Seltjarnarnes er minn uppáhaldsstaður

lovisa-1

Lovísa Thompson.

Lovísa Thompson er einn öflugasti íþróttamaður á Seltjarnarnesi. Hún var kjörin íþróttamaður æskunnar hjá Gróttu fyrr á þessu ári. Lovísa er aðeins 16 ára gömul – að verða 17 og hefur stundað handboltann hjá Gróttu frá níu ára aldri. Í dag æfir hún og leikur með meistaraflokki kvenna en spilar einnig með 3. flokki. Í umsögn um hana í tilefni af útnefningu hennar sem íþróttamanns æskunnar segir meðal annars að hún hafi tekið gríðarlegum framförum á liðnu ári og sé orðin ein af lykilleikmönnum í meistaraliði Gróttu. Hún er talin einn efnilegasti handboltamaður landsins og hefur verið valin í U18 ára og U20 ára landsliðið þrátt fyrir að vera undir þeim aldursmörkum. Lovísa hefur tvisvar orðið Íslandsmeistari með Gróttu og valin í A-landslið kvenna í handbolta. Nesfréttir spjölluðu við hana á dögunum.

„Ég var á sjötta árinu þegar ég flutti á Seltjarnarnes og byrjaði þá um haustið í fyrsta bekk í Mýrarhúsaskóla. Ég hef búið á Nesinu með móður minni og fósturföður en faðir minn býr nú í Eistlandi þar sem hann starfar en ég hef alltaf verið í sambandi við hann. Ég á eina alsystur og tvær fóstursystur sem eru nokkru eldri en ég. Önnur þeirra á nú von á barni og við bíðum spennt eftir því. Það eru allir spenntir fyrir að fá lítið kríli. Ég fór þessa hefðbundnu leið. Úr Mýró og upp í Való og síðan í Versló þar sem ég stunda nú nám. Við áttum heima í Finnlandi í níu mánuði þegar ég var fjögurra til fimm ára en svo skildu leiðir foreldra minna. Ég man ekki mikið eftir þeim tíma en þó að við áttum hús með arineldi og gufubaði eða sauna eins og Finnarnir kalla það. Nei – ég lærði ekkert í finnsku því ég var í enskum leikskóla og hef ekki komið þangað síðan.“

Krakkarnir kynnast nokkuð vel

Lovísu finnst svolítið sérstakt að vera ekki í skóla á Seltjarnarnesi. „Það eru fáir krakkar í hverjum árgangi á Nesinu sem þýðir að flest þeirra kynnast nokkuð vel. Við þekkjum hvort annað með nöfnum þótt samskiptin fari eitthvað eftir áhugamálum hjá hverjum og einum. Svo breytist þetta og hópurinn dreifist meira þegar kemur að framhaldsskólanum.“ Lovísa segir flesta krakka af Nesinu annað hvort fara í MR eða í Versló. Eftir að erfiðara hafi orðið að komast í þá skóla fari sumir í Kvennó og aðrir í MS. Engu að síður sé vinahópurinn af Nesinu nokkuð samheldinn þótt hann skiptist á milli skóla.

Prófaði þetta allt

Íþróttirnar tengja marga krakka af Seltjarnarnesi og íþróttahúsið hefur verið eins og annað heimili Lovísu um lengri tíð. Hún kveðst ekki muna nákvæmlega eftir því þegar hún kom fyrst í Gróttu en alla vega ekki löngu eftir að fjölskyldan flutti á Nesið. „Ég byrjaði aðeins í fimleikum og var líka í fótbolta, handbolta og dálítið í sundi. Ég prufaði þetta allt saman en mér líkaði alltaf best við handboltann og svo fór að ég lenti það. Ég er að vísu ekki mjög hávaxin en þetta hefur alveg sloppið þótt gott sé að vera í hærra lægi í skyttunni. Sprengikrafturinn skiptir líka miklu og maður verður bara að nýta það sem maður hefur.“

lovisa-thomsson-2

Lovísa Thompson í leik með Gróttu gegn Stjörnunni í vor þegar Grótta vann sinn annan Íslandsmeistaratitil, þar sem Lovísa hefur verið lykilmaður í liði Gróttu.

