Á fimmta tug bensínstöðva fara

– fjórar í Breiðholti

Bensínstöðvar við Stekkjarbakka, Skógarsel, Álfabakka og Suðurfell í Breiðholti eru á meðal þeirra sem eiga að víkja fyrir þjónustu og íbúðabyggð. Samningar hafa náðst við öll olíufélögin í Reykjavík um fækkun bensínstöðva í íbúða­hverfum í samræmi við stefnur borgarinnar í loftslags og lýðheilsu­málum. Með þessu er borgin að flýta fyrir umbreytingum í átt að þéttingu byggðar með aukinni áherslu á vistvænar samgöngur. 

Á fimmta tug bensínstöðva eru í Reykjavík og þær búa yfir landrými sem gæti rúmað allt að 1400 íbúðir. Uppbygging hefst á næstu árum. Það er í forgangi að fækka stöðvum innan íbúða­byggð­ar og þar sem þær hafa áhrif á ásýnd og yfirbragð byggðar. Þá er horft til lóða þar sem eru sérstök tækifæri til að þétta byggð og efla þjónustu og almenningssamgöngur í hverfum. 

Samninganefnd á vegum borgar­innar var falið að líta á þessu mál heildstætt og leiða viðræður við öll olíufélögin og rekstraraðila. Með þessi var talið að hægt væri að setja hagsmuni borgarinnar í forgang og flýta fyrir jákvæðri þróun byggðar.

Lóðaleigusamningar við olíu­félög hafa gjarnan verið lang­tímasamningar, oft með flóknum uppkaupsákvæðum. Með því að semja við öll olíufélögin á svipuðum grundvelli var hægt að hraða umbreytingum en í stað bensínstöðva munu rísa íbúða­byggingar, með eða án atvinnu­húsnæði á jarðhæð. Olíu­félögin eru skuldbundin til að fjarlægja mannvirki og hreinsa jarðveg innan ákveðins tíma. Tillögur þeirra að nýbyggingum verða unnar í samráði við borgaryfirvöld og munu fara í skipulagsferli og grenndar­kynningar. Ef ekki næst sam­komulag um uppbyggingu verða samningar uppsegjanlegir.

Gert er ráð fyrir að nýting og skipulag lóða taki mið af þéttingar­áformum Reykjavíkurborgar og nýting lóðar í samræmi við það. Lóðarhafar samþykkja að Félagsbústaðir hf. hafi kauprétt á 5% íbúða í húsum á lóðinni og kvöð er á lóðunum um að 20% íbúða skuli vera leiguíbúðir, sem auk Félagsbústaði verði stúdenta­íbúðir, búseturéttaríbúðir eða íbúðir fyrir aldraða.

You may also like...