Verið að auka fjölbreytni í hverfismiðbæ Breiðholts

Sambíóin eru við Álfabakka 8. Garðheimar munu verða í næsta nágrenni við Álfabakka 6.

Nýir Garðheimar munu rísa á lóðinni við Álfabakka 6 á milli Mjóddarinnar og Reykjanesbrautar en þessi hluti hennar er óbyggður. Þetta er sama lóðin og ætlunin var að úthluta Heklu hf. fyrir bílaumboð. Ekkert varð hins vegar úr þeim fyrirætlunum. Byggingin sem rísa mun á lóðinni á vegum Garðheima verður alls 7.375 fermetrar. 

Um er að ræða stálgrindahús úr einingum sem framleitt verður í Hollandi og flutt hingað til lands. Byggingin verður á einni hæð ásamt millihæð fyrir skrifstofu og matsal starfsfólks. Gert er ráð fyrir að auk garðyrkjumiðstöðvar verði plöntu- og gjafavöruverslun líkt og Garðheimar reka í dag. Einnig er hugmyndir um rými fyrir tengda starfsemi svo sem verslunarrekstur og veitingastarfsemi annarra aðila. Vínbúðin er í Garðheimum í dag og lýkur til að hún muni flytjast á hinn nýja stað ásamt annarri starfsemi sem er á gömlu Garðheimalóðinni. Gert er ráð fyrir að byggð verði ný framlenging við Álfabakka og aðkoma að nýjum Garðheimum fari um hana. Með þessari breytingu munu Garðheimar flytjast inn í sjálfa Mjóddina en starfsemi þeirra hefur verið á mörkum norður og suður Mjóddar.

Ástæður þess að núverandi aðstaða Garðheima við Stekkjar-bakka verður að víkja er ný íbúðabyggð sem fyrirhuguð er í Norður Mjóddinni. Áður en Borgarráð Reykjavíkur samþykkti að veita Garðheimum vilyrði fyrir lóð ásamt byggingarrétti í Suður Mjódd hafði fyrirtækið sótt um lóð á þróunarsvæðinu við Stekkjarbakka Þ73 en fallið hefur verið frá þeim áformum. Garðheimar höfðu átt í viðræðum við Reykjavíkurborg um að flytja starfsemi sína á þróunarsvæðið Stekkjarbakka Þ73 á sama svæði og sóst eftir leyfi til þess að byggja gróðurhvelfingu. Bygging gróðurhvelfingar með tilheyrandi athafnasemi varð strax mjög umdeild. Slík framkvæmd hefði meðal annars haft í för með sér umhverfisrask, aukna bílaumferð og tilheyrandi fjölda bílastæða á mikilvægu grænu svæði í borgarlandinu. Engar upplýsingar um fjármagnsaðila eða rekstrarhæfi þeirrar framkvæmdar lágu fyrir og ekkert hefur heyrst af frekari áætlunum Aldo Biodom þess er sóttist eftir landi fyrir gróðurhvelfinguna. Telja má að Álfabakki 6 í Mjóddinni muni henta Garðheimum mun betur en að fara með starfsemi þeirra upp með Stekkjarbakka. Með því að færa Garðheima inn á Mjóddarsvæðið er verið að auka fjölbreytni starfsemi í hverfismiðbæ Breiðholtsins. 

You may also like...