Viljayfirlýsing um uppbyggingu á KR svæðinu
Borgarráð hefur samþykkt viljayfirlýsingu milli Knattspyrnufélags Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar um mögulega uppbyggingu á KR-svæðinu við Frostaskjól. Þar kemur meðal annars fram að borgin og KR láti í sameiningu vinna nýtt deiliskipulag fyrir svæðið samkvæmt þeim tillögum sem liggja fyrir og hafa verið kynntar í umhverfis- og skipulagsráði borgarinnar.
Í umræddum tillögum er gert ráð fyrir um að byggðir verði um 32 þúsund fermetrar til viðbótar þeirri aðstöðu sem fyrir er og nemur um 12 þúsund fermetrum. Gert er ráð fyrir að allt að 10 þúsund fermetrar verði nýttir fyrir íbúðabyggð og um 10 þúsund fermetrar undir verslun og þjónustu. Þá er í tillögunum gert ráð fyrir um 350 bílastæðum. Að þessum byggingum reistum yrði heildarbyggð á svæðinu um 35.800 fermetrar. Ákveðið hefur verið að fela umhverfis- og skipulagssvæði formlega deiliskipulagsvinnu í samstarfi við KR. Borgin mun kosta gerð deiliskipulagsins sem síðar verður hluti af uppbyggingarkostnaði þegar þar að kemur. Sú íbúðabyggð sem fyrirhuguð er gæti fjölgað íbúum á svæðinu við Kaplaskjólsveg um allt að fimm þúsund eða jafnvel meir sem myndi gera nýjar kröfur til KR og einnig auka möguleika þjónustuaðila á svæðinu. Landið sem um ræðir er í eigu KR, skv. þinglýstu afsali dagsettu 10. mars 1999. Reykjavíkurborg og KR eru sammála um að virðisauki sem kann að fást vegna aukins byggingarmagns á svæðinu skuli renna til ofangreindrar uppbyggingar fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf í Vesturbæ á vegum KR. Verður KR eigandi þeirra bygginga. Fáist nýtt deiliskipulag samþykkt er gert ráð fyrir því að gengið verði frá formlegum samningi milli Reykjavíkurborgar og KR um framkvæmdina þar sem fram komi áætlaður stofnkostnaður mannvirkja KR, forgangsröðun þeirra og frekari útfærsla, virðisauki vegna aukins byggingarréttar, tímaáætlun verkefnisins og leigusamningi við Reykjavíkurborg á viðkomandi mannvirkjum vegna hverfistengdrar þjónustu.