Fjölgun íbúða við Vesturbugt

Tölvugerð mynd af fyrirhuguðum byggingum á Allianz reitnum.

Ætlunin er að fjölga verulega íbúðum við Vesturbugt á hafnarsvæðinu. Samþykkt hefur verið í borgarráði að breyta deiliskipulagi Vesturbugtar, hins svokallaða Allianz reit til þess að koma fyrir fleiri byggingum en eldra deiliskipulag gerði ráð fyrir. Ekki varð samstaða í borgarráði þar sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðust gegn breytingunni á þeirri forsendu að um of mikla fjölgun bygginga væri að ræða sem breyta myndi heildaryfirbragði byggðarinnar mjög mikið auk þess sem hótelrekstur á svæðinu stingi í stúf við styrkingu íbúðabyggðar.

Umræddur reitur er í eigu Reykja­vík­ur­borgar og hyggst borgin selja hann ásamt bygg­inga­rétti þegar deili­skipu­lag hef­ur verið samþykkt. Bygg­ing­arn­ar verða alls 8.100 fer­metr­ar, þar af 6.700 fer­metr­ar of­anj­arðar og bíla­kjall­ari með 45 stæðum verður 1.400 fer­metr­ar að flat­ar­máli. Fjölmargar athugasemdir bárust við fyrirhugaða breytingu og munu íbúar við Mýrargötu 26 einkum vera ósáttir við þessar fyrirhuguðu framkvæmdir. Í athugasemdum frá húsfélaginu kemur fram flest­ir þeirra sem keypt hafi íbúðir í hús­inu hafi gert það vegna mann­lífs sem einkenn­ir hverfið og ná­lægðar við höfn­ina. Kaup­verð íbúða hafi verið fremur hátt og tekið mið af staðsetn­ing­ húss­ins og þess út­sýn­is sem er frá íbúðum.

You may also like...