Skemmtilegt heilsueflingarstarf fyrir heldri borgara

Krafthópurinn í KR gaf sér aðeins smá stund fyrir myndatöku á dögunum. Síðan var aftur haldið af stað út á gólfið.

Kraftur í KR nefnast leikfimi- og heilsustundir fyrir heldri borgara eða fólk á eftirlaunaaldri í Vesturbænum. Þessar stundir eru á vegum félagsstarfsins á Aflagranda og fara fram í æfingasal í KR heimilinu. Guðjón Gunnarsson sér um þessar stundir og leggur áherslu á léttar og skemmtilegar hreyfingu og einnig að mynda góðan félagsskap þeirra sem taka þátt í þessu heilsueflingarstarfi. Aldursforsetinn í hópnum er 86 ára og mætir stöðugt. Konur hafa verið duglegri að mæta eins og oft vill verða í félagsstarfi en körlunum er að fjölga. Nýlega bættust fjórir karla í hópinn og ekki má útiloka að tengingin við KR geti hreyft við körlum ekki síður en konum. KR er gamla íþróttafélagið svo margra Vesturbæinga.

Þessar heilsustundir byggjast á allskonar hreyfingu og æfingum og leggur Guðjón mikla áherslu á fjölbreytileika. Þátttakendur ganga og körfuboltinn er einnig mjög vinsæll. Þarna er að ferð fólk sem aldrei hefur leikið körfubolta. Sumir tæpast vitað að hann væri til en það sem komið hefur á óvart er hvað eldra fólkið er áhugasamt og hefur gaman af honum. Körfuboltinn hefur líka þann eiginleika að liðka um handleggi og axlir. Það þarf að koma boltanum upp í körfuna. Guðjón leggur líka mikla áherslu á að hlusta eftir hvað fólk langar að gera og kallar jafnan eftir því að fólk láti vita af áhugamálum sínum. Dagskráin er því ekki skipulögð fyrir fram heldur aðlöguð áhuga fólks og getu – jafnvel frá einum tíma til annars. Fólkið telur sig hafa mjög gott af þessari hreyfingu og finnur fyrir greinilegum mun eftir nokkra mánuði. Skipulagið miðast þó við léttar æfingar en engum er talið holt að böðlast áfram. Þess má geta í lokin að rúta kemur að Aflagrandanum kl. 10.15 og stoppar síðan við Grandaveg 10.20 en heilsustundirnar byrja kl. 10.30. Fólkinu er síðan skutlað til baka á eftir. Þótt leiðin af Aflagranda niður í KR sé nánast gönguleið fyrir eldri sem yngri þykir ekki boðlegt að láta heldri borgarana ganga einkum vegna vetrarfærðar og hálku. Þegar tíðindamaður leit við í KR heimilinu á dögunum mátti sjá hressan hóp heldri borgara á fullri ferð og ánægjan skein út andlitunum.

You may also like...