Eigum að sameinast um að Breiðholtið fljúgi hærra
Magnús Þór Jónsson tók við skólastjórn Seljaskóla fyrir rúmu ári. Hann er fæddur Siglfirðingur að ætt og ólst upp fyrstu árin á Sauðanesi við Siglufjörð nánar tiltekið á Sauðanesvita. Fimm ára að aldri fluttist hann austur að Eiðum með foreldrum sínum og systkinum en tengslin við Siglufjörð og Sauðanes rofnuðu ekki því hann dvaldi þar öll sumur til 18 ára aldurs hjá afa sínum og ömmu. Hann hélt suður til náms eins og títt var og er um ungmenni af landsbyggðinni, lauk stúdentsprófi frá Flensborgarskóla í Hafnarfirði 1990 og síðar kennaraprófi frá Kennaraháskólanum. Hann fór að leika knattspyrnu með KS á Siglufirði í júlí 1986 og segir þá tengingu hafa orðið til þess að styrkja tengslin við heimahagana enda dvaldi hann þar meira og minna á sumrin á námsárum sínum. Breiðholtsblaðið leit við hjá Magnúsi á dögunum.
Er Magnús enn Siglfirðingur inn við beinið. “Siglufjörður hefur átt og á stóran hlut í mér, það að keyra út úr jarðgöngunum og inn í fjörðinn er ennþá eins og að vera að koma heim. Að kennaranámi loknu hélt ég til heimahaganna og fór að kenna við Grunnskóla Siglufjarðar. Tveimur árum síðar, árið 1996, lá leiðin þó aftur suður á bóginn og ég kenndi við Klébergsskóla á Kjalarnesi næstu tvö árin og þá hófst tengingin við ÍR því ég fór að leika knattspyrnu með félaginu. Ég færði mig síðan enn nær og stundaði kennslu við Breiðholtsskóla og sinnti deildarstjórn þar og þar má segja að kynni mín af Breiðholtinu hafi hafist fyrir alvöru. Þá ákvað ég einnig að hætta að spila fótbolta 28 ára gamall en snúa mér að þjálfun og starfaði sem þjálfari hjá Þór Akureyri, FH, Val og síðan ÍR.” Árið 2006 urðu nokkur straumhvörf hjá Magnúsi. Þá gerðist hann skólastjóri Grunnskóla Snæfellsbæjar. Tók að sér stjórn á nýjum skóla sem stofnaður var eftir sameiningu sveitarfélaga á utanverðu Snæfellsnesi. “Þá hætti ég að þjálfa í fótboltanum en endurnýjaði þess í stað knattspyrnudómaraskírteinið.” Magnús bjó á Hellissandi og starfaði sem skólastjóri í Snæfellsbæ um níu ára skeið að hann flutti suður ásamt núverandi eiginkonu sinni Helgu Lind Hjartardóttur og dætrum þeirra, Sigríði Birtu og Sólveigu Hörpu en Magnús á einnig tvær dætur frá fyrra hjónabandi þær, Thelmu Rut og Heklu Rut. Magnús er félagsmálamaður og hefur tekið mikinn þátt í félagsmálum ekki síst á Snæfellsárum sínum. Þá átti hann meðal annars sæti í stjórn Átthagastofu Snæfellsbæjar og í skólanefnd Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Magnús hefur lengi haft áhuga á þjóðmálum og var valinn í stjórn hjá stjórnmálasamtökunum Bjartri framtíð í febrúar 2011 og í lok árs 2012 var tilkynnt að hann tæki fjórða sæti á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi í alþingiskosningum árið 2013. Hann er líka mikill áhugamaður um að gera veg fótboltans í Breiðholti sem mestan og telur að þar eigi að skoða vandlega hvort að meira samstarf íþróttafélaganna geti búið til öflugri fótboltahefð í hverfinu.
Féll fyrir fólkinu, umhverfinu og íþróttafélaginu
En hvernig kom Breiðholtið Magnúsi fyrir sjónir. “Þetta er prýðileg spurning,” segir hann. “Ég get viðurkennt að því fylgdi svolítið sérstök tilfinning að flytja frá Siglufirði og í Breiðholtið á þeim tíma, í raun var það bara tilviljun að sú ákvörðun var tekin, leiguhúsnæðismöguleikar réðu því og segja má að Breiðholtið mæltist ekki allt of vel fyrir hjá sumum fjölskyldumeðlimum í byrjun en við ákváðum að láta reyna á það. Þess utan var mikill vinur minn að þjálfa í fótboltanum hjá ÍR og hafði áhuga á að fá mig þangað til að spila sem hentaði vel, maður hljóp eða hjólaði á æfingar eins og maður hafði getað gert á Sigló. Við bjuggum fyrstu þrjú árin í Flúðaselinu en fluttum okkur þá um set – niður í Kóngsbakkann sem er í meiri námunda við Breiðholtsskóla þar sem ég hóf störf haustið 1998. Hvað sem maður var að hugsa um Breiðholtið – umhverfi sem maður þekkti lítið nema af afspurn þá vandist þetta strax mjög vel. Ég féll eiginlega fyrir þessu hverfi, bæði fólkinu og umhverfinu, hvað þá íþróttafélaginu.”
