Þurfum að þróa sjálfbærni í borgarhverfum

— segir Hildur Björnsdóttir lögfræðingur og borgarfulltrúi sem býr í Vesturbænum

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi.

Hildur Björnsdóttir lögfræðingur og borgarfulltrúi býr í Vesturbænum. Hún skipaði annað sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins við síðustu borgarstjónarkosningar en stjórnmálaferil hennar má rekja aftur til þátttöku í stúdentapólitíkinni þegar hún var við nám en auk lögfræðinnar er hún með BA próf í stjórnmálafræði. Hildur er þó ekki innfæddur Vesturbæingur heldur Hafnfirðingur þar sem hún er alin upp en segir að hún sé þó meiri borgarstelpa en gaflari. 

Þegar Hildur hitti tíðindamann Vesturbæjarblaðsins á Kaffi Vest á dögunum barst talið fyrst að uppruna hennar. “Ég er fædd í Bandaríkjunum en alin upp í Hafnarfirði. Faðir minn Björn Ingi Sveinsson, er héðan úr Reykjavík en móðir mín Katrín Gísladóttir er að norðan, frá Akureyri. Ég átti góða æsku í Hafnarfirði en hugurinn leitaði engu að síður til borgarinnar. Ég stundaði framhaldsskólanám í Verzló og háskólanám við Háskóla Íslands. Ég er meiri stórborgarstelpa en útbæjarborgari og þótt Reykjavík sé ekkert sérstaklega stór þá er hún stærri en Hafnarfjörður. Ég færði mig því til Reykjavíkur. Hafnarfjörður er samt ótrúlega huggulegur bær og gott að búa þar. Þar er ákveðin bæjarstemning og ég er ekki frá því að sambærilega stemningu megi finna hér í Vesturbænum. Andinn í samfélögunum er svipaður.”

Vann hjá Rétti og LOGOS

Varstu fljótt ákveðin að nema lögfræði. “Ég stundaði svolítið ræðumennsku á menntaskólaárum. Mér þótti fátt skemmtilegra og langaði að starfa við eitthvað sem gat samtvinnað bæði ræðumennsku og rökræður. Lögfræðin var því upplögð þó reyndar hafi raungreinar ávallt verið mitt sterkasta fag. Ég var undir töluverðri pressu frá nærumhverfinu að læra verkfræði eða stærðfræði. Mér fannst ég því svolítill uppreisnarseggur að skrá mig í lögfræðina, eins undarlega og það kann að hljóma. Ég sé ekki eftir því. Áhuginn á stjórnmálum hafði þó einnig kviknað á þessum tíma og þó lögfræðin væri vissulega krefjandi skráði ég mig líka til náms í stjórnmálafræði. Ég lauk BA prófi í báðum fögum en lauk svo meistaraprófi í lögfræði. Samhliða náminu fór ég líka á fullt í stúdentapólitíkina og var um tíma formaður stúdentaráðs. Þetta var skemmtilegur tími og ómetanleg reynsla. Samhliða námi og eftir útskrift starfaði ég svo á lögmannsstofunni Rétti, en fékk síðar atvinnutilboð á LOGOS í London. Þó ég hafi vissulega verið að elta atvinnutækifæri við flutningana til London, má alveg segja að ég hafi líka verið að elta manninn minn sem hafði búið þar um tíma. Hann heitir Jón Skaftason og er innmúraður Vesturbæingur og KR ingur. Þegar við fluttum svo aftur til Íslands kom ekkert annað til greina af hans hálfu en að setjast að í Vesturbænum. Sjálf hafði ég búið í Vesturbænum á háskólaárunum og gat því vel hugsað mér að flytjast þangað heimkominn frá útlöndum.” 

