Gert er ráð fyrir að rekstrarafgangur A-hluta verði 6.5 m.kr.

Lögð hefur verið fram fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir næsta ár og einnig þriggja ára áætlun árin 2019 til 2021 en það er langtímaáætlun sem sveitarfélögum er skylt að gera. Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri fylgdi frumvörpum að fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2018 og langtímaáætlun árin 2019-2021 úr hlaði nú við fyrri umræðu um þær. Gert er ráð fyrir að síðari umræða og afgreiðsla áætlunarinnar verði í bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar 29. nóvember nk.

Samkvæmt framlagðri fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir að rekstrarafgangur A-hluta bæjarsjóðs verði um 6,5 milljónir og í A og B-hluta um 37 milljónir. Veltufé frá rekstri er áætlað að verði 388 milljónir. Framlegð er áætluð 3,3%. Fjárhagsstaða Seltjarnarnesbæjar er sterk, skuldir langt undir viðmiðunarmörkum samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga en þar er mælt fyrir um að skuldir megi ekki vera hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum. Í framlagðri áætlun er gert ráð fyrir að skuldahlutfall í árslok 2018 verði 49,9%. Í forsendum fyrir fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar er gert ráð fyrir að álagningarhlutfall útsvars verði óbreytt eða 13,7% og að álagningarhlutfall fasteignaskatta lækki úr 0,20% í 0,18%. Þá er gert ráð fyrir að íbúum fjölgi um 1% á næsta ári. Á árinu 2018 er gert ráð fyrir áframhaldandi framkvæmdum við hjúkrunarheimilið og stækkun íþróttamiðstöðvarinnar og einnig byggingu sambýlis við Kirkjubraut.

You may also like...