Öflugt hverfarölt í Breiðholti sameinar íbúa
Hverfarölti, þar sem foreldrar grunnskólabarna taka sig saman um að hafa eftirlit með byggðarlaginu, er nú haldið úti í Breiðholti þriðja árið í röð. Röltið byggist á samvinnu allra grunnskóla og félagsmiðstöðva í Breiðholti. Ætlunin er að reyna virkja sem flesta í röltið og fá almenna sýn á það hvað hægt er að gera til að efla öryggis- og eftirlitsvitund í garð náungans, barna okkar og unglinga, og umhverfisins almennt. Kristín Steinunn Birgisdóttir fyrir hönd foreldra barna í Ölduselsskóla, Ragnheiður Davíðsdóttir frá Seljaskóla, Sveinn Hjörtur Guðfinnsson fyrir hönd Hólabrekkuskóla og Valdís Vera Einarsdóttir frá Breiðholtsskóla spjölluðu við Breiðholtsblaðið á dögunum.
Þau segja að markmiðið með hverfaröltinu sé að vera sýnileg, fylgjast með því að lögbundinn útivistartími barna og unglinga sé virtur og koma í veg fyrir hópamyndun unglinga eftir að lögbundnum útivistartíma er lokið. Foreldraröltinu er einnig ætlað að draga úr áfengis- og fíkniefnaneyslu unglinga með því að efla og styrkja foreldra í uppeldishlutverki sínu. Á röltinu er kannað hvað fer fram í hverfunum á kvöldin og reynt að ná sambandi við þá unglinga sem eru úti við og ræða við þá. Áhersla er lögð á að vera í nágrenni við félagsmiðstöðvarnar. Þau segja nauðsynlegt að vera til staðar og jafnframt er mikilvægt að koma á tengslum milli foreldra í hverfinu. Áhersla er lögð á að hverfaröltinu sé ekki ætlað að koma í stað lögreglu. Röltið hefur ákveðið forvarnargildi og haft er að leiðarljósi að efla öryggistilfinningu hjá börnum og unglingum með því að vera sýnileg í hverfunum.
Samstarf foreldra er lykilatriði
Þau hvetja foreldra til þess að fylgjast með og taka þátt í mikilvægu samfélagslegu verkefni sem stuðlar að vinsamlegu samfélagi. Þátttaka í hverfarölti sé tilvalið hópefli fyrir foreldra og íbúa hverfanna. Með því takast betri kynni með foreldrum sem á endanum eflir foreldrasamstarf og skilar sér í enn betri samfélagsbrag. Foreldrar barna í yngstu árgöngunum vinna einnig að forvörnum og hjálpa til við eftirlit með unglingunum með sinni þátttöku. Það dreifir líka álaginu á alla árganga og þessir foreldrar njóta einnig sömu aðstoðar síðar meir þegar þeirra börn eru komin á unglingastig. Það hefur skapast mikil samvinna milli foreldrafélaganna í Breiðholti síðustu ár og mikil samstaða er um að vinna enn öflugra starf í framtíðinni. Stjórnir foreldrafélaganna ásamt skólastjórnendum hafa hist reglulega yfir skólaárið og stillt saman strengi sína um ýmis mál enda liggur styrkur foreldra í að vera upplýst, virk og samstiga. Auk þess að funda eru foreldrafélögin með sameiginlega Facebook-síðu þar sem öflugt samtal og samstarf fer fram þess á milli.
Hvatningarverðlaun Heimilis og skóla
Kristín Steinunn Birgisdóttir segir að upphafið að samstarfi foreldrafélaganna megi rekja til samnýtingar bingóspjalda fyrir páskabingó fyrir nokkrum árum en síðan hafa ýmis verkefni bæst við, bæði stór og smá. Öskudag skipuleggja stjórnirnar í sameiningu að krakkar og fjölskyldur í Breiðholti gangi í hús og syngi og fá nammi fyrir og það er kynnt með skipulögðum hætti á Facebook-síðum foreldra, með tölvupósti og í Breiðholtsblaðinu. Félögin hafa einnig sent frá sér sameiginlegar ályktanir síðastliðin misseri, svo sem áskorun um að breyta reglum um kynningar íþróttafélaga og gjafa, þá helst með reiðhjólahjálmana í huga og ályktun um sparnað í skólakerfinu. Félögin létu til sín taka þegar samningar við grunnskólakennara drógust á langinn auk þess sem send var áskorun til borgaryfirvalda um að gjaldfrjáls námsgögn fyrir börn í grunnskólum Reykjavíkur. Sú áskorun var ítrekuð á dögunum. „Eitt af okkar verkefnum er einnig að halda sameiginlega fræðslufyrirlestra sem hafa fengið góðar undirtektir foreldra. Það er gaman að segja frá því að foreldrafélögin fimm hlutu Hvatningarverðlaun Heimilis og skóla nú í ár fyrir mikilvægt samstarf sem hefur forvarnargildi og jákvæð áhrif á nærsamfélag með hagsmuni foreldra, nemenda, skóla og samfélags að leiðarljósi.“ Þau rifja upp gamla máltækið að heilt þorp þurfi til þess að ala upp barn. Það eigi svolítið við í þessu tilviki þar sem foreldrar komi saman til þess að gæta barna og ungmenna. Hverfaröltið hafi reynst vel hér áður og var ákveðið að hafa samstillt átak allra grunnskóla í Breiðholti til að endurvekja foreldraröltið og efla með því hverfisgæslu í leiðinni.