Frelsi fylgdi fyrsta bílnum

Lundúnadvölin hefur haft áhrif á þig. “Hún hafði það. Þetta var frábær tilbreyting og ég mæli með að sem flestir prófi að búa erlendis. Það eykur víðsýni og víkkar sjóndeildarhringinn. Maður fær tækifæri til að sjá heiminn í öðru ljósi en lærir líka að meta allt það góða sem heimaslóðirnar hafa uppá að bjóða. Mér fannst ég kynnast ýmsu sem ég þekkti ekki áður og eitt af því fyrsta voru breyttar ferðavenjur. Hafandi alist upp í Hafnarfirði og stundað nám í Verzlunarskólanum þekkti ég vel hvernig var að ferðast þennan spöl með strætó. Það var að mörgu leyti ágætt en tók vissulega langan tíma. Ég gleymi aldrei frelsinu sem fylgdi því að eignast fyrsta bílinn liðlega tvítug. Nærri allt skipulag höfuðborgarsvæðisins gerir ráð fyrir því að fólk ferðist um á bíl. Það gerir að verkum að bíllinn verður lang þægilegasti og eftirsóknarverðasti ferðamátinn. Í London kynntist ég allt öðrum veruleika. Þar gátum við farið allra okkar ferða án bíls og nýtt þá samgöngumáta sem í boði voru bæði ofanjarðar og neðan. Borgin hafði fjárfest í góðum almenningssamgöngum og öflugum göngu- og hjólaleiðum. Þessar áherslur leiddu til þess að langþægilegast og eftirsóknarverðast var að ferðast án bíls. Þveröfugt við það sem þekkist hérlendis. Þá blasti við sú augljósa staðreynd að samgöngumál og skipulagsmál eru svo órjúfanlega samofin. Besta leiðin til að breyta ferðavenjum hérlendis er með betra skipulagi, og auðvitað fjárfestingu í betri almenningssamgöngum.”

Hildur Björnsdóttir ásamt Jóni Skaftasyni eiginmanni sínum og börnum þeirra.

Lundúnaárin breyttu viðhorfinu

“Á háskólaárunum velti ég talsvert fyrir mér nýtingu bíla en flestir ferðast einir í bíl og taka þannig óþarflega mikið vegpláss. Við í stúdentaráði stofnuðum þá heimasíðuna skutl.is sem hafði það markmið að hvetja nemendur til samflots í bílum. Átakið gekk bærilega, ekkert meira en það, en ég hugsa að fólk sé orðið meðvitaðra í dag.” Finnst þér reynslan frá Lundúnaárunum móta viðhorf þitt til bílsins. “Hún gerir það vissulega. Það er mjög algengt hérlendis að fjölskyldur eigi að minnsta kosti tvo bíla. Við eigum þrjú börn en erum á einum bíl, sem keyrir að mestu á rafmagni. Mörgum þykir óhugsandi hvernig við komumst af. En þetta er ekkert mál. Það eru auðvitað ekki allir svo heppnir, en við erum svo lánsöm að starfa í miðborginni, sem er í göngufæri frá heimilinu. Flest okkar erinda þarfnast ekki bíls en það er gott að hafa hann og gjarnan mikið gagn af. Einkum til að skutla krökkunum í tómstundir, til stærri útréttinga eða til lengri ferðalaga. Þótt við séum fimm manna fjölskylda þá er einn bíll alveg nóg fyrir okkur.”

