Hljómsveitin SÓLÓ sló í gegn á Bókasafni Seltjarnarness

Hljómsveitin Sóló að spila fyrir gesti í Bókasafni Seltjarnarness.

Það ætlaði allt að verða vitlaust á Tónstöfum í Bókasafni Seltjarnarness þann 1. mars sl. þegar að hljómsveitin SÓLÓ kom fram í fyrsta sinn opinberlega í rúm 50 ár og sigraði svo sannarlega hjörtu vel yfir 100 tónleikagesta.

Hljómsveitin Sóló var stofnuð árið 1961 og var á hátindi frægðar sinnar örfáum árum síðar þegar að hún varð mjög vinsæl danshljómsveit á sjöunda áratugnum. Sóló spilaði gítar- og danstónlist af öllu tagi en fór fljótlega að spila lög The Beatles, Hollies, Searchers, Swinging Blue Jeans, The Shadows og fleiri vinsælla hljómsveita. Hljómsveitin spilaði á öllum helstu dansstöðum landsins og fór í hljómleikaferð til Noregs. Síðan eru liðin rúm 50 ár og hafa félagarnir alla tíð ræktað vináttu sína. Margir hljóðfæraleikarar komu við sögu hljómsveitarinnar en kjarninn var alltaf sá sami og er hljómsveitin nú skipuð þeim Guðmari Marelssyni, Lárusi Hjaltested Ólafssyni, Ólafi Má Ásgeirssyni, Sturlu Má Jónssyni og Þorkeli Snævari Árnasyni. Frá því seint í fyrravetur hafa þeir félagarnir hist vikulega í Tónlistarskólanum á Seltjarnarnesi til að spila saman gömlu lögin og eiga góða stund saman auk þess að njóta stundum leiðsagnar Kára skólastjóra Tónlistarskólans. Það var mál gesta á tónleikunum að hljómsveitin Sóló hefði engu gleymt enda voru þeir klappaðir upp aftur og aftur. Vel gert!

You may also like...