Dagurinn alveg fullskipaður

Lovísa er búin að vera sjö ár í handboltanum eða frá því hún var á tíunda aldursári og hyggst halda áfram af fullum krafti. „Ég var mjög snemma viðloðandi íþróttahúsið – hreinlega hékk þar öllum stundum svo það var snemma ljóst að hverju myndi stefna. Áhuginn var þar og þar vildi ég helst vera.“ En hvernig er dagurinn hjá Lovísu. Í fullu námi í framhaldsskóla og í nær stanslausum æfingum fyrir handboltann. Hún þarf ekki að hugsa sig um. „Hann er alveg fullskipaður. Frá morgni til kvölds. Ég fer í skólann á morgnana og er að jafnaði fram til kl. þrjú. Þá fer ég yfirleitt heim til að líta yfir skólaverkefnin og læra fyrir næsta dag og svo taka æfingarnar við. Nei – það er ekki mikill tími fyrir hefðbundið félagslíf en bestu vinkonur mínar eru með mér í handboltanum. Ég reyni eftir getu að hitta bestu vini mína af Nesinu um helgar. Þegar maður er kominn á annað árið í Menntó er orðið meira partýstand á krökkum en ég get ekki verið mikið á djamminu og kem eiginlega ekki nálægt því. Ég er líka mikið á móti áfengi og markmið hjá mér að snerta það ekki. Ég reyni því halda mér sem lengst frá þessu.“

Eins og vera kastað í djúpu laugina

Lovísa segir að uppeldið í Való eigi sinn þátt í þessu. „Þar var hlúð mjög vel að okkur krökkunum og það er ekki mikið um áfengis- eða aðra vímuefnaneyslu á Seltjarnarnesi. Maður var eins og vafinn inn í bómull.“ Svo breytist það við framhaldsskólann. „Já, það breytist og það er eins og manni sé kastað út í djúpu laugina. Maður þarf að gæta sín sjálfur. Mig langar að geta verið barn eins lengi og hægt er. Þurfa ekki að fullorðnast alveg strax.“ Spurð um kærasta er Lovísa fljót til svars. „Nei – ég á ekki kærasta og þótt maður viti aldrei hvenær slíkt gerist þá held ég að það verði að bíða eitthvað. Ég er í miklu prógrammi í handboltanum og stefni á að komst lengra. Það gengur fyrir öllu þannig að það er engin tími fyrir strákastand – en ef það gerist, þá gerist það.“

Markmiðið er atvinnumennska

Markmið Lovísu er að verða atvinnumanneskja í handboltanum. „Já – ég hef mikinn áhuga á að komast til Norðurlandanna eða Evrópu. Ég verð að klára Versló en gæti hugsanlega farið að spá í framhaldið með einhverju háskólanámi. Atvinnumennskan er draumur sem mig langar að gera að veruleika. Það eru nokkrar stelpur að spila erlendis og mig langar að gera þetta þótt það yrði ekki nema eitt eða tvö ár. Þessi tími kemur ekki aftur. Svo tekur framhaldsnám við og vonandi heimilisstofnun og barneignir síðar.

Seltjarnarnes er uppáhaldsstaður

Seltjarnarnes er uppáhaldsstaður Lovísu Thompson og þar vill hún helst vera. „Nei – ég hef engan áhuga á að flytja burt nema þá til tímabundinnar handboltaiðkunar og ef til vill náms erlendis. Ég segi stundum við mömmu að þegar ég verði á Íslandi þá vilji ég vera á Seltjarnarnesi. Hér er allt á sama stað og maður er þrjár til fjórar mínútur að hjóla á milli. Ég elska hjólið mitt og hjóla á hverjum degi. Já – ég hef prufað að hjóla upp í Versló. Er svona 20 mínútur á leiðinni en ég hjóla ekki þangað á hverjum degi. Námsbækurnar eru þykkar og maður er með þunga skólatösku. Getur verið vont fyrir bakið. Ég vil heldur eyða orkunni í æfingar.“

You may also like...