Vesturbærinn hentugur fyrir aðra samgöngumáta

Hildur segir að Vesturbærinn sé einkar hentugt búsvæði til að nota aðra samgöngumáta en einkabíl og fyrir bíllausan lífsstíl. “Vesturbærinn er þéttasta hverfi borgarinnar og þéttleikinn styður vel við þá blómlegu nærþjónustu sem hér hefur sprottið upp. Nærþjónustan hvarf mikið á ákveðnum tíma. Verslunarhættir breyttust og minni þjónustuaðilar gátu ekki keppt við þá stærri sem komið var á fót. Nú er þetta að breytast aftur. Nærþjónustan er að koma til baka. Það eru líka kynslóðaskipti í þessu eins og öðru. Yngra fólk vill hafa þjónustuna nálægt sér. Geta hlaupið út í búð en þurfa ekki að ferðast lengri leið í bíl til að ná í lífsnauðsynjar.” Hildur kveðst hins vegar ekki sammála hörðustu andstæðingum einkabílsins. “Bílar verða áfram hluti af tilverunni þar til tæknin finnur hugsanlega aðrar lausnir. Jafnvel björtustu spár um aukna notkun almenningssamgangna sýna að bílum mun áfram fjölga, þeim mun bara fjölga hægar. Mér finnst umræðan um samgöngumál gjarnan alltof svarthvít. Tali maður máli bílsins er maður álitinn algjörlega andsnúinn öðrum ferðamátum, og tali maður máli strætó eða hjólreiða er maður álitinn andvígismaður bíla. Þetta er svo ómálefnaleg nálgun og maður kemst ekkert áleiðis með svona umræðu. Þarna er millivegur. Við þurfum að sýna hvort öðru meiri sanngirni í umræðunni. Skipulag borgarinnar gerir ráð fyrir því að fólk ferðist á bíl, margir telja sig ekki komast af án bílsins. Þetta er skipulagsvandamál sem þarf að leysa. Ég vil skipuleggja borg með fjölbreyttum en sjálfbærum hverfum þar sem auðvelt er að sækja þjónustu gangandi. Borg sem þjónar ólíkum þörfum og býður íbúum frelsi og val um ólíkan lífsstíl. Borg þar sem auðvelt og aðgengilegt er að komast leiðar sinnar gangandi eða hjólandi, því þú þarft ekki sífellt að leita langt yfir skammt. Þetta skiptir ekki bara máli hvað varðar samgöngur, heldur ekki síður lýðheilsu. Fólk þarf að hreyfa sig meira.”

Þurfum að horfa meira í sálfræðina

Hringbrautin hefur verið mikið til umræðu að undanförnu. Hildur segir þær tillögur sem samþykktar hafi verið einróma í borgarstjórn vera til bóta. “Áherslan verður alltaf að vera á bætt öryggi vegfarenda. Þannig reyndist nauðsynlegt að lækka hámarkshraðann, en einnig stendur til að bæta lýsingu og grípa til annarra ráðstafana sem auka öryggi vegfarenda. Það er vissulega staðreynd að Hringbrautin er ekki aðeins gata í Vesturbænum heldur líka samgönguæð fyrir íbúa á Seltjarnarnesi. Það flækir málin umtalsvert. Auðvitað væri frábært að fá Hringbrautina í stokk. Þannig færi umferðarþunginn niður í jörðina en allt yfirbragð ofanjarðar væri mannvænt og vistlegt fyrir fólk. En það er nú ansi ólíkleg framkvæmd og þess vegna nauðsynlegt að takast á við stöðuna eins og hún er. Við þurfum að horfa meira í sálfræðina sem fylgir samspili umhverfis og hegðunar í umferðinni. Nærumhverfi vega sendir ökumönnum tiltekin skilaboð. Þetta er eitt af því sem við þurfum að skoða á Hringbrautinni. Íbúar hafa til dæmis kvartað undan bílum sem hefja spyrnu á kvöldin við umferðarljósin hjá JL húsinu. Ég bjó nú um tíma við þessi umferðarljós og þekki þetta vel. Mér finnst þessi hegðun á götunni umhugsunarverð. Hvers vegna dettur fólki í hug að hefja spyrnu á þessu svæði? Hér hlýtur hönnun götunnar að senda röng skilaboð. Lækkun hámarkshraða er ekki eina leiðin til að draga úr umferðarhraða. Við getum líka endurhannað yfirbragð götunnar, t.d. með auknum gróðri og breyttu yfirborðsútliti vega. Skapað umhverfi sem sendir þau augljósu skilaboð að börn séu á ferðinni. Betrumbætt hönnun getur þannig sent þau sálfræðilegu skilaboð til ökumanna að fara sér hægt og varlega. Þetta er hluti af verkefninu framundan.”

