NESIÐ OKKAR – RAFRÆN ÍBÚAKOSNING

Seltjarnarnesbær hefur nú sett í gang nýtt samráðsverkefni íbúa og bæjarins um forgangsröðun og úthlutun fjármagns, 10 milljónir króna til smærri nýrra framkvæmda og viðhaldsverkefna á Seltjarnarnesi í sumar. Um er að ræða sambærilega nálgun og íbúakosningu líkt og nágrannasveitarfélög okkar hafa gert með „Okkar Kópavogur“ og „Okkar Mosó“. Verkefnið NESIÐ OKKAR er til þriggja ára og því fara 30 milljónir króna í framkvæmdir sem skipulagðar verða með þessum hætti á árunum 2018-2020.

Öllum bæjarbúum, 16 ára og eldri og með lögheimili á Seltjarnarnesi gefst kostur á og eru í raun eindregið hvattir til að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni en það skiptist í þrjá hluta; hugmyndasöfnun, íbúakosningu og framkvæmd. Samráðsvettvangurinn fer fram á netinu á nesid-okkar.betraisland.is og er opinn öllum til skoðunar og þátttöku gegn skráningu og samþykki notendaskilmála.

Helstu tímasetningar vegna NESIÐ OKKAR 2018 eru eftirfarandi:

·  20. febrúar – 11. mars:  Hugmyndasöfnun fer fram á hugmyndavef verkefnisins. Seltirningar geta bæði sett inn sínar eigin hugmyndir, bætt við eða stutt hugmyndir annarra og komið með ábendingar.

·  27. febrúar kl. 17.30 – 19.00:  Íbúafundur í Valhúsaskóla þar sem verkefnið verður kynnt og íbúum býðst að skila inn hugmyndum á staðnum.

·  12. mars – 9. apríl:  Allar hugmyndir verða metnar af tveimur matshópum á vegum bæjarins. Fyrst verður kannað hvort að hugmyndin falli undir skilyrði verkefnisins og svo lagt mat á kostnað við hönnun og framkvæmd þeirra hugmynda sem það gera. Að lokum verður valið úr og stillt upp 20 verkefnum fyrir íbúa að kjósa um í íbúakosningu á netinu.

·  10. apríl – 24. apríl:  Rafræn kosning Seltirninga um verkefni til framkvæmda sumarið 2018.

·  26. apríl:  Úrslit kosninganna opinberaðar. Í framhaldi fara undirbúningur og útboð í gang sem og framkvæmdir í ferli þannig að þeim ljúki innan ársins.

Allar hugmyndir íbúa eru vel þegnar en til þess að hugmyndir komist áfram í íbúakosningu þurfa verkefnin að uppfylla ákveðin skilyrði. Þau þurfa að til að mynda að:

  • ·  Nýtast hverfi eða íbúum bæjarins í heild.
  • ·  Vera til fjárfestinga en ekki til rekstrar.
  • ·  Vera framkvæmanleg án mjög flókins undirbúnings.
  • ·  Líftími fjárfestingar skal vera að lágmarki fimm ár.
  • ·  Tillögur samræmist skipulagi og/eða stefnu Seltjarnarnesbæjar.
  • ·  Vera á fullu forræði Seltjarnarnesbæjar (innan bæjarmarka og ekki á landi í einkaeigu).
  • ·  Kostnaður einstakra verkefna sé ekki lægri en 1 mkr. og ekki hærri en 3 mkr.

Ítarlegar upplýsingar um fyrirkomulagið og skilyrði fyrir þátttöku er að finna á heimasíðu bæjarins og á nesid-okkar.betraisland.is. Með verkefninu NESIÐ OKKAR er markmið bæjaryfirvalda að skapa aðstæður þar sem að íbúar geta tekið þátt í samráði með stjórnsýslunni, haft skoðanir á nærumhverfi sínu, forgangsraðað og útdeilt fjármagni í smærri framkvæmdir á vegum bæjarins. Bundnar eru vonir við það að sem flestir nýti sér tækifærið og komi sínum hugmyndum og skoðunum á framfæri. Það er einfalt að taka þátt!

You may also like...