Erum Breiðhyltingar til framtíðar
En af hverju hreifst Magnús af Breiðholtinu á þeim tíma sem ýmsir vindar blésu um byggðarlagið. Hann er fljótur til svars. “Sem kennari og uppeldisaðili hreifst ég strax af því hversu hverfið er barnvænt og þægilegt fyrir barnafjölskyldur. Í Bökkunum þurfa börnin tæpast að fara yfir umferðargötur á leið í skólann eða íþróttahúsið sem er mikill kostur og svipaðar aðstæður eru víðar í Breiðholtinu til dæmis hér við Seljaskóla. Það má segja að fyrri kynni mín af Breiðholtinu hafi orðið til þess að þegar kom að því að flytja aftur til höfuðborgarinnar eftir áratugs dvöl vestur á landi hafi ekkert annað komið til greina. Núverandi eiginkona mín hafði ekki búið í Breiðholtinu en varð strax áhugasöm um að koma og ég held að hún hafi aðlagast því vel rétt eins og ég á sínum tíma. Hún hefur alla vega ekki kvartað og við erum nýbúin að fjárfesta í raðhúsíbúð hér í hverfinu svo við erum Breiðhyltingar til framtíðar og erum afskaplega sátt við það.”
Heillaðist af margbreytileikanum
Magnús segir margt hafa breyst í Breiðholtinu frá því hann kom þangað fyrst og fór að fást við kennslu og þjálfun í fótboltanum þótt megin einkennin um barnvænu byggðina séu þau sömu. “Flest hefur breyst til batnaðar. Hér í Breiðholtinu er mikil flóra af fólki – fólk frá mörgum löndum og menningarsvæðum. Breiðholtið er því mjög áhugaverður vettvangur þegar horft er til mannlífsins. Fjölbreytileiki byggðarinnar er áhugaverður og ég er sannfærður um að unga fólkið sem elst upp í þessum mannlífspotti muni koma til með að njóta þess alla ævi. Í Breiðholtinu má upplifa hluti sem tæpast er hægt að finna annars staðar. Ég heillaðist mjög fljótt af þessu margbreytilega umhverfi og það er stöðugt að verða frjórra og flóran litríkari.”
Okkar að bjóða kraftana fram
En hafa þessar breytingar og fjölbreytni í mannlífinu ekki áhrif á skóla- og uppeldismálin. “Að sjálfsögðu,” segir Magnús. “Fjölbreytileikinn nær eðlilega inn í skólana og skólastarfið og einnig í íþrótta- og tómstundalífið. Þegar maður starfar við kennslu- og að uppeldismálum eins og ég geri þá horfir maður alltaf til þess hvernig gera megi betur. Auðvitað viljum við geta gert betur. Maður hugsar alltaf þannig. Samstarf skólanna í Breiðholti er mjög gott og við höfum verið að ná árangri á mörgum sviðum en þurfum að mínu mati að njóta meiri skilnings borgaryfirvalda. Stundum finnst mér að maður sé að slást of mikið við borgarkerfið. Flestir borgarfulltrúar búa í Miðborginni eða í nágrenni við hana en við erum lengra í burtu. Spurning er um hvort við þurfum að láta rödd okkar heyrast betur. Ég held þó að ekki sé rétt að kenna fólkinu sem situr í borgarstjórn og nefndum borgarinnar um allt heldur er það kerfið sem virkar svona, tilhneigingin er að standa vörð um miðborgina og nágrenni hennar þangað sem flestir gestirnir koma. Það er okkar íbúanna hér að vera tilbúin að bjóða okkar starfskrafta fram til þess að verða samfélaginu í Breiðholti til heilla.”
Fleiri málefni og ákvarðanataka til hverfisráðanna
Magnús segir að borgarmálin kalli á nýja nálgun í dag – að byggðakjarnarnir eða hverfin verði að fá að vera sjálfstæðari innan borgarheildarinnar. “Við þurfum að brjóta aðeins upp í borgarkerfinu. Hverfisráðin eru til en þau hafa ekkert formlegt vald og eiga því enga möguleika til þess að gera neitt annað en setja fram tillögur sem snerta heimabyggðina og reyna að fylgja þeim eftir í orði. Þegar kemur að endanlegri ákvarðanatöku þá er hún tekin annars staðar – yfirleitt í borgarráði. Það þarf að mínu mati að brjóta stjórnkerfið upp í minni einingar. Við búum það dreift að miðlægt kerfi hentar ekki nægilega vel. Frá mínum sjónarhóli og ég hygg margra fleiri í Breiðholtinu þá væri byggðinni til bóta ef fleiri málefni væru í höndum heimamanna. Ég tel að flytja eigi einhver málefni og þá einkum þau sem snerta nærþjónustuna hvað mest til hverfisráðanna. Skólamálin, félagsstarf barna og ungmenna og íþróttamálin koma þar fyrst í hugann. Hverfisráðin eru nærvettvangurinn. Það á að láta þeim eftir að taka ákvarðanir og að þau hafi fjármuni innan vissra marka til þess að nýta í þágu hverfisbúa án þess að ákvarðanir þeirra þurfi að fara fyrir borgarráð. Hægt væri á fjárlögum hverju sinni að úthluta hverfisráðunum tilteknum upphæðum og þau sæju síðan um að sinna ákveðnum verkefnum. Ég er ekki að tala um að draga eitthvað úr Miðborginni – alls ekki heldur að aukið sjálfræði eigi að vera hluti af okkar sérstöðu sem myndi gefa okkur tækifæri til þess að nýta mannauðinn í viðkomandi byggðum betur.”