Of mikið byggt fyrir efnafólk

Talið berst að miðborginni. Þar hefur mikil uppbygging orðið að undanförnu svo sumum þykir jafnvel nóg um. Hildur segist hafa búið í miðborginni og kunnað vel að vera innan um mannlífið og erilinn sem því fylgir. Það sé þó ef til vill ekki fyrir alla. “Miðborgin er eins konar sparistofa okkar Reykvíkinga. Þar hittumst við á hátíðardögum og þar tökum við á móti erlendum gestum. Það vill þó stundum gleymast að í miðborginni býr einnig fólk. Blómlegt miðborgarlíf er vissulega gjarnan afleiðing aukins túrisma. En hér þarf að halda vel á spöðunum svo miðborgin verði ekki algjörlega undirorpin túrismanum. Í miðborginni þarf því að finnast verslun og þjónusta fyrir bæði ferðamenn og íbúa. Þetta getur verið flókið samspil. Mér finnst miðborgin ansi blómleg og þangað sæki ég mest í verslun. Fólk er gjarnan fljótt að gleyma og það virðist sem margir hafi gleymt þeim tíma þegar miðborgin var nánast tóm á kvöldin. Sást varla hræða á ferli eftir klukkan sex nema þá á síðkvöldum um helgar þegar fólk streymdi þangað til að sækja skemmtistaði. Helsti vandi miðborgarinnar er kannski sá að þar hefur heilmikil húsnæðisuppbygging átt sér stað, en uppbyggingin hefur ekki svarað eftirspurn á markaði. Þannig er eingöngu byggt fyrir efnameira fólk og lítið sem ekkert um eignir fyrir fjölskyldur eða fyrstu kaupendur. Fjölskyldum fer fækkandi í miðborginni, við sjáum þess glöggt merki á nemendatölum í Austurbæjarskóla, en nemendum skólans hefur fækkað umtalsvert síðustu árin. Við þurfum að huga vel að þessu næstu árin.”

Ákall á sjálfbær hverfi

Hildur segir hversdaginn hafa breyst umtalsvert hérlendis síðustu áratugi. Í dag þyki börnum sjálfsagt að hafa ferðast til útlanda, en það hafi verið mun fátíðara fyrir örfáum áratugum. Áhrif hnattvæðingarinnar séu áþreifanleg og tækifærin fyrir ungt fólk erlendis séu fleiri og aðgengilegri en áður. Þannig sé Reykjavík nú í meiri samkeppni við erlendar borgir um ungt fólk og atgervi. Fólk geri öðruvísi kröfur um lifnaðarhætti og lífsstíl. Þannig leggi yngri kynslóðir síður áherslu á að eignast stærri sérbýli og vilji fremur ráðstafa sínu fjármagni í ferðalög og upplifanir. Áfengismenning sé einnig að breytast talsvert frá því að vera verulega óhófleg um helgar yfir í að vera hóflegri aðra daga vikunnar. “Allar þessar breyttu kröfur og áherslur hafa svo áhrif á það hvernig við skipuleggjum borg. Það er aukið ákall á sjálfbær hverfi, öfluga nærþjónustu og fjölbreyttari möguleika í samgöngumálum. Einnig er stóraukin meðvitund um umhverfismál. Við þurfum að huga að öllum þessum þáttum í okkar skipulagsvinnu, líta til framtíðar og huga að því hvernig lifnaðarhættir eru að breytast.”   

Þurfum að þróa sjálfbærni í borgarhverfum

Reykjavík hefur vaxið nokkuð hratt á umliðnum árum og þá einkum til austurs þar sem ný borgarhverfi hafa risið. Nú hefur verið snúið frá þeirri þróun og horft til eldri borgarhluta og svæða sem mætti þétta. Um þetta sýnist sitt hverjum eins og gengur og þar má ef til vill greina mismunandi sjónarmið eftir aldri fólks. Yngra fólk horfir meira til þéttari byggðar meðal annars vegna samgangna og öflugri nærþjónustu sem gjarnan þrífst í slíku umhverfi. Er Reykjavík ef til vill komin á einhvern punkt þar sem hægja verður á eða stöðva útþensluna? “Við eigum alls ekki að þenja borgarmörkin meira út, mun fremur einbeita okkur að þeim hverfum sem þegar hafa byggst upp. Sum hverfi á enn eftir að klára, til dæmis Úlfarsárdalinn. Það hefur verið umframeftirspurn eftir íbúðarhúsnæði austarlega í borginni en atvinnutækifærum vestarlega. Þetta veldur tilteknum skipulagshalla sem sést best í samgöngustraumum. Þeir liggja vestur að morgni en austur síðdegis. Við þurfum að þróa öll hverfin meira í átt að sjálfbærni, þó þannig að þau haldi áfram sínum sérkennum. Þannig geti fólk sótt atvinnu, verslun og þjónustu innan hverfis og þurfi síður að ferðast um langan veg eftir nauðsynjum. Slíkt borgarskipulag gæti leyst fjölmarga umferðarhnúta. Því fylgir einnig talsverður umferðarþungi að fyrirtæki, stofnanir og skólar hefji almennt starfsemi sína á svipuðum tíma að morgni. Ef hægt væri að hnika þessu skipulagi til mætti einnig hafa marktæk áhrif á umferðarálag. Við erum að glíma við alls kyns áskoranir en þeim fylgja líka fjölbreyttar lausnir. Við þurfum ekki að finna upp hjólið, það er mjög einfalt að líta til erlendra borga sem hafa fengist við sambærilegar áskoranir. Þar komast flestir að sömu niðurstöðu, lausnin felst almennt í betur skipulagðri borg og stórefldum almenningssamgöngum.” 

