nokkrum hléum. Einkum vegna náms og starfa en ég bjó í Danmörku um tíma og svo bjó ég líka um stund í Ólafsvík og spilaði fótbolta með liðinu þar að ógleymdum tíma í London þar sem ég starfaði sem mannauðsstjóri hjá Búllunni þegar Tommi – Tómas Tómasson fór í útrás á breskri grundu.” Helgi segir að hverfið hafi breyst mikið á tveimur áratugum. “Byggðin er orðin þroskuð og gróin þótt breytingar séu alltaf að eiga sér stað. FB hefur vaxið vel og dafnað og nú hefur mikið af nýbúum sest að í Efra Breiðholti. Sumt af þessu fólki kemur frá ólíkum mál- og menningarsvæðum. Þótt flestir aðlagist ágætlega þá tekur það ákveðin tíma. Einkum þegar íslenskan á í hlut. Krakkar eru oftast mun fljótari að ná tökum á nýju tungumáli en fullorðnir. Þar kemur málþroskastigið við sögu og skólarnir eiga auðvitað stóran hlut að máli hvað tungumálið varðar.“

Samið við Leikni. Frá vinstri: Helgi Óttarr Hafsteinsson framkvæmdastjóri Leiknis, Guðný Sævinsdóttir stjórnarmaður í Leikni, Shamender Talwar stofnandi TUFF, Þórður Einarsson yfirþjálfari Leiknis og Hrund Hafsteinsdóttir frá Utanríkisráðuneytinu.

Fyrsta skrefið er oft erfiðast

Helgi segir að þetta hafa áhrif á félags- og íþróttaþátttöku kakkanna. „Ég álít að foreldrar af erlendum uppruna veigri sér stundum við að koma með börnunum sínum til okkar eða annarra sem sinna félags- og íþróttastarfi vegna þess að þau tala ekki jafn góða íslensku innfæddir foreldrar. Þetta á ekki að vera svona og ég vil hvetja fólk til þess að setja það ekki fyrir sig vegna þess að það er ekkert til að skammast sín fyrir. Flestir íslenskir krakkar vita eðlilega oft meira um íþróttastarfið en þau sem eiga erlenda foreldra. Fólk kemur frá mismunandi menningarheimum og venjum og þátttaka í íþróttum er misjöfn eftir samfélögum.” Helgi segir að TUFF verkefnið sé kjörið til þess að breyta þessari staðreynd. Að ná til fleiri krakka sem ekki hafa farið inn í félags- og íþróttastarfið. “Verkefnið byggir á samstarfi við skólana. Fara inn í þá og kynna þetta fyrir krökkunum og fá þau til þess að koma alveg burtséð frá þjóðerni þeirra eða fyrri heimkynnum. Við gerum okkur grein fyrir að börn sem ekki stunda neitt félagsstarf eiga á hættu að einangrast. Þau eignast síður félaga og vini. Þótt fótboltinn sé í forgrunni þá er þessu verkefni einkum ætlað að auka tengsl barna við umhverfi sitt og að auka félagslega hæfni þeirra. Það þarf oft ekki mikið til. Fyrsta skrefið er oft erfiðast.”

Hingað eru allir velkomnir

Helgi minnist á kostnað við þátttöku í starfinu og að hann geti verið foreldrum misjafnlega erfiður. “Félagsstarfið kostar alltaf eitthvað og maður veit ekki um fjárhag fólks. Sumir eru að senda peninga heim til fjölskyldna sinna í öðrum löndum og aðstæður geta verið af ýmum toga. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að minna á frístundastyrkina – á 50 þúsund króna frístundastyrki borgarinnar sem öllum börnum stendur til boða. Við erum ef til vill ekki að auglýsa styrkina eða þessa þjónustu nægilega vel til að allir viti af henni. Við í Leikni höfum alltaf reynt að gæta þess að styrkirnir dugi fyrir æfingagjöldum. Við erum með frítt fyrir áttunda flokkinn en við verðum að kynna þetta betur fyrir foreldrum og forráðamönnum. Og talandi um nýbúana þá erum við að fá mjög öfluga einstaklinga sem eru af erlendu bergi brotnir. Við þurfum bara að fá fleiri. Nei – það skiptir engu máli fyrir okkur hvaðan fólkið kemur; hvorki þjóðerni, tungumál, litur eða fjárhagur. Hingað eru allir velkomnir.”

