Vilyrði fyrir 12.500 fm. svæði í jaðri Elliðaárdals

Á þessari tölvugerðu mynd má sjá hvernig fyrirhugaðra byggingar muni falla að umhverfinu neðan Stekkjarbakkans.

Borgarráð samþykkti 6. desember sl. að veita félaginu Spor í sandinn ehf. vilyrði fyrir lóð við Stekkjarbakka í Breiðholti en ætlunin er að byggja þar gróðurhvelfingu fyrir ALDIN BioDome. Svæðið er við Elliðaárdal og 12.500 fermetrar að stærð og má þar reisa byggingar allt að 3.800 fermetrum. Samkvæmt fyrirliggjandi teikningum eru mannvirki BioDome allt að 20 metra há en eru töluvert niðurgrafin þannig að um 12 til 13 metrar standa upp úr núverandi landhæð. Áður fyrr hafði verið veitt lóðarvilyrði upp á 5.000 fermetra lóð og byggingu mannvirkis á 1.500 fermetrum. Er því um mun stærra svæði að ræða.

Hjördís Sigurðardóttir skipulags- og matvælafræðingur og stofnandi Spor í sandinn.

Á heimasíðu Spors í sandinn kemur fram að verkefnið ALDIN BioDome hafi tekið hröðum breytingum og því sé þörf fyrir meiri byggingar en áður. Því var lóðarvilyrðið uppfært og er nú gert ráð fyrir að starfsemi á svæðinu auki atvinnutækifæri í Breiðholtinu, styrki þjónustu og hafi almennt jákvæð áhrif á hverfið. Á heimasíðunni kemur fram að Spor í sandinn eigi nú í samstarfi við Reykjavíkurborg er unnið er að því að BioDome Reykjavík rísi í miðju höfuðborgarsvæðinu, í jaðri Elliðaárdals norðan Stekkjabakka. Verkefnið byggir á þyrpingu gróðurhvelfinga sem samhverfast um stærri kjarna og markaðstorg og mynda eina heild og skapa vistvænt, nærandi umhverfi, upplifun og sterkan staðaranda. Á síðunni segir einnig að með snjallri nýtingu jarðvarmans verði gróðurhvelfingarnar einskonar græn lungu, vin frá hinu hversdagslega amstri og hver þeirra hafi sínu hlutverki að gegna. Í stærstu einingunni er gert ráð fyrir fjölnota torgi í heittempruðu umhverfi. Þar er gert ráð fyrir afgreiðslu og upplýsingaþjónustu, veitingastaði, verslun og markaðstorg og afdrep auk snyrtingar. Samkvæmt upplýsingum frá Spor í sandinn er gert ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist á næsta ári. Stofnandi fyrirtækisins er Hjördís Sigurðardóttir skipulags- og matvælafræðingur.

Tölvugerð nærmynd af gróðurhúsunum.

You may also like...