Magnús segir hverfaskipulag Reykjavíkur með þeim hætti að auðvelt sé að auka sjálfsstjórn hverfanna eða borgarhlutanna eins og hann kýs að kalla þá. Hann bendir á Breiðholtið sem kjörna stjórnsýslueiningu og sama gildi um ýmsa aðra borgarhluta. “Ég held að við séum komin að þeim tímapunkti að borgaryfirvöld þurfi að taka á þessu máli. Með þessu yrði aukinni sjálfsstjórn komið á. Fólk yrði meðvitaðra um umhverfi sitt og sá mannauður sem býr í hverri byggð myndi nýtast betur.”
Gengur ekki að skólastjóri sé borgarfulltrúi
Þegar Magnús er inntur eftir hvort hann ætli að gefa kosta á sér til setu í borgarstjórn í kosningum á komandi vori kveður hann nei við því. “Ég held að það myndi ekki falla nægilega vel að starfi mínu sem skólastjórnanda. Það eru fordæmi fyrir slíku hér á landi en að mínu mati þá falla þessi störf ekki saman. Ég vil fremur stíga fastar á í skólastarfinu hér í Breiðholtinu og auka gæði þess. Samstarf foreldra hér er að minni hyggju einstakt á borgarvísu og við getum ekki horft fram hjá því að skólarnir eru hjarta hvers samfélags. Ég lít á Seljaskóla sem hjarta í hverfinu. Hér eru um 650 nemendur og um 100 starfsmenn. Það er nær 2000 manna samfélag í kringum skólann þegar foreldrar og aðrir aðstandendur eru taldir með.”
Hægt að gera Breiðholt að stórveldi í fótbolta
Að fótboltanum. Er hægt að gera Breiðholt að stórveldi á þeim vettvangi. “Ég fer ekki í neinar grafgötur með að það er hægt. En til þess verður við að nýta allt sem við höfum – bæði mannauð og mannvirki. Íþróttafélögin hafa ákveðnu hlutverki að gegna í samfélaginu bæði fyrir tómstunda- og keppnisíþróttir. ÍR er sennilega stærsta íþróttafélag landsins með gríðarlega öflugar greinadeildir og áhersla á margvíslegt starf og innviðir félagsins allt aðrir en í Leikni sem snýst nær eingöngu um fótboltann. Staðan í reykvískum fótbolta hefur gjörbreyst á síðustu árum og nú er svo komið að félögin í Breiðholti eru með minnstan iðkendafjöldann í íþróttinni, líklega yrðum við samanlagt með minnsta fjöldinn samt. Önnur félög hafa fengið innspýtingu með nýjum íbúðum og jafnvel heilu hverfunum inn á sín félagssvæði meðan aðeins hefur dregið úr hjá okkur í Breiðholtinu. Við eigum margt gott knattspyrnufólk, bæði karla og konur, úr hverfinu sem eru að spila í efstu deildum. Við eigum að horfa til þess að vera með knattspyrnulið í okkar hverfi fyrir þessa einstaklinga og eigum að velta við öllum mögulegum steinum til að svo megi verða. Við verðum að vera tilbúin að horfa til þess hvernig við náum árangri í fótboltanum með þann mannauð sem býr í hverfinu líkt og við erum að sjá hjá öðrum íþróttagreinum þess sem eru allar reglulega að keppa á hæsta mögulega sviðinu. Mér finnst þessi skoðun mín vera töluvert meira rædd nú þegar ég kom til baka og góð tilfinning fyrir samstarfi, þó ég viti að umræða um sameiningu sé viðkvæm enda bæði félögin rótgróin og sprottin upp úr gríðarlegri sjálfboðavinnu og hugsjón. Við eigum að vera óhrædd við að skoða hvar við gætum strax bætt okkur og reyna að byggja á því. Mér finnst t.d. borðleggjandi að sameinað lið hjá konunum væri stórt skref til að auka veg kvennaíþrótta í Breiðholti sem virkilega þarf að gera. Við eigum að horfa til þess í fótboltanum eins og við eigum að gera í öllu varðandi hverfið okkar, við eigum að standa saman um það að Breiðholtið fljúgi hærra en nú og standist alls staðar samanburð. Það er þess rétti staður.“