Eins og ein stór fjölskylda

En hvað dró Helga að Leikni á sínum tíma. “Það sem fyrst og fremst dróg mig að Leikni var félagið sjálft og stemningin í kringum það. Þetta er eins og ein stór fjölskylda og þannig hefur það alltaf verið. Ég held að þetta stafi að einhverju leyti af því að byggðin er þétt og minnir að nokkru leyti á bæjarbrag eins og finna má úti á landi. Austurberg er kjarninn í Fellunum og tenging út í Hólahverfið. Einskonar boulevard eða breiðgata þar sem margar stofnanir og fyrirtæki eru til húsa. Má þar nefna FB og Hólabrekkuskóla, Breiðholtslaugina, líkamsræktarstöð World Class að ógleymdu Gerðubergi og Miðbergi ásamt fleiru.”

Bragi í Leiksporti eftirminnilegur

“Við vorum í kofanum – gamla Leiknishúsinu og fórum líka oft upp í Hólagarð verslunarmiðstöðina við Lóuhóla. Þar var stór matvörubúð sem öðru hvoru skipti um eigendur og einnig sérverslanir, einhverjir veitingastaðir og oft var hverfiskrá þar svona að breskri fyrirmynd. Bragi Björns í Leiksporti er minnisstæðastur frá uppvaxtarárum mínum. Hann verslaði meðal annars með íþróttavörur og íþróttafélögin voru í viðskiptum við hann. Ég er heldur ekki frá því að búðin hans Braga hafi verið nokkurs konar félagsmiðstöð – ekki síst fyrir strákana í hverfinu og jafnvel fleiri. Oftast þegar maður kom í Hólagarð var einhver inni hjá Braga, strákar að skoða sig um eða fullorðinn að þiggja kaffisopa og ræða málin. Ég get sagt frá því að fyrsta vinnan mín sem reyndar var ólaunuð var að fá að afgreiða hjá Braga. Hann var oft einn í búðinni og ef hann þurfti að bregða sér frá varð hann að fá einhvern til þess að hlaupa í skarðið. Ég þekkti vörurnar og þegar maður var búinn að læra að leggja saman og draga frá var þetta í lagi. Bragi var einstakur og sorglegt að þetta gekk ekki lengur hjá honum. Það vantar fleiri svona menn – glaðlega og með góða þjónustulund á stað eins og Hólagarð.“

Höfum von um inniaðstöðu fyrir fótboltann

Þótt miklar úrbætur hafi verið gerðar á Leiknissvæðinu skortir enn á nægilega góða aðstöðu fyrir starfsemi félagsins. “Það er alveg rétt, okkur vantar hálft knatthús – knatthús af hálfri stærð þar sem hægt væri að sunda æfingar að vetrinum. Þótt við séum komnir með ágætan fótboltavöll þá dugar útivöllur ekki til notkunar allt árið. Veðráttan er þannig og við ráðum henni ekki. Ég tel þó að við munum sjá fyrir endann á þessum vanda innan tíðar. Viðræður eru farnar af stað á milli félagsins og borgaryfirvalda en svona verkefni tekur alltaf sinn tíma. Við erum með um 200 iðkendur og ég hef trú á því að með því að fá hús og auðvelda þannig vetrarstarfið myndi fjölga þeim í að minnsta kosti 400. Og síðan væntum við árangurs af TUFF verkefninu. Ég get séð fyrir mér að yfirbyggt knatthús á Leiknissvæðinu myndi geta þjónað allt að 70% fótboltaiðkenda í Breiðholti og um 35% þeirra eru í göngufæri við Leiknissvæðið. Ef við getum vígt knatthús á fimmtugsafmæli Leiknis eftir sex ár þá verður það sú mesta afmælisveisla sem félagið gæti boðið upp á og stærsta tillegg borgaryfirvalda til íþróttastarfs í Efra Breiðholti og fótboltastarfs í öllu Breiðholtinu.”

You may also like...