Stórbætt þjónusta getur aukið notkun almenningssamgangna

Hildur nefnir Borgarlínuna sem verkefni af því tagi. “Upphaflegu áformin gerðu ráð fyrir að Borgarlína yrði lest. Þessi áform breyttust og nú er gert ráð fyrir hraðvagnakerfi á gúmmídekkjum, eins konar glamúr útgáfu af strætisvögnum – eða strætisvögnum með varalit. Enn eru þó einhverjir sem telja Borgarlínu vera lest og þetta hefur reynst erfitt að leiðrétta. Það er vont þegar umræða um stór mál fer út af vegi vegna þess að fólk fær ekki nægar eða réttar upplýsingar. Áform um Borgarlínu gera ráð fyrir nýstárlegum strætisvögnum, glæsilegri en þeim gulu og vagnarnir munu ferðast greiðlega um á sérakreinum. Einhverjir vonast til að þessir laglegu vagnar muni höfða til fleiri hópa, en helst standa vonir til þess að stórbætt þjónusta leiði til aukinnar notkunar. Það muni létta á vegakerfinu og hafa jákvæð áhrif á breyttar ferðavenjur. Borgarlína er þó enn á tilteknu hugmyndastigi og stundum svolítið glæfralegt hvernig stjórnmálamenn í borgarmeirihlutanum tala eins og verkefnið sé fullfrágengið og fullfjármagnað. Staðreyndin er sú að fjármögnun er óljós. Aðkoma ríkis og nágrannasveitarfélaga er ófrágengin og leiðakerfið er sannarlega ekki hafið yfir gagnrýni. Auðvitað mega stjórnmálamenn hugsa stórt og keyra verkefni áfram af krafti, það er hluti af starfinu, en þegar ráðist er í svo stórt verkefni þarf að vanda til verka. Stórum ákvörðunum, útfærslu samgöngulausna og meðför almannafjár fylgir heilmikil ábyrgð.”

Fjölbreytta borg fyrir alla

Þótt skipulags- og samgöngumál séu fyrirferðamest í umræðunni eru verkefni borgarinnar margvísleg. Hvað sér Hildur fyrir sér sem næstu skref Reykjavíkurborgar? Hún segir forgangsröðun verkefna vera tiltekið áherslumál. “Hérna birtist sennilega hvað skýrast, hugmyndafræðilegi ágreiningurinn í stjórnmálunum. Sjálfstæðisflokkur vill draga úr opinberum umsvifum, færa fleiri verkefni í hendur einkaaðila, leggja alla áherslu á öfluga grunnþjónustu og lækka álögur á íbúa. Við viljum tryggja íbúum frelsið til að sækja fram án íþyngjandi opinberra afskipta. Við viljum tryggja frelsið til verðmætasköpunar í gróskumikilli borg. Við viljum skapa borg þar sem fólk vill og getur valið að búa. Borg sem hentar ungu fólki, fjölskyldufólki og eldra fólki. Fjölbreytta borg fyrir alla. Við erum í minnihluta í borgarstjórn sem stendur og gegnum þar tilteknu eftirlitshlutverki. Ég hef þó ekki látið veruna í minnihlutanum aftra mér frá því að hrinda góðum og uppbyggilegum hugmyndum í framkvæmd. Þetta verður líka að vera skemmtilegt.” 


You may also like...